2007 - Leiðrétting - Frétt birt: 2007-07-19 16:28:40


Stjórn SP-Fjármögnunar hf. hefur staðfest árshlutareikning félagsins fyrir
fyrstu 6 mánuði ársins 2007.  Lykiltölur úr rekstri eru þessar helstar (í
millj. króna á verðlagi hvers árs): Sjá viðhengi. 

SP-Fjármögnun hf. er eignaleigufyrirtæki og starfar eftir lögum um
fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.  Félagið er dótturfélag Landsbanka Íslands hf.,
sem á 51,0% hlutafjár, en aðrir hluthafar eru ýmsir sparisjóðir.  Stærsti
eignahluturinn er í eigu Byrs sparisjóðs sem á 31,87% en aðrir eiga minna en
10% hver. 

Árshlutareikningur SP-Fjármögnunar hf. er gerður í samræmi við alþjóðlega
reikningsskilastaðla (IFRS) um árshlutareikninga. 


Rekstur SP-Fjármögnunar í samræmi við áætlanir á fyrri hluta árs 2007

 Hagnaður eftir skatta nam 473 milljónum króna á fyrri hluta ársins 2007 en
  var 245 milljónir fyrir sama tímabil í fyrra og er það 93% hækkun. 

 Hreinar tekjur voru 967 milljónir sem er 47% aukning frá fyrri hluta árs 2006
  þegar hreinar tekjur námu 656 milljónum. 


Efnahagsreikningur 40 milljarðar

 Efnahagreikningur félagsins er lítið eitt stærri en hann var um síðustu
  áramót þrátt fyrir verulega aukin viðskipti.  Kemur það einkum til sökum
  styrkingar krónunnar frá áramótum, en stór hluti útlána SP-Fjármögnunar hf. er
  gengisbundinn.  Efnahagur félagsins fór á árinu í fyrsta sinn yfir 40
  milljarða og stendur nú í 40,1 milljarði. 

 Eigið fé SP-Fjármögnunar hf. var í júnílok kr. 3.741 milljónir. 
  Eiginfjárhlutfall félagsins sem reiknað er samkvæmt 84. gr. laga um
  fjármálafyrirtæki (CAD hlutfall) er 12,5% en skv. lögum má það ekki vera lægra
  en 8%. 


Vanskilahlutföll

 Í lok júní 2007 námu vanskil eldri en 30 daga tæpum 0,7% af heildarútlánum og
  höfðu hækkað úr tæpum 0,5% frá ársbyrjun. 

 Heildarvanskil eru í júnílok um 479 milljónir kr. en á sama tíma nam
  virðisrýrnunarreikningur útlána og eignaleigusamninga hins vegar tæpum 2% af
  heildarútlánum eða 760 milljónum króna. 


Afkoma SP-Fjármögnunar hf. er í samræmi við áætlanir og eru horfur mjög góðar
með árið í heild sinni.  Mikil aukning hefur verið í viðskiptum á árinu og eru
horfur á að árið í heild verði afar hagfellt.  Fyrirtækið hefur vaxið mikið með
reynslumiklu og hæfu starfsfólki.  Á bak við félagið eru sterkir eigendur og er
SP-Fjármögnun hf. því vel í stakk búið fyrir frekari vöxt á komandi misserum. 

Í stjórn SP-Fjármögnunar hf. eru Þorgeir Baldursson formaður, Elín
Sigfúsdóttir, Guðmundur Davíðsson, Magnús Ægir Magnússon og Ragnar Z.
Guðjónsson.  Framkvæmdastjóri félagsins er Kjartan Georg Gunnarsson.

Attachments

sp-fjarmognun hf. - samandreginn arshlutareikningur.pdf sp-fjarmognun hf. - frettatilkynning me lykiltolum.pdf