- Birting uppgjörs fyrir rekstrarárið 1. janúar - 31. desember 2008


Afkoma Vinnslustöðvarinnar hf.
rekstrartímabilið 1. janúar 2008 - 31. desember 2008

Stjórn Vinnslustöðvarinnar hf. samþykkti í dag uppgjör félagsins fyrir
síðastliðið rekstrarár. Ársreikningaskrá hefur gefið félaginu leyfi til að
birta uppgjör sitt í evrum frá 1. janúar 2008 og er það því birt í þeirri mynt
frá þeim tíma.  Samanburðartölur fyrir árið 2007 eru þýddar úr ISK yfir í EUR,
samkvæmt IFRS reikningsskilastöðlum, á árslokagengi 2007 sem þá var 91,2.  Í
uppgjörinu kemur meðal annars fram eftirfarandi: 

1,2 milljón evra tap á rekstrarárinu

•	Tap rekstrarársins var tæplega 1,2 milljónir evra en tæplega 7 milljón evra
hagnaður var á rekstrinum á árinu 2007. 

•	Heildartekjur félagsins voru 63,1 milljónir evra og jukust um 1,5 milljónir
evra frá fyrra ári. Tekjur fiskvinnslu lækkuðu um tæpar 1,3 milljónir evra og
tekjur útgerðar lækkuðu lítillega en tekjur vörusölu, endursölu mjöls og lýsis,
jukust töluvert frá fyrra ári eða um 2,6 milljónir evra. 

•	Framlegð félagsins (hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði) nam 15,2
milljónum evra eða 24% af heildartekjum og jókst um 1,9 milljónir evra frá
fyrra ári en þá var framlegðarhlutfall 21,5%. 

•	Veltufé frá rekstri nam tæpum 5,2 milljónum evra á árinu og var 8,2% af
rekstrartekjum. Veltufé frá rekstri dróst saman um 54% frá fyrra ári þegar það
nam 11,3 milljónum evra. 

•	Afskriftir lækkuðu um 2,7 milljónir evra frá fyrra ári og námu 4,9 milljónum
evra. Lækkunin felst fyrst og fremst í aukafyrningum sem komu til á fyrra
rekstrarári en ekki á þessu rekstrarári. 

•	Niðurstaða fjármagnsliða var neikvæð um 10,8 milljónir evra.  Gengistap nam 8
milljónum evra en á síðasta rekstrarári var gengishagnaður 3,7 milljónir evra. 

•	Tekjur Hugins ehf., hlutdeildarfélags Vinnslustöðvarinnar, voru 1.552
milljónir króna. Framlegð félagsins á tímabilinu var 449 milljónir króna og
jókst um 260 milljónir króna frá fyrra ári. Tap félagsins eftir skatta nam 946
milljónum króna, þar af nam gengistap félagsins 1.298 milljónum króna.
Hlutdeild Vinnslustöðvarinnar í tapi Hugins ehf. nam 3,6 milljónum evra. 

•	Tekjur About Fish ehf., hlutdeildarfélags Vinnslustöðvarinnar, voru 1.645
milljónir króna og framlegð félagsins á tímabilinu var 63,5 milljónir króna.
Tap eftir skatta nam 12 milljónum króna á árinu og var hlutdeild
Vinnslustöðvarinnar í tapinu 29 þúsund evrur. 

•	Vinnslustöðin keypti á árinu 35% hlutafjár Ufsabergs-útgerðar ehf. sem á
togskipið Gullberg VE-292.  Vinnslustöðin hefur leigt skipið ásamt
aflaheimildum þess frá 15. júní 2008. Tekjur félagsins voru 352 milljónir króna
og framlegð tímabilsins var 95 milljónir króna. Tap eftir skatta nam 470
milljónum króna á árinu og var hlutdeild Vinnslustöðvarinnar í tapinu 1,6
milljónir evra. 

•	Félagið stendur að rannsóknar- og þróunarvinnu við veiðar og vinnslu á humri.
 Lítill kostnaður hefur fallið til vegna rannsóknaverkefnanna. 




Efnahagur í árslok
 
Eignir félagsins lækkuðu um 4,9 milljónir evra frá byrjun árs til ársloka.
Heildarskuldir og skuldbindingar Vinnslustöðvarinnar hf. stóðu nánast í stað
frá upphafi árs til ársloka og eru 68,2 milljónir evra. Nettóskuldir eru 50,5
milljónir evra en þær voru 44,5 milljónir evra í lok árs 2007 og hækkuðu því um
6 milljónir evra. 

Eigið fé lækkaði frá áramótum um 4,8 milljónir evra.  Breytingin skýrist annars
vegar af lækkun vegna taps ársins að upphæð tæplega 1,2 milljónir evra og hins
vegar af lækkun vegna útgreiðslu arðs að upphæð rúmar 3,6 milljónir evra. 



Rekstrarhorfur á yfirstandandi ári

Rekstrarhorfur á yfirstandandi rekstrarári eru sæmilegar.  Loðnuveiðar eru
mikilvægar í rekstri félagsins og loðnubresturinn í vetur hefur því mikil áhrif
á horfur ársins.  Félagið tók við töluverðu magni af gulldeplu til bræðslu í
vetur sem vegur þó lítillega upp loðnuleysið.  Auk loðnubrests hefur afurðaverð
hríðlækkað á mörkuðum erlendis.  Ljóst þykir því að framlegð ársins 2009 verði
lægri en hún var árið 2008. 



Afskráning Vinnslustöðvarinnar hf. úr OMX Nordic Exchange

Þann 14. nóvember 2008 var hlutafé félagsins afskráð úr kauphöllinni OMX Nordic
Exchange.  Félagið er hinsvegar með skráð skuldabréf í kauphöllinni. 



Aðalfundur og tillögur um arð

Ákveðið hefur verið að halda aðalfund félagsins föstudaginn 8. maí 2009 í
Akógeshúsinu og hefst fundurinn kl. 16:00. Stjórn félagsins gerir tillögu um að
enginn arður verði greiddur á árinu. 
 


Birtingardagatal Vinnslustöðvarinnar hf.

1. janúar - 30. júní  2009		Vikan 3. - 7. ágúst 2009
Ársuppgjör 2009			Vikan 19. - 23. apríl 2010 

Aðalfundur			8. maí 2009

Greiðsla arðs			Stjórnin leggur til að enginn arður verði greiddur á árinu.



Frekari upplýsingar:
Sigurgeir B. Kristgeirsson framkvæmdastjóri
 í símum 488 8004 og 897 9607

Vinnslustöðin hf.
www.vsv.is

Attachments

frettatilkynning.pdf lykiltolur 2008.pdf arsreikningur 2008.pdf