Hampiðjan - Dagskrá og tillögur lagðar fyrir aðalfund 30. mars 2007


DAGSKRÁ

1.	Setning fundar.
2.	Skýrsla stjórnar félagsins um starfsemi þess árið 2006.
3.	Endurskoðaður ársreikningur lagður fram til staðfestingar.
4.	Tillaga stjórnar um greiðslu arðs.
5.	Ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna.
6.	Kosning stjórnar félagsins.
7.	Kosning endurskoðunarfélags.
8.	Tillaga um að stjórn fái heimild til kaupa á eigin hlutum.
9.	Tillaga stjórnar um starfskjarastefnu félagsins.
10.	Önnur mál.  

Atkvæðaseðlar og önnur fundargögn verða afhent á fundarstað. 

Tillögur fyrir aðalfund Hampiðjunnar hf. 30. mars 2007

Tillaga stjórnar um greiðslu arðs

Aðalfundur Hampiðjunnar hf. samþykkir að greiddur verði 10% arður, alls að fjárhæð kr. 50 milljónir, vegna rekstrarársins 2006 til þeirra hluthafa sem skráðir eru í hlutaskrá félagsins í lok dags 30. mars 2007.  Arðurinn verði greiddur út í viku 17.   

Tillaga um þóknun stjórnarmanna

Aðalfundur Hampiðjunnar hf. samþykkir að þóknun til stjórnarmanna fyrir liðið ár verði kr. 600.000, formaður taki þrefaldan hlut.

Tillaga stjórnar um endurskoðanda

Aðalfundur Hampiðjunnar hf. kýs PricewaterhouseCoopers hf. endurskoðunarfélag félagsins.  

Tillaga stjórnar um kaup á eigin hlutum

Aðalfundur Hampiðjunnar hf. veitir stjórn félagsins heimild til þess að kaupa eigin hluti í félaginu.   Heimild þessi standi í 18 mánuði og takmarkist við að samanlögð kaup fari ekki yfir 10% af heildarhlutafé félagsins á hverjum tíma.  Kaupverð hluta skal vera hæst  15% yfir síðasta þekktu söluverði á First North markaðinum áður en kaup eru gerð. 

Tillaga stjórnar um starfskjarastefnu.

Aðalfundur Hampiðjunnar hf. samþykkir eftirfarandi starfskjarastefnu fyrir félagið.  

Eftirgreind er starfskjarastefna Hampiðjunnar hf., sem stjórn félagsins hefur samþykkt, í samræmi við 79. gr. a. í lögum nr. 2/1995 um hlutafélög.  

Hampiðjan hefur það markmið að búa vel að starfsmönnum sínum og tryggja þeim eðlilegan afrakstur vinnu sinnar.  Starfskjarastefna félagsins hefur að markmiði að gera félaginu kleift að laða til sín og halda í hæft starfsfólk, ekki síst það, sem ber meginábyrgð á stjórnun og þróun félagsins.  

Auk fastra launa er heimilt að veita stjórnendum og starfsmönnum kaupauka, fríðindi og/eða annars konar umbun.  Með kaupauka er átt við greiðslur sem byggja á árangri einstakra stjórnenda eða starfsmanna í starfi.  Greiðsla slíkra kaupauka tengist ýmist árangri viðkomandi starfsmanns, þeirrar deildar er hann starfar innan eða alls félagsins.  

Þá getur stjórn Hampiðjunnar samið við stjórnendur um árangurstengdan kaupauka sem tengist verðmætaaukningu útgefins hlutafjár félagsins á hlutabréfamarkaði.  Samningar um slíka kaupauka skulu þó ekki vera hærri en sem nemur samtals 5% af mögulegri verðmætaaukningu útgefins hlutafjár.  Gera skal grein fyrir slíkum samningum í ársreikningi félagsins.  

Stefna félagsins er að gera ekki kaupréttarsamninga við stjórnendur á hlutabréfum í félaginu.  Engir slíkir samningar eru í gildi. 

Gera skal skriflegan ráðningarsamning við forstjóra félagsins og skulu kjör hans vera samkeppnishæf.  Fjárhæð grunnlauna og annarra greiðslna skal taka mið af menntun, reynslu og fyrri störfum.  Tilgreina skal önnur starfskjör í ráðningarsamningi, svo sem greiðslur í lífeyrisjóð, orlof, hlunnindi og uppsagnarfrest.  Við gerð ráðningarsamnings við forstjóra skal haft að leiðarljósi að ekki komi til frekari greiðslna við starfslok forstjóra en fram koma í ráðningarsamningi.  Heimilt er þó við sérstök skilyrði að mati stjórnar að gera sérstakan starfslokasamning við starfslok forstjóra. Skv. núgildandi ráðningarsamningi forstjóra á hann kost á kaupauka sem nemur 4% af verðmætaaukningu útgefins hlutafjár félagsins á hlutabréfamarkaði, umfram það sem viðskiptagengið 8,0 gefur. 

Stjórnendum eða starfsmönnum er ekki veitt umtalsverð lán nema í undantekningartilfellum og þá skal það gert með samþykki stjórnar.  Engin slík lán eru útistandandi.

Hampiðjan hefur þá stefnu að gera ekki eftirlaunasamninga við stjórnendur og eru engir slíkir samningar í gildi. 
 
Hampiðjan hefur þá stefnu að gera ekki sérstaka starfslokasamninga við starfsmenn sem veitir þeim fjárhagslega umbun umfram það sem ráðningarsamningar eða almennir kjarasamningar kveða á um.  

Stjórnarmenn njóta ekki annarra þóknunargreiðslna frá hendi félagsins en árlegra stjórnarlauna, sem aðalfundur samþykkir hverju sinni og hafa engin réttindi sem kveðið er á um í 1-5. tl. 79. gr. a. nr. 2/1995.

Starfskjarastefnan er bindandi fyrir stjórn félagsins að því er varðar ákvæði um kaupréttarsamninga og greiðslu kaupauka er fylgja þróun verðs á hlutabréfum í félaginu, sbr. 2. mgr. 79. gr. a. hlutafélagalaga.  Að öðru leyti er starfskjarastefnan leiðbeinandi fyrir félagið og stjórn þess. Stjórn félagsins skal færa til bókar í fundargerðarbók veigamikil frávik frá starfskjarastefnunni og skal gera grein fyrir þeim á næsta aðalfundi félagsins. 

Ofangreind starfskjarastefna Hampiðjunnar hf. er lögð fram og óskað eftir staðfestingu á henni á aðalfundi félagsins þann 30. mars 2007.