Ársreikningur Norðurþings og stofnana fyrir árið 2017


Norðurþing
Reikningsskil

Ársreikningur Norðurþings og stofnana fyrir árið 2017

Byggðarráð Norðurþings samþykkti ársreikning Norðurþings og stofnana sveitarfélagsins fyrir árið 2017 á fundi sínum þann 20. apríl 2018 og fór fyrri umræða í sveitarstjórn fram þann 24. apríl.

Samkvæmt lögum ber að fjalla um ársreikninginn á tveimur fundum í sveitarstjórn og fer síðari umræða fram þann 15. maí 2018, þar sem staðfesting sveitarstjórnar á ársreikningnum er fyrirhuguð.

Komi ekki fram mikilvægar viðbótarupplýsingar, sem geta haft áhrif á gerð ársreikningsins og/eða niðurstöður hans við afgreiðslu og samþykkt sveitarstjórnar munu endurskoðendur árita ársreikninginn með fyrirvaralausri áritun og sveitarstjórn staðfesta ársreikninginn í fyrirliggjandi mynd.

Rekstrarafkoma samstæðu Norðurþings

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu 2017 námu 4.465 milljónum króna samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A og B hluta.  Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A og B hluta var 307 milljónum króna betri en fjárhagsáætlanir gerðu ráð fyrir en samstæðan skilaði um 361 milljón í restrarafgang. Betri afkomu en gert var ráð fyrir má fyrst og fremst rekja til hærri tekna.  Eigið fé samstæðu sveitarfélagsins í árslok nam 1.386 milljónum króna samkvæmt efnahagsreikningi.  Veltufé frá rekstri samstæðunnar nam um 828 milljónum króna.  Handbært fé samstæðunnar í árslok nam 614 milljónum króna. 

Laun og launatengd gjöld á árinu námu alls 2.356 milljónum króna en starfsmannafjöldi hjá sveitarfélaginu og dótturfélögum þess nam 268 stöðugildum. Rekja má launahækkun fram yfir áætlanir að mestu til uppgjörs við lífeyrissjóðinn Brú, auk þess sem hækkun á lífeyrisskuldbindingu var 48 milljónir umfram áætlun.  Íbúafjöldi sveitarfélagsins 1. desember 2017 var 3.234 og fjölgaði um 234 frá fyrra ári.

Skuldahlutfall samkvæmt reglum um fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga fór úr 136% árið 2016 í 127% árið 2017. 

Nánari upplýsingar veitir Drífa Valdimarsdóttir, fjármálastjóri og staðgengill sveitarstjóra Norðurþings í síma 464-6100

Húsavík, 24. apríl 2018

Viðhengi


Attachments

01-Arsreikningur Nordurthings og stofnana fyrir árið 2017.pdf