Fjárhagsleg endurskipulagning Byrs sparisjóðs


Fjármálaráðuneytið fundaði í gær með stjórnendum Byrs sparisjóðs, ásamt
ráðgjöfum beggja aðila og fulltrúum kröfuhafa. Fjallað var um forsendur fyrir
því að stjórnvöld leggi nýtt stofnfé í Byr vegna fjárhagslegrar
endurskipulagningar sparisjóðsins, sem ætlað er að tryggja að hann uppfylli
skilyrði fyrir eiginfjár- og lausafjárstöðu og um rekstrarhæfi. Að mati
ráðuneytisins náðist á fundinum mikilvægur áfangi í átt að endanlegu
samkomulagi og að því að treysta varanlega fjárhagslegar stoðir Byrs. 

Í byrjun nýs árs eru fyrirhugaðar frekari viðræður við Byr og kröfuhafa um
endanlega útfærslu á fyrirliggjandi lausn. 

Er þetta í samræmi við markmið stjórnvalda um að styðja við
endurskipulagningu sparisjóðakerfisins á Íslandi. Með lögum nr. 125/2008 var
fjármálaráðuneytinu veitt heimild til að leggja sparisjóðum til nýtt stofnfé.