Lánasjóður sveitarfélaga - Ársuppgjör 2006


Aukning á starfsemi Lánasjóðs sveitarfélaga

Lánasjóður sveitarfélaga er lánafyrirtæki og starfar eftir lögum um fjármálafyrirtæki undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Helstu niðurstöður úr ársreikningum sjóðsins í m.kr. eru:

Rekstur ársins		  2006	2005	2004*	2003*	
		
Hreinar vaxtatekjur 	1.210,0	724,5	755,6	642,3	
Aðrar rekstrartekjur	42,5	16,2	88,4	38,5	
Almennur rekstrarkostnaður	63,7	51,8	33,1	26,1	
Hagnaður ársins  	1.188,7	688,9	810,9	654,7	

Efnahagur 31. desember 	2006	2005	2004*	2003*	
			
Útlán	31.691,9	22.539,9	14.557,6	12.410,8	
Aðrar eignir	2.274,7	1.387,5	519,3	384,4	
Langtímaskuldir	22.063,3	13.217,7	5.129,5	3.661,6	
Aðrar skuldir	3.044,4	39,4	34,8	32,0	
Eigið fé	8.858,9	10.670,2	9.912,5	9.101,6	

CAD-hlutfall	120,1%	220,9%	
			
*) Uppgjör fyrir árin 2003 og 2004 er samkvæmt eldri reikningsskilaaðferðum.

Afkoma 2006
Afkoma sjóðsins árið 2006 er nokkuð betri en væntingar stóðu til og reyndist tekjuafgangur 1.189 m.kr. á móti 689 m.kr. árið áður. Aukning hagnaðar á aðallega skýringu í hærri verðbólgu á árinu, en eignir sem samsvara eigin fé sjóðsins eru að mestu bundnar í verðtryggðum útlánum. Ávöxtun á lausu fé var einnig ágæt. 
 
Hlutverk sjóðsins er að tryggja sveitarfélögum, stofnunum þeirra og fyrirtækjum lánsfé á hagstæðum kjörum. Samþykktar lánveitingar á árinu 2006 voru 12.302 m.kr. á móti 9.578 m.kr. árið áður, en útborganir lána á árinu voru 9.099 m.kr. Eftirspurn eftir gengistryggðum lánum fór vaxandi á árinu og tók sjóðurinn erlend lán að fjárhæð 55 m.EUR til að anna þeirri eftirspurn. 

Sjóðurinn hefur ekki tapað útláni frá því að hann hóf starfsemi árið 1967 og engin vanskil voru í árslok 2006. Sveitarfélögin bera ekki ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins, en tryggingar fyrir útlánum hans eru í tekjum sveitarfélaga skv. 3. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, sbr. einnig reglugerð um tryggingar Lánasjóðs sveitarfélaga í tekjum sveitarfélags nr. 123/2006.

Eigið fé í árslok 2006 var 8.859 m.kr. á móti 10.670 m.kr. árið áður. Í uppgjörinu er tekið tillit til sérstakrar niðurfærslu eigin fjár að fjárhæð 3.000 m.kr. Vegið eiginfjárhlutfall, svonefnt CAD-hlutfall, var í árslok 2006 120% en þarf að vera 8% skv. lögum um fjármálafyrirtæki.

Breytt rekstrarform
Lánasjóður sveitarfélaga var stofnaður með lögum nr. 35/1966 og er sjálfstæð stofnun, sameign allra sveitarfélaga á Íslandi. Frá 1. janúar 2005 starfar sjóðurinn eftir lögum nr. 136/2004.
				
Í desember 2006 voru samþykkt á Alþingi ný lög nr. 150/2006 um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga. Lögin gera ráð fyrir að stofnað verði hlutafélag um rekstur lánasjóðsins í eigu íslenskra sveitarfélaga og er fyrirhugað að stofnfundur hlutafélagsins verði haldinn 23. mars nk. í kjölfar ársfundar lánasjóðsins fyrir árið 2006. Eignarhlutir einstakra sveitarfélaga í félaginu eru skilgreindir í lögunum.

Með lögunum verður útlánastarfsemi sjóðsins formlega takmörkuð við verkefni sem hafa almenna efnahagslega þýðingu. Með þeirri takmörkun er ekki fyrir séð að sjóðurinn hafi þörf fyrir allt sitt eigið fé og hefur því verið ákveðið að færa það niður um 3.000 m.kr. Tekið er tillit til þessa í ársreikningnum fyrir árið 2006 og fjárhæðin færð til lækkunar á eigin fé og sem skuld við sveitarfélögin í hlutfalli við eignaraðild þeirra. Fyrirhugað er að hið nýja félag sjái um endurgreiðslu þessara fjármuna til sveitarfélaganna á fjórum árum. 

Framtíðarhorfur
Gert er ráð fyrir að rekstur sjóðsins á árinu 2007 verði, að öðru leyti en nefnt er hér að framan, með svipuðu sniði og á árinu 2006, en að lækkandi verðbólga og niðurfærsla eigin fjár geti haft áhrif á hagnað hans til lækkunar. Sjóðurinn hefur ákveðið að fresta upptöku nýrra eiginfjárreglna, Basel 2, til 1. janúar 2008. 

Lánasjóðurinn mun starfa áfram í meginatriðum eins og undanfarin ár þar sem stefnt hefur verið að eflingu á starfsemi hans og aukinni þjónustu við sveitarfélögin með því að nýta gott lánstraust sjóðsins til að útvega sveitarfélögunum lánsfé á hagstæðum kjörum til hagsbóta fyrir þau.

Nánari upplýsingar veitir: Þorsteinn Þorsteinsson, framkvæmdastjóri, s. 515 4900.


Attachments

Lanasjour sveitarfelaga - Arsuppgjor 2006.pdf