- 3 mánaða uppgjör 2007


Stjórn Vinnslustöðvarinnar hf. samþykkti í dag uppgjör félagsins fyrir fyrstu
þrjá mánuði rekstrarársins. Þar kemur meðal annars fram eftirfarandi: 

• Hagnaður var á rekstrinum að upphæð 765 milljónir króna, sem er mikil
breyting frá sama tímabili í fyrra þegar tap nam 213 milljónum króna. 

• Heildartekjur félagsins voru 1.750 milljónir króna en 1.769 milljónir króna á
sama tímabili í fyrra. Tekjur fiskvinnslu stóðu nánast í stað en tekjur
útgerðar jukust. Rekstrargjöld lækkuðu um 200 milljónir króna eða úr 1.359
milljónum króna í fyrra í 1.159 milljónir króna nú. 

• Framlegð félagsins (hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði) nam tæplega
592 milljónum króna og jókst um 44% frá fyrra ári.  Framlegðarhlutfall hækkaði
úr 23,2% í fyrra í 33,8% í ár.  Þess ber að geta að söluhagnaður af seldum
aflaheimildum að upphæð 33 milljónir króna er færður meðal tekna. 

• Veltufé frá rekstri nam 366 milljónum króna, sem jafngildir 21,6% af
rekstrartekjum. Það jókst um 318 milljónir króna frá fyrra ári eða um 15,3%. 

• Afskriftir voru tæpar 106 milljónir króna og jukust um 21 milljón króna frá
fyrra ári. 

• Tekjur Hugins ehf., hlutdeildarfélags Vinnslustöðvarinnar, voru 284 milljónir
króna og framlegð þess á tímabilinu var 75 milljónir króna. Hagnaður félagsins,
eftir skatta, nam 114 milljónum króna. Hlutdeild Vinnslustöðvarinnar í þeim
hagnaði var tæpar 55 milljónir króna. 

• Tekjur About Fish ehf., hlutdeildarfélags Vinnslustöðvarinnar, voru 445
milljónir króna og framlegð þess 10 milljónir króna. Hagnaður félagsins, eftir
skatta, nam tæpum 3 milljónum króna og var hlutdeild Vinnslustöðvarinnar í þeim
hagnaði tæpar 1,3 milljónir króna. 

• Niðurstaða fjármagnsliða var jákvæð um 378 milljónir króna á fyrsta
ársfjórðungi. Gengishagnaður var 427 milljónir króna, sem skýrist af áhrifum
styrkingar krónunnar á skuldir félagsins. Á sama tímabili í fyrra voru
fjármagnsliðir neikvæðir um 517 milljónir króna. 

• Reiknaður tekjuskattur á tímabilinu var 156 milljónir króna.


Efnahagur 31. mars 2007

Heildarskuldir félagsins lækkuðu um 107 milljónir króna frá upphafi árs til
marsloka 2007 og eru 6.655 milljónir króna.  Nettóskuldir eru 3.732 milljónir
króna en voru 4.558 milljónir króna  í lok síðasta árs. Þær lækkuðu því um 826
milljónir króna. 

Eigið fé jókst frá áramótum um 765 milljónir króna eða um 31,4%, sem skýrist
eingöngu af hagnaði tímabilsins. 


Reikningsskilaaðferðir

Þetta er fyrsta árið sem félagið færir reikningsskil sín í samræmi við
alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS).  Upptökudagur reikningsskilastaðlanna
miðast við 1. janúar 2006 og hafa því reikningsskil fyrir tímabilið 1. janúar -
31. mars 2006 verið færð samkvæmt stöðlunum til samanburðar. 

Helstu áhrif IFRS á niðurstöðu reikningsskila tímabilsins 1. janúar - 31. mars
2006 eru eftirfarandi: 

• Framlegð var 537.360.315 kr. en verður 409.945.095 kr.
• Afkoma var (107.441.378) kr. en verður (213.285.618) kr.
• Reiknaður tekjuskattur var 11.336.201 kr. en verður 34.570.302 kr.
• Heildareignir voru 9.174.223.662 kr. en verða 9.495.847.800.
• Eigið fé var 2.168.893.605 kr. en verður 2.432.625.400 kr.
• Tekjuskattsskuldbinding var 185.315.065 kr. en verður 243.207.410 kr.
• Veltufé frá rekstri var 447.015.446 kr. en verður 317.937.104 kr.

Helstu áhrif IFRS á niðurstöðu efnahagsreiknings í árslok 2006 eru eftirfarandi:

• Heildareignir voru 8.904.004.602 kr. en verða 9.197.890.555 kr.
• Eigið fé var 2.196.388.779 kr. en verður 2.435.647.261 kr.
• Tekjuskattsskuldbinding var 292.305.858 kr. en verður 346.933.329 kr.
• Heildarskuldir voru 6.707.615.823 kr. en verða 6.762.243.294 kr.


Atburðir sem áttu sér stað að loknu rekstrartímabili

Hluthafar, sem eiga samtals 50,04% hlut í Vinnslustöðinni hf., gerðu með sér
samkomulag 16. apríl 2007 um stjórnun og rekstur félagsins. Af 37. gr. laga nr.
33/2003 um verðbréfaviðskipti leiðir að þeim er þar með skylt að gera öðrum
hluthöfum yfirtökutilboð innan fjögurra vikna. Slíkt tilboð verður gert að
aðalfundi loknum. Í kjölfar yfirtökutilboðs verður óskað eftir því við stjórn
Vinnslustöðvarinnar hf. að hlutabréf hennar verði afskráð úr kauphöllinni OMX
Nordic Exchange. 

Rekstrarhorfur á árinu

Horfur í rekstri Vinnslustöðvarinnar eru nokkuð góðar. Afurðaverð í erlendum
myntum er tiltölulega hátt, þrátt fyrir að verð ýmissa afurða sé byrjað að
lækka.  Styrking krónunnar, það sem af er árinu, mun einnig hafa veruleg áhrif
á afkomu ársins. Annars vegar lækkar afurðaverð í íslenskum krónum og leiðir
þannig til tekjulækkunar og versnandi afkomu. Hins vegar verður gengishagnaður
af skuldum félagsins. 

Horfur eru á að aflamark í þorski verði minnkað fyrir næsta fiskveiðiár.  Það
mun hafa talsverð áhrif á afkomu félagsins. 


Frekari upplýsingar:
Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri í símum 488 8004 og 897 9607

Attachments

frettatilkynning til omx - 1  arsfjorugur 2007.pdf vinnslustoin hf  31 3 2007.pdf