Þriggja mánaða uppgjör Landsvirkjunar


Mettekjur og sterk fjármunamyndun

Helstu atriði árshlutareiknings

  • Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 108,7 milljónum USD (14,8 mö.kr.), en var 77,3 milljónir USD á sama tímabili árið áður og hækkar því um  40,6%. 
  • Hagnaður tímabilsins var 91,6 milljónir USD (12,5 ma.kr.), en var 112,5 milljónir USD á sama tímabili árið áður.
  • Rekstrartekjur námu 175,4 milljónum USD (23,9 ma.kr.) og hækka um 28,4 milljónir USD (19,3%) frá sama tímabili á árinu áður.
  • Nettó skuldir lækkuðu um 136,7 milljónir USD (18,6 ma.kr.) frá áramótum og voru í lok mars 711,3 milljónir USD  (96,7 ma.kr.).
  • Handbært fé frá rekstri nam 144,4 milljónum USD (19,6 mö.kr.), sem er 42,9% hækkun frá sama tímabili árið áður.
  • Aðalfundur samþykkti arðgreiðslu til eigenda að fjárhæð 140 milljónir USD.
  • Landsvirkjun gerir ekki samstæðuárshlutareikning með dótturfélögum sínum Icelandic Power Insurance Ltd. og Landsvirkjun Power ehf., þar sem áhrif þess eru talin vera óveruleg. Þess í stað eru reikningsskilin gerð í samræmi við staðalinn IAS 27 Aðgreind reikningsskil.

Hörður Arnarson, forstjóri:

„Afkoma fyrsta ársfjórðungs var með miklum ágætum. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði, sem endurspeglar  afkomu grunnrekstrar Landsvirkjunar,  jókst um ríflega 40% frá sama fjórðungi ársins 2022. Rekstrartekjur jukust um tæplega fimmtung frá fyrra ári, sem skýrist af aukinni raforkusölu, háu raforkuverði til stórnotenda og tekjum vegna innleystra áhættuvarna. Á sama tíma lækkaði rekstrarkostnaður fyrirtækisins um 8% frá fyrra ári. Fjármunamyndunin var einnig mjög sterk á fyrsta ársfjórðungi, en handbært fé frá rekstri hækkaði á fjórðungnum um 43% frá fyrra ári og var tæpir 20 milljarðar.

Rekstur aflstöðva gekk vel á ársfjórðungnum og jókst orkuvinnsla um 5% frá fyrra ári. Á tímabilinu þurfti þó ítrekað að takmarka afhendingu á skerðanlegri orku til gagnavera og fiskmjölsframleiðenda vegna þess að raforkukerfi Landsvirkjunar er nú rekið nálægt hámarks afkastagetu. Landsvirkjun vinnur nú hörðum höndum að því að afla tilskilinna leyfa til uppbyggingar raforkuvinnslu til að uppfylla þá orkuþörf sem augljóslega er í samfélaginu, bæði almennt og vegna orkuskipta.“

Viðhengi



Attachments

Árshlutareikningur janúar til mars 2023 Fréttatilkynning