- 1. ársfjórðungur 2008


2. maí 2008


                         Afkoma Vinnslustöðvarinnar hf.                         
                rekstrartímabilið 1. janúar 2008 - 31. mars 2008                

Stjórn Vinnslustöðvarinnar hf. samþykkti í dag uppgjör félagsins fyrir fyrstu   
þrjá mánuði rekstrarársins. Þar kemur meðal annars fram eftirfarandi:           

Tap var á rekstrinum að upphæð 1.153 milljónir króna, sem er mikil breyting frá 
sama tímabili í fyrra þegar hagnaður nam 765 milljónum króna.  Skýringa þessara 
breytinga er fyrst og fremst að leita í fjármagnsliðum félagsins.               

Heildartekjur félagsins voru 1.623 milljónir króna en 1.750 milljónir króna á   
sama tímabili í fyrra. Tekjur lækkuðu bæði í útgerð og fiskvinnslu.             
Rekstrargjöld hækkuðu um 94 milljónir króna eða úr 1.159 milljónum króna í fyrra
í 1.253 milljónir króna nú.                                                     

Framlegð félagsins (hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði) nam tæplega 370 
milljónum króna og dróst saman um 37,5% frá fyrra ári þegar hún var 592         
milljónir króna.  Framlegðarhlutfall lækkaði úr 33,8% í fyrra í 22,8% í ár.     
Lækkun framlegðar á tímabilinu skýrist að mestu leyti af minni loðnuveiði í ár  
miðað við sama tímabil í fyrra.                                                 

Veltufé frá rekstri nam 394 milljónum króna, sem jafngildir 24,3% af            
rekstrartekjum. Það jókst um 28 milljónir króna frá fyrra ári eða um 7,5%.      

Afskriftir voru tæpar 110 milljónir króna og voru nánast þær sömu og á fyrsta   
ársfjórðungi í fyrra.                                                           

Niðurstaða fjármagnsliða var neikvæð um 1.470 milljónir króna á fyrsta          
ársfjórðungi. Gengistap langtímaskulda félagsins var 1.487 milljónir króna, sem 
skýrist af áhrifum veikingar krónunnar á tímabilinu. Á sama tímabili í fyrra    
voru fjármagnsliðir jákvæðir um 378 milljónir króna.                            

Vegna taprekstrar er tekjuskattskuldbinding félagsins bakfærð sem nemur tæpum   
218 milljónum króna.                                                            

Tekjur Hugins ehf., hlutdeildarfélags Vinnslustöðvarinnar, voru 278 milljónir   
króna og framlegð þess á tímabilinu var tæplega 82 milljón króna. Tap félagsins,
eftir skatta, nam 340 milljón króna sem skýrist af gengistapi að fjárhæð 384    
milljónir króna. Hlutdeild Vinnslustöðvarinnar í tapi Hugins var rúmar 163      
milljónir króna.                                                                

Tekjur About Fish ehf., hlutdeildarfélags Vinnslustöðvarinnar, voru 228         
milljónir króna og framlegð þess tæpar 16 milljónir króna. Hagnaður félagsins,  
eftir skatta, nam rúmum 5 milljónum króna og var hlutdeild Vinnslustöðvarinnar í
þeim hagnaði rúmar 2,6 milljónir króna.                                         



                            Efnahagur 31. mars 2008                             

Heildarskuldir félagsins hækkuðu um 1.548 milljónir króna frá upphafi árs til   
marsloka 2008 og eru  7.778 milljónir króna.  Nettóskuldir eru 5.061 milljónir  
króna en voru 4.055 milljónir króna  í lok síðasta árs. Þær hækkuðu því um 1.006
milljónir króna.                                                                

Eigið fé dróst saman frá áramótum um 1.153 milljónir króna eða um 44%, sem      
skýrist eingöngu af tapi tímabilsins.                                           

Félagið skrifaði undir samkomulag í mars síðastliðnum um væntanleg kaup á 35%   
eignarhlut í Ufsabergi-útgerð ehf., en félagið gerir út togskipið Gullberg      
VE-292.  Samkomulagið er gert með ákveðnum fyrirvörum sem samningsaðilar þurfa  
að uppfylla áður en af eignayfirfærslu getur orðið.  Í lok tímabilsins hafði    
félagið ekkert greitt vegna þessa.  Samningur við eigendur Ufsabergs-útgerðar   
ehf. hefur ekki verið færður í efnahagsreikning félagsins þar sem fyrirvarar    
samkomulagsins haf ekki verið uppfylltir.                                       

                             Rekstrarhorfur á árinu                             

Rekstrarhorfur á yfirstandandi rekstrarári eru óvissar eins og nokkur undanfarin
ár. Loðnuveiðar hafa mikla þýðingu fyrir Vinnslustöðina. Þar sem útgefinn       
loðnukvóti var lítill á yfirstandandi ári mun það hafa mikil áhrif á afkomu     
félagsins. Þá voru aflaheimildir í þorski skornar umtalsvert niður á            
yfirstandandi fiskveiðiári. Þrátt fyrir verðlækkun einstakra mikilvægra         
afurðaflokka Vinnslustöðvarinnar í erlendri mynt er fiskverð á erlendum mörkuðum
enn hátt þegar litið er til sögunnar. Þá hefur lækkandi gengi krónunnar jákvæð  
áhrif á rekstrarhorfur félagsins.  Vonir standa til þess að félagið nái að halda
framlegð síðasta árs.                                                           


Lykiltölur eru á meðfylgjandi viðhengi.

                                                            Frekari upplýsingar:
                                    Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri
                                                    í símum 488 8004 og 897 9607

Attachments

lykiltolur 1. arsfj. 2008.xls arshlutareikn.31.03.2008.pdf 1.  arsfjorugur 2008.doc