Ársreikningur Vestmannaeyjabæjar árið 2016

Vestmannaeyjabær skilar jákvæðum rekstarafgangi tíunda árið í röð. - Skuldir hafa lækkað um rúmlega 90% síðan 2006


Samkvæmt ársreikningi Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2016 voru heildar rekstrartekjur samstæðu Vestmannaeyjabæjar 4.661 m.kr. og rekstrargjöld fyrir afskriftir og fjármagnsliði námu 4.218 m.kr. Rekstrarafkoma samstæðu var jákvæð um tæpar 417 milljónir.

Ársreikningur Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2016 ber það með sér að rekstur Vestmannaeyjabæjar gengur vel.  Hjá aðalsjóði var veltufé frá rekstri 815 milljónir og hjá samstæðu Vestmannabæjar var veltufé frá rekstri rúmar 1.065 milljónir.

Vestmannaeyjabær hefur á seinustu árum verið að greiða niður áratuga gamlar skuldir og er búinn að greiða niður skuldir og skuldbindingar fyrir u.þ.b. 5.353 milljónir síðan 2006 og hafa skuldir lækkað um rúmlega 90% á þessum tíma.  Með reglulegum afborgunum mun Vestmannaeyjabær nálgast það að verða skuldlaus við lánastofnanir innan fárra ára. Lífeyrisskuldbinding Vestmannaeyjabæjar hefur hins vegar hækkað mikið undanfarin ár og var gjaldfærslan árið 2016 um 473 milljónir hjá samstæðu Vestmannaeyjabæjar og nam hún 10,1% af heildartekjum Vestmannaeyjabæjar.

Þrátt fyrir mikla hækkun lífeyrisskuldbindinga hefur skuldahlutfall sveitarfélagsins eins og það er skilgreint í 64 gr. sveitarstjórnarlaga lækkað á milli ára hjá samstæðunni en lítilega hækkað á milli ára hjá A-hlutanum. Í lok árs 2016 stóð skuldahlutfallið í 123,2% hjá A-hlutanum og skuldaviðmiðið var 14,4%. Hjá samstæðunni var skuldahlutfallið 106,4% og skuldaviðmiðið 11,7%. Hámarks skuldahlutfall skv. sveitarstjórnarlögum er 150 %.

Heildareignir samstæðu Vestmannaeyjabæjar námu 11.831 m.kr. í árslok 2016, þar af stóð handbært fé og skammtímafjárfesting í 3.248 milljónum og hækkaðu þessir liðir um 520 milljónir á milli ára.

Allar kennitölur í rekstri sýna sterka og góða fjárhagsstöðu Vestmannaeyjabæjar. Veltufjárhlutfall sveitarsjóðs er 4,15 og eiginfjárhlutfallið er 53,9%.  Veltufjárhlutfall samstæðu er 7,38 og eiginfjárhlutfall þess 58,1%.

Rekstur sveitarfélags er eins og rekstur fjölskyldu.  Allri innkomu er varið til að bæta lífsgæði íbúa og tryggja þeim farsæld til lengri og skemmri tíma.  Það skiptast sannarlega á skin og skúrir og svigrúmið til að mæta ýtrustu kröfum bæjarbúa er breytilegt.  Ætíð skiptir þó sköpum að kjörnir fulltrúar hafi kjark til að taka ákvarðanir sem um tíma kunna að vera umdeildar.  Að hagræða til að mæta breyttum kröfum en þenja ekki stöðugt út reksturinn jafnvel þótt tíma bundið kunni að vera sigrúm til þess.  Að eyða um efni fram án fyrirhyggju felur feigðina í sér.  Hlutverk kjörinna fulltrúa er fyrst og fremst að tryggja langtíma velferð þess samfélags sem þeim er treyst til að gæta og það er best gert með því að koma í veg fyrir óhóflega skuldasöfnun og tryggja hámarks þjónustu á sem hagkvæmasta máta.

Niðurstaða ársreiknings Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2016 er til marks um þetta leiðarljós bæjarstjórnar og henni fyrst og fremst hvatning til að gæta þess áfram að missa ekki tökin á skulda og útgjaldahliðinni. 

Vandaður rekstur er það sem best tryggir öfluga og góða þjónustu. 

 

 

Elliði Vignisson
bæjarstjóri í Vestmannaeyjum

GSM: 690-1599
ellidi@vestmannaeyjar.is


Attachments

Ársreikningur Vestmannaeyjabær 2016.pdf