Íslandssjóðir hf. – Ársuppgjör 2013


Stjórn Íslandssjóða hf. sem rekur verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóði hefur staðfest ársreikning félagsins fyrir árið 2013.

Afkoma Íslandssjóða hf. árið 2013

  • Ársreikningi félagsins er skipt í tvo hluta, A-hluta sem inniheldur ársreikning Íslandssjóða hf. og B-hluta sem inniheldur ársreikninga verðbréfa- og fjárfestingarsjóða Íslandssjóða. Þessi framsetning á reikningnum er í samræmi við reglur um reikningsskil rekstrarfélaga verðbréfasjóða sem settar eru af Fjármálaeftirlitinu.
  • Hagnaður Íslandssjóða hf. eftir skatta árið 2013 nam 299 m.kr. samanborið við 258 m.kr. árið 2012.
  • Hreinar rekstrartekjur námu 1.350 m.kr. samanborið við 1.208 m.kr. árið áður.
  • Rekstrargjöld námu 976 m.kr. samanborið við 886 m.kr. árið áður.
  • Heildareignir félagsins námu 2.595 m.kr. í árslok 2013 en voru 3.006 m.kr. í ársbyrjun.
  • Eigið fé í árslok 2013 nam 2.031 m.kr. en var 1.925 m.kr. í ársbyrjun.
  • Eiginfjárhlutfall félagsins, sem reiknað er samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, var 211,3% í árslok 2013 en þetta hlutfall má ekki vera lægra en 8,0%.
  • Í lok desember 2013 voru 16 sjóðir í rekstri og slitum hjá félaginu og nam hrein eign þeirra 117.725 milljónum króna. Hagnaður færður á hlutdeildarskírteini eigenda verðbréfa- og fjárfestingarsjóða Íslandssjóða var 6.551 m.kr. árið 2013 samanborið við hagnað uppá 7.643 m.kr. árið 2012.
  • Skipulagsbreytingar urðu hjá félaginu á árinu þegar stofnað var svið sérhæfðra fjárfestinga og þrír starfsmenn ráðnir til að sinna uppbygginga í þeim eignaflokki. Félagið tók yfir þjónustu við Fast-1 sem er sérhæft fjárfestingarfélag í fasteignum. Einnig var stofnaður fagfjárfestasjóðurinn Akur sem fjárfestir í óskráðum hlutabréfum.
  • Félagið sameinaði nokkra verðbréfasjóði á árinu. Lengri skuldabréfasjóðurinn var sameinaður Ríkisskuldabréfum - Sjóði 5 í september og Alþjóða virðissjóðurinn og Alþjóða vaxtarsjóðurinn voru sameinaðir Heimssafni – Sjóði 12 í desember. Einnig var sjóði sem skráður var í Lúxemborg slitið í nóvember.
  • Ársreikningurinn hefur verið endurskoðaður af Deloitte hf. sem telur að reikningurinn gefi glögga mynd af afkomu félagsins og sjóðanna á árinu 2013.
  • Í lok desember 2013 störfuðu 18 starfsmenn hjá Íslandssjóðum. Framkvæmdastjóri félagsins er Haraldur Örn Ólafsson.

Lykiltölur í m.kr.Sjá vi'ðhengi.

 

Ársreikningur félagsins mun liggja frammi hjá Íslandssjóðum hf. Kirkjusandi 2 og hjá VÍB, Eignastýringarþjónustu Íslandsbanka, einnig á heimasíðu félagsins: www.islandssjodir.is frá og með 17. mars næstkomandi.

 

Nánari upplýsingar um ársreikning Íslandssjóða hf. veitir Haraldur Örn Ólafsson, framkvæmdastjóri félagsins, í síma 440 4593.

 


Attachments

Íslandssjóðir - ársreikningur 2013 - undirritaður.pdf Íslandssjóðir - fréttatilkynning ársreikningur 2013.pdf