Nýtt stjórnskipulag tekur gildi hjá HB Granda


Breytingar hafa verið gerðar á stjórnskipulagi HB Granda hf. Markmið þeirra er að stytta boðleiðir milli veiða og vinnslu og skýra betur línur varðandi ýmsa mikilvæga þætti í rekstrinum. Meginbreytingin felst í því að framleiðslusvið botnfisks og útgerðarsvið hafa verið sameinuð í botnfisksvið og verkefni útgerðarsviðs færð til botnfisksviðs og uppsjávarsviðs. Útgerðarsvið hefur því verið lagt niður.  

Torfi Þ. Þorsteinsson, sem áður veitti framleiðslusviði botnfisks forstöðu, hefur tekið við sem deildarstjóri botnfisksviðs. Rúnar Þór Stefánsson sem veitti útgerðarsviði forstöðu lætur nú af störfum hjá félaginu en mun sem ráðgjafi fylgja úr hlaði ýmsum verkefnum eins og breytingu Helgu Maríu í ísfisktogara. Aðrir starfsmenn útgerðarsviðs færast yfir til botnfisksviðs og uppsjávarsviðs. Hluti af verkefnum útgerðarsviðs flytjast til fjármálasviðs, sem Jónas Guðbjörnsson veitir forstöðu. 

Auk ofangreindra breytinga hefur ný deild viðskiptaþróunar verið stofnuð og heyrir hún beint undir forstjóra. Deildin ber ábyrgð á verkefnum utan Íslands, umhverfismálum og viðskiptaþróun. Svavar Svavarsson, sem áður veitti markaðsdeild forstöðu, er deildarstjóri viðskiptaþróunar.

Þá hefur Brynjólfur Eyjólfsson, sem annaðist rannsóknir í markaðsdeild, tekið við sem deildarstjóri markaðsdeildar. Jafnframt hefur Garðar Svavarsson, sem gegndi starfi sölustjóra í markaðsdeild, tekið við starfi deildarstjóra uppsjávardeildar en Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri, veitti þeirri deild forstöðu áður.

Framkvæmdastjórn félagsins skipa nú forstjóri og deildarstjórar þessara fimm sviða, sem eru eins og áður segir:

  • Botnfisksvið - Torfi Þ. Þorsteinsson
  • Fjármálasvið - Jónas Guðbjörnsson
  • Markaðsdeild - Brynjólfur Eyjólfsson
  • Uppsjávarsvið - Garðar Svavarsson
  • Viðskiptaþróun - Svavar Svavarsson

Breytingarnar hafa þegar tekið gildi.

 

Nánari upplýsingar veitir Vilhjálmur Vilhjálmsson forstjóri í síma 858 1007.
Sjá einnig
heimasíðu félagsins, hbgrandi.is.