Landsvirkjun semur um sjálfbærnitengda lánalínu


Landsvirkjun hefur gengið frá samningum um lánalínu að fjárhæð 125 milljónir bandaríkjadala eða jafnvirði 17 milljarða íslenskra króna. Lánið er til þriggja ára með heimild til framlengingar tvisvar, um eitt ár í senn. Lánalínan veitir Landsvirkjun aðgengi að fjármunum sem fyrirtækið getur dregið á og endurgreitt eftir þörfum. Lánalínan kemur í stað eldri lánalínu að fjárhæð 150 milljónir bandaríkjadala og endurspeglar lækkun lánalínu sterka fjárhagslega stöðu fyrirtækisins og minni þörf fyrir aðgengi að lausafé.

Vaxtakjör tengd árangri Landsvirkjunar í sjálfbærnimálum

Kjör lánalínunnar eru hagstæð en sé dregið á línuna ber lánið breytilega vexti með 45 punkta álag ofan á SOFR millibankavexti. Stefna Landsvirkjunar er að vera í forystu í loftslags- og umhverfismálum. Í samræmi við þá stefnu eru vaxtakjör lánalínunnar tengd við tvö metnaðarfull markmið Landsvirkjunar á sviði umhverfismála.  Annars vegar að ná kolefnishlutleysi í lok árs 2025 og hins vegar að hætta að kaupa jarðefnaeldsneyti árið 2030. Vaxtakjörin á láninu lækka um 2,5 punkta ef markmiðunum verður náð  en hækka um 2,5 punkta ef þau nást ekki.

Sjálfbærnitenging lánalínunnar er í samræmi við stefnu Landsvirkjunar um að öll ný fjármögnun félagsins skuli vera græn eða sjálfbærnitengd.

Fjórir viðskiptabankar Landsvirkjunar eru þátttakendur í lánalínu

Viðskiptabankar Landsvirkjunar eru þátttakendur í lánalínunni, en það eru Barclays Bank Ireland PLC, ING Belgium SA/NV, BNP Paribas S.A. og Cooperative Rabobank U.A.. Jafnframt var Barclays Bank Ireland PLC ráðgjafi Landsvirkjunar í ferlinu.

Nánari upplýsingar veitir Rafnar Lárusson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs.

Sími 515 9000, netfang: rafnar.larusson@landsvirkjun.is