- Stjórnir Sparisjóðs Skagafjarðar og Sparisjóðs Siglufjarðar hafa undirritað áætlun um samruna sparisjóðanna


Stjórnir Sparisjóðs Skagafjarðar og Sparisjóðs Siglufjarðar hafa undirritað
áætlun um samruna sparisjóðanna sem miðast reikningslega við 1. janúar 2007. Í
tillögu sem lögð verður fyrir fund stofnfjáreigenda er gert ráð fyrir því að
eigið fé hins sameinaða sjóðs verði u.þ.b. 1 milljarður króna. 

Í hinum sameinaða sjóði munu stofnfjáreigendur í  Sparisjóði Skagafjarðar eiga
12% en eigendur stofnfjár í Sparisjóði Siglufjarðar 88%. Til að ná ofangreindri
skiptingu hefur stofnfjáraðilafundur í Sparisjóði Siglufjarðar ákveðið að auka
stofnfé í Sparisjóði Siglufjarðar um 516 milljónir 

Það er markmið stjórna sjóðanna með tillögu um sameiningu að efla starfsemi á
starfssvæðum sínum og sækja fram á nýjum vettvangi. Stjórnirnar telja
sameiningu sparisjóða nauðsynlega til að mæta kröfum tímans um alhliða og
hagkvæma fjármálaþjónustu við einstaklinga og fyrirtæki. Þau markmið fara saman
við þá skyldu að efla hag stofnfjáreigenda og starfsfólks sjóðanna. 

Stofnfjáraðilar í Sparisjóði Skagafjarðar eru um 140.  Sjóðurinn var stofnaður
árið 1907 og hét áður Sparisjóður Hólahrepps.  Sjóðurinn starfaði í Hólahreppi
fram til ársins 2000, þegar starfsemi hans var flutt til Sauðárkróks 

Sparisjóður Mýrasýslu á 99,9% af stofnfé Sparisjóðs Siglufjarðar og er hann
dótturfélag Sparisjóðs Mýrasýslu.  Sjóðurinn var stofnaður árið 1873 og er
elsta starfandi peningastofnun landsins. 

Frekari upplýsingar veita Ólafur Jónsson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs
Siglufjarðar og Kristján Snorrason sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Skagafjarðar