Exista með 15,48% hlut í Sampo Group í Finnlandi


Sampo Oyj (Sampo) hefur í morgun sent tilkynningu til kauphallarinnar í Helsinki þess efnis, að í kjölfar viðskipta með A-hluti í Sampo ræður Exista nú yfir hlutum sem nema yfir 15% af heildarhlutafé í Sampo. Eftir þessi viðskipti ræður Exista yfir 90.118.408 A-hlutum í Sampo, sem svarar til 15.48% af heildarhlutafé. Áætlað meðalverð hlutanna í viðskiptunum nam 20,5 evrum á hlut. Samkvæmt lokagengi hlutabréfa í Sampo í gær er markaðsvirði þessa hlutar um 1,9 milljarðar evra, eða um 170 milljarðar króna.

Exista hefur gert samning um yfirtöku á 55.340.400 A-hlutum í Sampo sem eru í vörslu dótturfélags í Hollandi, Exafin B.V. Exafin B.V. var áður dótturfélag í óbeinni eigu Tchengiuz Family Trust.  

Exista hefur tryggt fjármögnun kaupanna með lánssamningum, útgáfu nýrra hluta, eigin bréfum og reiðufé. Í tengslum við kaupin og með hliðsjón af fyrirvörum samningsins, hefur stjórn Exista skuldbundið sig til að nýta að hluta heimild í samþykktum félagsins til að gefa út 526.652.209 nýja hluti í Exista, sem notaðir verða til greiðslu í viðskiptunum. Eftir að greiðsla hefur farið fram með nýja hluti og eigin bréfa Exista mun Tchenguiz Family Trust verða endanlegur eigandi 559.404.098 hluta í Exista, með lágmarks eignartíma í 12 mánuði. Frekari greiðslur ráðast af væntanlegum arði sem tekin verður ákvörðun um á aðalfundi í mars. 

Í tengslum við kaupin hefur Exista gengið frá langtíma lánssamningi við leiðandi banka á heimsvísu. Exista býr yfir fjárhagslegum styrk til þess að ráðast í þessi kaup og er gert ráð fyrir að eiginfjárhlutfall samstæðunnar fari ekki undir 40% eftir kaupin. 

Fyrir fyrirgreind kaup réð Exista yfir 25.267.053 A-hlutum í Sampo í gegnum innlend dótturfélög sín, Exista fjárfestingar ehf. og Vátryggingafélag Íslands hf. Auk þess hafa Exista fjárfestingar keypt í dag 9.510.955 A-hluti í Sampo.

Viðskiptin eru m.a. háð samþykkis fjármálaeftirlitsstofnana í viðkomandi löndum.

Sampo er leiðandi tryggingafélag á Norðurlöndunum með 3,5 milljarða evra í árleg iðgjöld af vátryggingastarfsemi og 600 milljónir evra í árleg iðgjöld af líftryggingastarfsemi. Sampo samanstendur af If, sem er stærsta vátryggingafélag á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum, og Sampo Life sem starfar á sviði líftrygginga og lífeyrissparnaðar. Sampo er jafnframt umsvifamikill fjárfestir á norrænan mælikvarða með fjárfestingaeignir yfir 20 milljarða evra. Sampo er skráð í OMX Nordic Exchange í Helsinki.

Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Exista:
"Við lítum á þessa fjárfestingu sem kjölfestueign til langs tíma og hún endurspeglar trú okkar á framtíð Sampo sem forystuafls á norrænum markaði. Sampo fellur fullkomlega að áherslum Exista á fjármálaþjónustu og uppfyllir skilyrði okkar um traustan efnahag, sterka markaðsstöðu og öfluga stjórnendur."
	
Frekari upplýsingar veita:
Exista hf.		                   +354 550 8600
Lýður Guðmundsson
Stjórnarformaður

Sigurdur Nordal
Framkvæmdastjóri samskiptasviðs                    +354 550 8620
sn@exista.com



Um Exista
Exista er fyrirtæki í fjármálaþjónustu sem starfar á sviði trygginga, eignaleigu og fjárfestinga, m.a. undir merkjum VÍS og Lýsingar. Exista er kjölfestufjárfestir í nokkrum af stærstu fyrirtækjum landsins, þar á meðal Kaupþingi, Bakkavör Group og Símanum. Hluthafar Exista eru rösklega 30 þúsund talsins.