- Niðurstöður aðalfundar 4. maí 2007


Tillaga um arðgreiðslu og ráðstöfun taps

Aðalfundurinn samþykkti tillögu stjórnar um að að greiða út 30% arð af
nafnvirði í hlutabréfum í Vinnslustöðinni til hluthafa og er þá miðað við
hluthafaskrá  í lok síðasta viðskiptadags fyrir aðalfund, eða 4. maí 2007. 
Arðleysisdagur er því 5. maí 2007.  Arðgreiðslurnar komi til útborgunar 4. júní
2007. 

Stjórnarkjör

Í stjórn félagsins voru kjörnir:

Gunnar Felixson, fyrrverandi forstjóri.
Haraldur Gíslason, sölustjóri Vestmannaeyjum.
Hjálmar Kristjánsson, framkvæmdastjóri Rifi.
Leifur Leifsson, húsasmíðameistari Vestmannaeyjum.
Sigurjón Óskarsson, útgerðarmaður Vestmannaeyjum.

Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar var Gunnar Felixson kjörinn formaður og Haraldur
Gíslason varaformaður. 

Í varastjórn voru kjörnir:

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims hf.
Kristín Gísladóttir, Vestmannaeyjum.

Endurskoðendur félagsins

Löggiltir endurskoðendur Vinnslustöðvarinnar hf. voru kosnir Deloitte hf.

Þóknun til stjórnar

Aðalfundur samþykkti að þóknun til stjórnarmanna verði 550.000 krónur og
stjórnarformaður fái tvöfalda þóknun stjórnarmanna.  Varastjórnarmenn fái
greitt eftir fundarsetu, 55.000 krónur fyrir hvern fund en þó aldrei hærra en
550.000 krónur. 

Heimild til stjórnar að kaupa hlutabréf í Vinnslustöðinni hf.

Aðalfundur Vinnslustöðvarinnar hf. samþykkti að heimila stjórn þess að kaupa
hlutabréf í Vinnslustöðinni  fyrir allt að 155 milljónir króna að nafnverði á
næstu 18 mánuðum. Kaupverð bréfanna má eigi vera hærra en 10% yfir síðasta
þekkta söluverði áður en kaup eru gerð.  Lágmörk eru ekki sett á heimild þessa,
hvorki hvað varðar kaupverð né stærð hlutar sem keyptur er hverju sinni. 

Breytingar á samþykktum félagsins

Aðalfundurinn samþykkti að inn í 12. gr. samþykkta félagsins bætist við einn
liður um að samþykkja skuli starfskjarastefnu félagsins.  Liðurinn verði nr. 6
og færast aðrir liðir aftar.  12. gr. samþykkta félagsins verður þá: 

Aðalfund félagsins skal halda í Vestmannaeyjum eigi síðar en í júnímánuði ár
hvert.  Á aðalfundi skulu eftirfarandi mál tekin fyrir: 

1.  Stjórn félagsins skýrir frá hag þess og gerir grein fyrir starfseminni á
liðnu ári. 

2.  Stjórnin leggur fram til staðfestingar reikninga félagsins fyrir liðið
starfsár, ásamt athugasemdum og tillögum endurskoðenda ef þær eru fyrir hendi. 

3.  Tekin ákvörðun um það hvernig fara skuli með hagnað eða tap félagsins á
liðnu reikningsári. 

4.  Kosning stjórnar félagsins skv. 19. grein.

5.  Kosning endurskoðenda félagsins skv. 27. gr.

6.  Samþykkt starfskjarastefnu.

7.  Tekin ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna og endurskoðenda.

8.  Afgreiðsla á tillögu um heimild til handa stjórn félagsins til kaupa á
eigin hlutum í félaginu. 

9.  Önnur mál.

Starfskjarastefna félagsins

Aðalfundur samþykkti starfskjarastefnu félagsins.  Hún er eftirfarandi:

1. Tilgangur.

Starfskjarastefna Vinnslustöðvarinnar hf. miðar að því að gera starf hjá
Vinnslustöðinni hf. eftirsóknarvert. Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt
að stjórn félagsins sé kleift að bjóða laun og aðrar greiðslur sem tíðkast hjá
sambærilegum fyrirtækjum. 

2. Starfskjör stjórnarmanna.

Þóknun til stjórnarmanna og varamanna skal ákveðin á aðalfundi ár hvert og skal
þóknunin taka mið af þeim tíma sem stjórnarmenn verja til starfans, þeirri
ábyrgð sem á þeim hvílir og afkomu félagsins. 

3. Starfskjör framkvæmdastjóra.

Starfskjör framkvæmdastjóra skulu ítarlega tilgreind í skriflegum
ráðningarsamningi, þar á meðal föst laun, árangurstengdar greiðslur,
kaupréttur, lífeyrisréttindi, orlof, önnur hlunnindi og uppsagnarfrestur, svo
og, eftir atvikum, eftirlaunaréttindi og greiðslur við starfslok. 
 
4. Starfskjör stjórnenda.

Starfskjör annarra æðstu stjórnenda félagsins, sem nánar skulu tilgreind í
skriflegum ráðningarsamningum, skulu einnig taka mið af sjónarmiðum 3. gr.
eftir því sem við á. 

5. Endurskoðun starfskjarastefnu. Upplýsingagjöf.

Starfskjarastefna félagsins skal tekin til endurskoðunar ár hvert og borin
undir aðalfund félagsins til samþykktar eða synjunar. 


Á næsta aðalfundi ber stjórn að gera grein fyrir kjörum stjórnenda og
stjórnarmanna félagsins auk þess að skýra frá framkvæmd starfskjarastefnunnar.
Frávik frá starfskjarastefnunni skulu rökstudd sérstaklega í hverju tilviki og
færð til bókar. 

Gera skal árlega grein fyrir launum og öðrum starfskjörum stjórnar og æðstu
stjórnenda í ársskýrslu félagsins.