Dótturfyrirtæki Icelandair Group og Virgin gera samning-Andvirði 7,3 milljarðar króna


Lettneska flugfélagið LatCharter, sem er í eigu Loftleida Icelandic, dótturfyrirtækis Icelandair Group, hefur gert samning við flugfélagið Virgin Nigeria Airlines, dótturfyrirtæki Virgin Atlantic Airways, um daglegt flug á tveimur breiðþotum af gerðinni Boeing 767-300ER, milli London og Jóhannesarborgar með viðkomu í Lagos. Gert er ráð fyrir að flugið muni hefjast í apríl á þessu ári.

Sigþór Einarsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair Group og stjórnarformaður LatCharter segir samninginn þann stærsta í sögu Loftleiða Icelandic og Latcharter. Andvirði samningsins er um 7,3 milljarðar króna á næstu fjórum árum. Samningurinn gefur tekjur upp á 2,2 milljarða króna á ári fyrstu tvö árin og 1,5 milljarða króna á ári eftir það. "Icelandair Group hefur þá stefnu að vaxa hratt á sviði alþjóðlegs leiguflugs og flugvélaviðskipta og þessi samningur er til marks um það. Við lítum á þetta starf sem útrás í þekkingariðnaði því við erum í raun að flytja út þá miklu reynslu og viðskiptasambönd í alþjóðlegri flugstarfsemi sem er til staðar innan Icelandair Group. Þessi samningur er mikilvægur áfangi á þeirri leið, hann eykur veltu fyrirtækjanna hratt, hann opnar nýja markaði og veitir tækifæri til frekari vaxtar", segir Sigþór.

"Árangur af markaðssetningu þessarar starfsemi í Afríku er ánægjulegur, en þar er mikill vöxtur í flugi og ferðaþjónustu. Sem dæmi má nefna að auk þessa nýja verkefnis LatCharter hafa Loftleidir Icelandic frá því í nóvember á síðasta ári rekið Boeing 767-300ER breiðþotu fyrir Ghana International Airlines á flugleiðinni milli London og Jóhannesarborgar með viðkomu í Accra", segir Sigþór Einarsson. 

Loftleiðir eignuðust leiguflugfélagið LatCharter Airlines í Lettlandi á miðju síðasta ári. Félagið hafði þá tvær Airbus A320 þotur í rekstri.  Nú hefur floti félagsins nær þrefaldast þegar Boeing breiðþoturnar sem flogið verður fyrir Virgin bætast við. Gert er ráð fyrir að flugfloti LatCharter vaxi enn frekar á næstunni, auk þess sem áfram verði jafn og stöðugur vöxtur í grunnstarfsemi Loftleiða Icelandic.

Virgin Nigeria flugfélagið var stofnað í September 2004 og er hluti af Virgin, fyrirtækjakeðjunni sem Richard Branson stýrir. Félagið er dótturfyrirtæki Virgin Atlantic Airways.  Flugfloti Virgin Nigeria er nú 11 flugvélar sem sinna áætlunarflugi til 10 áfangastaða.

Nánari upplýsingar veitir Sigþór Einarsson, í síma +354 50 50 371