Aðalfundur Icelandair Group hf. árið 2007


Aðalfundur Icelandair Group hf. árið 2007.


Stjórn Icelandair Group hf. boðar til aðalfundar félagsins árið 2007 vegna rekstrarársins 2006. Fundurinn er haldinn að Nordica hótel þriðjudaginn 13. mars 2007 kl. 16.00 síðdegis.

Á dagskrá fundarins eru:

1.	Hefðbundin aðalfundarstörf skv. 2. mgr. 14. gr. samþykkta félagins.
2.	Tillaga um breytingar á samþykktum félagsins.
3.	Tillaga stjónar um starfskjarastefnu Icelandair Group hf. kynnt og staðfest.
4.	Önnur mál löglega upp borin.

Nánar:

A. Framboð til stjórnar: 
Framboðum til stjórnar skal skilað skriflega fyrir kl. 16.00 fimmtudaginn 8. mars 2007 til skrifstofu félagsins á Reykjavíkurflugvelli. Í tilkynningu um framboð til stjórnar skal gefa, auk nafns frambjóðanda, kennitölu og heimilisfangs, upplýsingar um aðalstarf, önnur stjórnarstörf, menntun, reynslu og hlutafjáreign í félaginu. Þá skal einnig upplýsa um hagsmunatengsl við helstu viðskiptaaðila og samkeppnisaðila félagsins, sem og hluthafa sem eiga meira en 10% hlut í félaginu.

B. Tillaga um arðgreiðslur:
Stjórn gerir tillögu um að hluthöfum skuli ekki greiddur arður vegna rekstrarársins 2006, heldur skuli rekstrarhagnaður leggjast við höfuðstól til hækkunar á honum.

C. Tillögur um breytingar á samþykktum:
Tillögur um breytingar á samþykktum félagsins fela í sér heimild til stjórnar til að heimila hluthöfum að taka þátt í hluhafafundum með rafrænum hætti, þ.m.t. í atkvæðagreiðslum, eða að hluthöfum verði að lágmarki boðið að greiða atkvæði bréflega fyrirfram um tillögur sem lagðar eru fyrir hluthafafundi. Í annan stað kveða tillögur stjórnar á um að varamönnum í stjórn félagsins verði fjölgað úr tveimur í þrjá. Í þriðja lagi kveða tillögurnar á um breytingar á samþykktum sem fela í sér skýrari reglur um upplýsingargjöf vegna framboðs til stjórnar og hvernig fara skuli með slík framboð.


Dagskrá aðalfundarins, ársreikningur félagsins, og endanlegar tillögur munu liggja frammi á skrifstofu félagsins á Reykjavíkurflugvelli til skoðunar fyrir hluthafa frá og með 6. mars 2007. 

Óski hluthafi eftir að fá ákveðið mál tekið til meðferðar á fundinum skal ósk hans komið skriflega til skrifstofu félagsins á Reykjavíkurflugvelli í síðasta lagi hinn 6. mars 2007.

Aðgöngumiðar, fundargögn og atkvæðaseðlar verða afhentir hluthöfum eða umboðsmönnum þeirra á fundarstað frá kl. 15.00 á fundardegi, þriðjudaginn 13. mars 2007.


Stjórn Icelandair Group hf.

Tillögur stjórnar Icelandair Group hf. um breytingar á samþykktum félagsins á aðalfundi þess þann 13. mars 2007


Tillögurnar eru svohljóðandi:

Lagt er til að við 11. gr. bætist nýjar 8.-11. mgr. svohljóðandi:

"Stjórn félagsins er heimilt að ákveða að hluthafar geti tekið þátt í fundarstörfum hluthafafunda með rafrænum hætti, þar með talið greitt atkvæði, án þess að vera á fundarstað. Ákveði stjórn að nýta þessa heimild skal um það sérstaklega getið í fundarboði og leiðbeiningar varðandi þátttöku veittar.

Skal hluthafi sem hyggst nýta sér rafræna þátttöku tilkynna skrifstofu félagsins þar um með skriflegum hætti eigi síðar en 5 dögum fyrir boðaðan hluthafafund. Tilkynningunni skulu fylgja skriflegar spurningar er varða dagskrá fundarins eða framlögð skjöl, óski þeir svara á fundinum.

Telji stjórn félagsins ekki vera fyrir hendi ástæður eða aðstæður til að bjóða upp á þátttöku með rafrænum hætti skal hluthöfum þó veittur kostur á að greiða atkvæði um mál sem eru á dagskrá fundarins bréflega. Í fundarboði skal kveðið á um framkvæmd  atkvæðagreiðslunnar. Skal beiðni um slíka atkvæðagreiðslu hafa borist skrifstofu félagsins eigi síðar en 5 dögum fyrir auglýstan hluthafafund.

Að öðru leyti en hér er kveðið á um skal um rafræna þátttöku og/eða rafrænar atkvæðagreiðslur gilda ákvæði 80. gr. a. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, sbr. lög nr. 89/2006."


Lagt er til að 1. mgr. 18. gr. verði breytt með eftirfarandi hætti:

Í stað þess að 1. mgr. 18. gr. hljóði þannig:

"Stjórn félagsins skal skipuð sjö mönnum og tveimur til vara, kjörnum á aðalfundi til eins árs í senn. Um hæfi stjórnarmannanna fer að lögum. Stjórnarkjör skal jafnan vera skriflegt, ef tillögur koma fram um fleiri menn en kjósa skal."

Muni 1. mgr. 18. gr. hjóða þannig:

"Stjórn félagsins skal skipuð sjö mönnum og þremur til vara, kjörnum á aðalfundi til eins árs í senn. Um hæfi stjórnarmannanna fer að lögum. Stjórnarkjör skal jafnan vera skriflegt, ef tillögur koma fram um fleiri menn en kjósa skal."

 

Lagt er til að við 18. gr. bætist nýjar 4.-6. mgr. svohljóðandi: 

"Í tilkynningu um framboð til stjórnar skal gefa, auk nafns frambjóðanda, kennitölu og heimilisfangs, upplýsingar um aðalstarf, önnur stjórnarstörf, menntun, reynslu og hlutafjáreign í félaginu. Þá skal einnig upplýsa um hagsmunatengsl við helstu viðskiptaaðila og samkeppnisaðila félagsins, sem og hluthafa sem eiga meira en 10% hlut í félaginu.

Félagsstjórn skal fara yfir framboðstilkynningar og gefa hlutaðeigandi með sannanlegum hætti kost á því að bæta úr þeim göllum sem eru á tilkynningunni innan tiltekins frests. Ef ekki er bætt úr göllum á framboðstilkynningunni innan tilsetts frests úrskurðar félagsstjórn um gildi framboðs. Unnt er að skjóta niðurstöðu félagsstjórnar til hluthafafundar sem fer með endanlegt úrskurðarvald um gildi framboðs.

Upplýsingar um frambjóðendur til stjórnar hlutafélags skulu lagðar fram hluthöfum til sýnis á skrifstofu félagsins eigi síðar en tveimur dögum fyrir hluthafafund."


Aðrar tillögur um breytingar á samþykktum félagsins mun stjórn þess ekki leggja fram á næsta aðalfundi.