Drög að samkomulagi um að lánardrottnar taki yfir rekstur N1


Frá miðju ári 2010 hefur verið unnið að endurfjármögnun og endurskipulagningu efnahags N1 hf. Drög að samkomulagi um fjárhagslega skipulagningu félagsins liggja nú fyrir milli Arion banka hf., Íslandsbanka hf., meirihluta eigenda skuldabréfa í skuldabréfaflokki ESSO 0511 og félagsins sjálfs.

Samkomulagsdrögin gera meðal annars ráð fyrir að lánardrottnar taki yfir rekstur N1 hf  sem lið í uppgjöri á skuldum N1 hf., Umtaks fasteignafélags ehf. og BNT hf., eignarhaldsfélags. Lánardrottnar skuldbinda sig til þess að breyta stórum hluta krafna sinna í hlutafé og styrkja þannig efnahag N1 hf. verulega.

Gangi framangreind áform eftir þá verða stærstu hluthafar N1 hf. skv. samkomulagsdrögunum eftirtaldir:

Arion banki hf.            38,9%

Íslandsbanki hf.          31,9%

Skuldabréfaflokkur     21,3%

Aðrir kröfuhafar           7,9%

Allt frá hruni fjármálakerfisins hafa stjórn og stjórnendur N1 hf. unnið að því verki að tryggja hagsmuni kröfuhafa, viðskiptavina, birgja og starfsmanna sem best. Félagið hefur greitt á sjötta milljarð króna á þessum tíma til lánardrottna og grunnrekstur hefur gengið vel.

Samkomulagsdrögin  gera ráð fyrir að skuldabréfaeigendur fái kröfur sínar gerðar upp með útgáfu hlutabréfa í N1 hf. Langtímalán félagsins verða 8,5 milljarðar eftir endurskipulagningu og hlutfall eigin fjár nálægt 50%.

Reiknað er með að vinnu við fjárhagslega endurskipulagningu ljúki formlega á miðju þessu ári og frestast útgáfa ársreiknings vegna rekstrarársins 2010 þar til í lok maí af þessum sökum.

  

Allar upplýsingar veitir Hermann Guðmundsson forstjóri N1 í síma 440 1000.