Landsvirkjun - Ársuppgjör 2006


Afkoma Landsvirkjunar árið 2006

Ársreikningur Landsvirkjunar var í dag, þann 12. mars 2007 samþykktur á fundi stjórnar.

Á árinu 2006 var hagnaður af rekstri samstæðu Landsvirkjunar 3.503 milljónir króna. Í árslok námu heildareignir fyrirtækisins 243,2 milljörðum króna og var eiginfjárhlutfall 25,1%.

Ársreikningur Landsvirkjunar byggir á kostnaðarverðsreikningsskilum og er gerður eftir sömu reikningsskilaaðferðum og árið áður.

Helstu stærðir ársreiknings eru (í milljónum króna):

	SAMSTÆÐA
	 	 	 	 
	2006	2005	2004	2003
Rekstrartekjur	21.298	15.552	13.701	13.009
Rekstrarkostnaður:				
Rekstrar- og viðhaldskostnaður	6.378	5.913	4.691	4.498
Afskriftir	5.131	4.904	5.347	5.274
Rekstrarkostnaður alls	11.509	10.817	10.038	9.772
Rekstrarhagnaður	9.789	4.735	3.663	3.237
Fjármunatekjur og (fjármagnsgjöld)	(26.201)	1.596	3.532	(1.686)
Hagnaður (tap) fyrir skatta	(16.412)	6.331	7.195	1.551
Tekjuskattur	19.863			
Hlutdeild minnihluta	52	(37)	0	0
Hagnaður	3.503	6.294	7.195	1.551
				
Eignir samtals	243.219	181.985	154.685	134.528
Eigið fé	61.107	58.003	51.377	41.180
Hlutdeild minnihluta	1.668	1.720	0	0
Skuldir	180.444	122.262	103.308	93.348
				
Handbært fé frá rekstri	9.643	5.927	4.622	5.601
Fjárfestingar	45.382	28.582	20.897	16.877
EBITDA	14.920	9.639	9.010	8.512
Eiginfjárhlutfall	25,1%	31,9%	33,2%	30,6%

Hagnaður lækkaði samtals um 2.791 milljónir króna miðað við fyrra ár.  Aukning rekstrartekna var að verulegu leyti vegna hækkunar á orkuverði til stóriðju.  Rekstrarkostnaður án afskrifta nam 6.378 milljónum króna en var 5.913 milljónir króna árið áður.

Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur námu 26.201 milljónum króna sem skýrist aðallega af gengistapi af langtímalánum.  Gengistapið er að mestu leyti óinnleyst og verður að hafa það í huga við mat á afkomu fyrirtækisins.  Gengistap langtímalána skýrist aðallega af lækkun á gengi íslensku krónunnar á árinu. Meðalnafnvextir langtímalána voru um 4,6% á árinu 2006 en þeir voru um 3,5% árið áður.  Í árslok 2006 voru 82% langtímalána í erlendri mynt.

Raforkufyrirtæki hafa verið undanþegin tekjuskatti en í samræmi við lög nr. 50 frá árinu 2005 urðu fyrirtækin skattskyld frá og með 1. janúar 2006.  Reiknuð skatteign Landsvirkjunar hefur verið tekjufærð í ársreikningnum og nemur hún 19.862 milljónum króna í árslok 2006.

Á árinu 2003 hófust virkjunarframkvæmdir við Kárahjnúka í framhaldi af gerð orkusölusamnings við Fjarðaál, dótturfélag Alcoa.  Þar verður reist 690 MW aflstöð og jafnframt lagðar flutningslínur til Reyðarfjarðar.  Stefnt er að því að fyrsta vél virkjunarinnar af sex verði gangsett í júlí 2007.  Nánari lýsing á framkvæmdum er að finna á heimasíðu virkjunarinnar www.karahnjukar.is. Í árslok 2006 nam byggingarkostnaður Kárahnjúkavirkjunar samtals 88,8 milljörðum króna, þar af var framkvæmt fyrir 33,4 milljarða á árinu.  Byggingakostnaður flutningsvirkja nam 9,1 milljörðum króna.

Horfur um rekstur Landsvirkjunar eru góðar fyrir árið 2007.  Fljótsdalsstöð verður tekin í notkun á árinu og munu tekjur af raforkusölu til stóriðju auka heildartekjur fyrirtækisins umtalsvert.  Gengisþróun mun þó eftir sem áður ráða miklu um afkomu ársins.  Landsvirkjun hefur ákveðið að leggja aukna áherslu á útrás og hefur í því skyni stofnað sérstakt dótturfélag, Landsvirkjun Invest ehf.  Gert er ráð fyrir að hlutafé fyrirtækisins verði 4 milljarðar króna.

Nánari upplýsingar veitir Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, í síma 5159000.

Ársreikningur Landsvirkjunar verður lagður fyrir aðalfund fyrirtækisins 26. apríl nk.

	


Attachments

Landsvirkjun  12 2006.pdf