Stjórn Teymis hf. boðar til hluthafafundar 20. apríl 2009


Hluthafafundur í Teymi hf. 

Stjórn Teymis hf. boðar til hluthafafundar félagsins mánudaginn 20. apríl 2009
kl. 8:30 á skrifstofu félagins að Suðurlandsbraut 18, Reykjavík. 

Á dagskrá fundarins eru eftirfarandi mál;

1. Tillaga stjórnar um heimild til þess að leita nauðasamninga við kröfuhafa
félagsins. 

2. Tillaga stjórnar um lækkun hlutafjár að fullu og hækkun í lögbundið lágmark. 

3. Tillögur um breytingar á samþykktum félagsins
	a. niðurfelling heimilda stjórnar til hækkunar hlutafjár.
	b. fækkun stjórnarmanna.

4. Stjórnarkjör.

5. Önnur mál. 

Dagskrá og endalegar tillögur munu liggja frammi á skrifstofu félagsins viku
fyrir hluthafafund og á www.teymi.is 

Aðgöngumiðar og atkvæðaseðlar verða afhentir á fundarstað.

Stjórn Teymis hf. 


Tillögur samkvæmt dagskrá hluthafafundar Teymis hf.  20. apríl 2009. 


Dagskrárliður 1.

Stjórn Teymis hf. leggur til við hluthafafund félagsins, sem haldinn er
mánudaginn 20. apríl 2009, að fallist verði á að leita nauðasamnings við
kröfuhafa félagsins til þess að ráða bót á fjárhagslegri stöðu þess og forða
félaginu frá gjaldþroti. 

Greinargerð stjórnar:

Snörp veiking íslensku krónunnar árið 2008 og hátt vaxtastig skulda í íslenskum
krónum olli félaginu miklum búsifjum á árinu 2008 og fram til þessa dags. Það
er því ljóst að rekstur Teymis hf. getur ekki haldið áfram starfsemi í
óbreyttri mynd miðað við núverandi fjárhagsstöðu og rekstrarhorfur. Stjórn
félagsins telur að fyrir félaginu liggi eingöngu að feta annarra tveggja færra
leiða, það er að komast að samkomulagi við lánardrottna með nauðasamningi
ellegar að óska eftir gjaldþrotaskiptum á félaginu. Síðari leiðin er mun lakari
kostur fyrir lánardrottna félagsins, en almennir lánardrottnar munu í því
tilviki væntanlega ekkert fá greitt upp í kröfur sínar. 

Dagskrárliður 2.

Stjórn Teymis hf. leggur til við hluthafafund félagsins, sem haldinn er
mánudaginn 20. apríl 2009, að hlutafé félagsins verði lækkað að fullu, þ.e. úr
kr. 3.048.937.613 í kr. 0, til að mæta því tapi sem orðið hefur á rekstri
félagsins undanfarna mánuði. 

Stjórn Teymis hf. leggur til við hluthafafund félagsins, sem haldinn er
mánudaginn 20. apríl 2009, að hlutafé félagsins verði hækkað um kr. 4.000.000,
að nafnverði á genginu 1,0. Leggur stjórnin til að hluthafar félagsins falli
frá forkaupsrétti sínum að hækkuninni, en Endir ehf., kt. 460309-0690,
Suðurlandsbraut 18, Reykjavík, og Botni ehf., kt. 460309-850, s.st., verði
boðið að skrifa sig fyrir allri hlutafjárhækkunina, helmingur til hvors félags.
Frestur til að skrifa sig fyrir hækkuninni er til 4. maí 2009 og
hlutafjárhækkunina skal greiða fyrir 11. maí 2009. Áætlaður kostnaður af
hlutafjárhækkuninni nemur kr.  50.000. Endir ehf. og Botn ehf. skulu skuldbinda
sig til þess að selja núverandi hluthöfum Teymis hf. af hlutafé sínu í
félaginu, ef til kemur, á genginu 1.0, hlutafé sem svarar samanlagt til sömu
hludeildar í heildarhlutafjáreign þeirra í Teymi hf. lækkun hlutafjár á
hluthafafundi 20. apríl 2009. Núverandi hluthafar í Teymi hf. skulu neyta
kaupréttar samkvæmt þessu ákvæði, ef þeir óska, fyrir 1. Júní 2009. 

Greinargerð stjórnar: 

Fyrir liggur að fjárhagsleg staða félagsins er með þeim hætti að verðmæti
hlutafjár félagsins  miðað við núverandi skuldsetningu er ekkert. Sú
hlutafjárlækkun sem hér er lögð til er forsenda þess að unnt verði að ganga til
nauðasamnings við kröfuhafa félagsins. Lagt er til að hlutafé félagsins verði í
kjölfarið hækkað í lögbundið lágmark. Framangreindum aðilum verði boðið að
skrifa sig fyrir allri hlutafjárhækkuninni. Núverandi hluthafar skulu allt að
einu eiga þess kosta að viðhalda hlutafjáreign sinni í félaginu ef þeir svo
kjósa. 


Dagskrárliður 3.

Stjórn Teymis hf. leggur til við hluthafafund félagsins, sem haldinn er
mánudaginn 20. apríl 2009, eftirfarandi breytingar á samþykktum félagsins: 

Að heimildir stjórnar til hækkunar hlutafjár skv. gr. 2.01.2 og gr. 2.01.3
verði felldar niður. 

Að grein 5.01. í samþykktum félagins verði breytt, þannig að eftirleiðis verði
aðalmenn í stjórn þrír og ákvæði um varamenn verði fellt niður. Ef tillagan
verður samþykkt, þá verður málsgreinin svohljóðandi: 

Stjórn félagsins skal skipuð þremur mönnum kjörnum á hluthafafundi til eins árs
í senn. Um hæfi þeirra fer að lögum. 


Greinargerð stjórnar:

Lagt er til að almenn heimild stjórnar til hækkunar hlutafjár sem og heimild
til hækkunar hlutafjár vegna kaupréttarsamninga starfsmanna verði felldar
niður. Þá gerir stjórnin það að tillögu sinni að stjórnarmönnum verði fækkað úr
fimm í þrjá og skipun varamanna verði felld niður. 

Dagskrárliður 4. 

Dagskrárliður kynntur af fundarstjóra. 

Dagskrárliður 5.

Dagskrárliður kynntur af fundarstjóra.