Árshlutauppgjör Ríkisútvarpsins ohf. 1. september 2014 til 30. júní 2015


Ríkisútvarpið ohf. birtir árshlutauppgjör

Jákvæður viðsnúningur í rekstri Ríkisútvarpsins ohf. og hagnaður af rekstri fyrstu 6 mánaða ársins 2015

Breytt rekstrarár Ríkisútvarpsins ohf.

Á hluthafafundi Ríkisútvarpsins ohf. þann 24. febrúar 2015 var samþykkt breyting á samþykktum félagsins þess efnis að reikningsár félagsins verði almanaksárið í stað 1. september til 31. ágúst. Breytingin var gerð í samræmi við óskir frá hluthafa félagsins, Fjársýslu ríkisins og Ríkisendurskoðun. Af þeim sökum er árshlutauppgjörið sem nú er birt frábrugðið uppgjöri fyrri ára. Árshlutauppgjörið nær því til tímabilsins 1. september 2014 til 30. júní 2015 eða tíu mánuði. Til samanburðar er birt afkoma síðasta rekstrarárs (1. september 2013-31.ágúst 2014). Í þessum rekstrarreikningi er í fyrsta skipti gerð ítarleg grein fyrir reikningshaldslegum aðskilnaði samkeppnisrekstrar og almannaþjónustu líkt og áskilnaður er um. Sem kunnugt er byggjast tekjur RÚV annars vegar á þjónustutekjum og hins vegar auglýsingasölu og öðru sem hér er flokkað sérstaklega og nefnt samkeppnisrekstur. Ljóst er að afkoma samkeppnishluta rekstrarins, þ.e. fyrst og fremst afrakstur auglýsingasölu,  skilar hagnaði sem nýtist félaginu til að fjármagna lögbundna almannaþjónustu Ríkisútvarpsins.

Helstu niðurstöður milliuppgjörsins:

  • Jákvæður viðsnúningur í rekstri frá fyrra ári.
  • Rekstrarniðurstaða tíu mánaða tímabils er 36 m.kr. tap, samanborið við 271 m.kr tap á síðasta rekstrarári.
  • Rekstrarniðurstaða fyrstu sex mánaða ársins 2015 er 17 m.kr. hagnaður.
  • Hagræðingaraðgerðir hafa skilað sér og jafnvægi er að komast á í rekstri félagsins.
  • Enn ríkir óvissa í fjármálum RÚV vegna yfirskuldsetningar félagsins.

Helstu niðurstöður árshlutauppgjörs Ríkisútvarpsins eru að umtalsverður viðsnúningur hefur orðið á rekstri félagsins frá fyrra ári. Rekstrarniðurstaðan sýnir tap upp á 36 m.kr. á fyrstu tíu mánuðum yfirstandandi rekstrarárs (1. september 2014 til 30. júní 2015) meðan tap síðasta rekstrarárs, 2013-2014 var 271 m.kr. eftir skatta. Þá kemur einnig fram að á fyrstu sex mánuðum ársins 2015 (1. janúar til 30. júní 2015) er 17 m.kr. hagnaður.

Helstu ástæður þess að reksturinn batnar eru að tekjur hækka á milli ára og rekstrarkostnaður fer lækkandi vegna ýmissa hagræðingaraðgerða sem gripið hefur verið til í starfsemi félagsins. Þetta gerist þrátt fyrir að kostnaður við dreifikerfi hafi hækkað verulega en sá kostnaður byggist á samningi um stafræna dreifingu sem gerður var vorið 2013. Afskriftir rekstrarfjármuna lækka einnig milli ára en fjármagnskostnaður er enn hár vegna mikillar skuldsetningar. Kostnaður við sameiginlegan rekstur og yfirstjórn lækkar milli tímabila. Stöðugildum fækkar, þau voru að meðaltali 257 á tímabilinu en þeim hefur fækkað á undanförnum árum, voru 297 árið 2013 og 324 árið 2008.

Að mati stjórnar Ríkisútvarpsins er rekstur félagsins að nálgast ákveðið jafnvægi miðað við þá þjónustu sem nú er veitt. Breytingaferli síðasta árs hefur skilað umtalsverðri hagræðingu í rekstri félagsins sem að hluta til sést í þessu árshlutauppgjöri en ávinningur af þeim breytingum á enn eftir að skila sér að fullu. Lögð hefur verið áhersla á að hagræða í umgjörð en verja dagskrá eins og kostur er.

Efnahagur og framtíðarhorfur

Í sjálfstæðri úttekt, sem PwC vann fyrir stjórn félagsins vorið 2014, kom fram að félagið væri yfirskuldsett og gæti ekki staðið undir skuldbindingum sínum að óbreyttu. Vegur þar þyngst gamalt lán vegna uppgjörs á lífeyrisskuldbindingum. Félagið hefur samið við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins um tímabundinn frest á greiðslum af skuldabréfinu. Þá hefur Landsbankinn veitt undanþágu frá lágmarkskröfu um eigið fé í lánaskilmálum þar sem eigið fé félagsins var á síðasta ári komið undir tilgreint lágmark. Gildir undanþágan vegna reksturs félagsins á almanaksárinu 2015. Í áritun endurskoðanda í síðasta ársreikningi kom fram að vafi léki á greiðsluhæfi félagsins.

Lög um Ríkisútvarpið frá árinu 2013 tóku breytingum þannig að möguleikar félagsins á öflun auglýsingatekna voru takmarkaðir í upphafi árs 2014 og útvarpsgjald var lækkað í upphafi árs 2015. Til að bregðast við þessari stöðu hefur Ríkisútvarpið unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu, ráðist í margvíslegar hagræðingaraðgerðir og unnið að sölu eigna til að lækka skuldir félagsins. Eins og áður segir sýnir árshlutauppgjörið að hagræðingin er þegar farin að bera árangur.

Á undanförnu ári hefur verið unnið að söluferli byggingarréttar á lóð Ríkisútvarpins sem stjórn félagsins væntir að muni lækka skuldir umtalsvert. Á hinn bóginn hefur stjórn Ríkisútvarpins vakið athygli eigandans, ríkisins, á því að þrátt fyrir framangreindar aðgerðir hefur félagið ekki burði til þess að standa undir þeirri miklu skuldsetningu sem á félaginu hvílir án verulegra niðurskurðaraðgerða sem áhrif myndu hafa á alla þjónustu félagsins.

Óvissa um framtíð

Ljóst er að auglýsingatekjur Ríkisútvarpsins muni, vegna takmarkana í lögum og þróunar á markaði, halda áfram að dragast saman að raungildi. Þá liggur fyrir að nýsamþykktir kjarasamningar á almennum markaði munu hækka rekstrarkostnað umtalsvert. Gert er ráð fyrir að laun og launatengd gjöld muni vegna þessa hækka um tæplega 140 m.kr. á seinni hluta ársins 2015 og aftur um 180 m.kr. á árinu 2016. Áhrif aukinnar verðbólgu verða einnig mikil eða um 70–90 m.kr. á ári í hækkun rekstrarkostnaðar miðað við verðbólguspár. Stjórn Ríkisútvarpsins hefur því vakið athygli á því að til að ekki þurfi að grípa til enn frekari niðurskurðaraðgerða og þjónustuskerðingar megi útvarpsgjald ekki lækka frekar en orðið er, heldur verði að taka mið af verðlagsþróun.


Attachments

Árshlutareikningur_Ríkisútvarpið ohf..pdf Fréttatilkynning_Árshlutareikningur_Ríkisútvarpið ohf.pdf