Arnar Már gerður að aðstoðarforstjóra PLAY


Arnar Már Magnússon hefur verið gerður að aðstoðarforstjóra flugfélagsins PLAY. Arnar Már hefur verið framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs PLAY og mun áfram sinna þeirri stöðu meðfram nýju hlutverki.

„Sem einn af stofnendum PLAY er Arnar Már lykilmaður innan félagsins og hans þekking og áralanga reynsla úr flugbransanum mun nýtast okkur afar vel í næstu skrefum. Ég er virkilega þakklátur að hafa hann mér við hlið og sannfærður um að þetta sé mikið heillaskref fyrir félagið,“ segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri PLAY.

„Það hefur verið einstakt að fylgjast með PLAY slíta barnsskónum og nú stöndum við á tímamótum þar sem við erum í kjörstöðu til að gera enn betur. Ég hef stoltur fylgst með samstarfsmönnum vaxa og dafna í gegnum þetta krefjandi ferli að stofna nýtt flugfélag og nú státum við að glæsilegu fyrirtæki sem hefur alla burði til að verða enn betra. Ég er þakklátur því trausti sem mér er sýnt með þessari breytingu og fullur eftirvæntingar að auka hróður PLAY enn frekar með samstarfsfólki mínu,“ segir Arnar Már Magnússon, aðstoðarforstjóri PLAY.