- leggur drög að kaupum á stærsta einkarekna flugfélagi Tékklands


•	Velta Icelandair Group eykst um 30% frá 2006 
•	Samlegðaráhrif í alþjóðlegu leiguflugi
•	Verðmætar flugvélapantanir


Icelandair Group hefur undirritað viljayfirlýsingu um kaup á tékkneska
flugfélaginu Travel Service, stærsta einkarekna flugfélagi í Tékklandi. Travel
Service rekur leiguflugsstarfsemi einkum frá Prag og Búdapest og á einnig og
rekur lágjaldaflugfélagið Smart Wings. Heildarvelta Travel Service á árinu 2006
var um 18 milljarðar króna. Félagið rekur alls 12 Boeing 737-800 og 787-500
farþegaþotur, flutti um 1,8 milljónir farþega á síðasta ári og flýgur til 230
áfangastaða í fjórum heimsálfum. 

Á næstu vikum fer fram áreiðanleikakönnun og að henni lokinni er stefnt að
frágangi samninga fyrir lok júní. Ef af verður mun Icelandair Group eignast 50%
í félaginu fyrir mitt árið, og félagið allt á árinu 2008. Kaupin verða
fjármögnuð að hluta til með lánsfé. 


Eftir kaupin verður áætluð velta Icelandair Group fyrir árið 2007 um 72
milljarðar króna, sem er um 30% aukning frá rekstrarárinu 2006.  Áætlað er að
velta Icelandair Group verði yfir 80 milljarðar króna á ársgrundvelli eftir
kaupin á Travel Service. 


Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair Group segir: "Þessi viljayfirlýsing er
í samræmi við stefnu Icelandair Group um vöxt í alþjóðlegu leiguflugi. Við
höfum horft til austurhluta Evrópu þar sem við teljum okkur eiga erindi með
þekkingu okkar og reynslu. Við keyptum á síðasta ári flugfélagið Latcharter í
Lettlandi, sem gengur mjög vel, og nú tökum við stórt skref áfram í þessa átt.
Það er ljóst að ef af kaupunum verður stækkar Icelandair Group hratt á árinu,
því þetta flugfélag er hvað varðar farþegafjölda og flugflota nálægt
áætlunarflugi Icelandair að stærð. 

Við teljum þetta góðan fjárfestingarkost fyrir Icelandair Group. Travel Service
er vel rekið flugfélag og núverandi stjórnendur og eigendur munu starfa áfram
með okkur sem skiptir miklu máli í svona kaupum.  Félagið hefur góða og vaxandi
stöðu á markaði sem verið hefur í mikilli gerjun, þ.e. leiguflugs- og
lággjaldamarkaðinum í Austur-Evrópu. Einnig sjáum við töluverða
samlegðarmöguleika við núverandi leiguflugsrekstur okkar. Félagið er í
fjölbreyttum rekstri, í leiguflugi fyrir ýmsa aðila, í áætlunarflugi undir
öflugu vörumerki, Smart Wings, og er að hasla sér völl í rekstri á einkaþotum
þar sem tækifærin eru gríðarlega mikil. Þá hefur félagið kröftugar
framtíðaráætlanir og á m.a. pantanir á Boeing 737-900 og Boeing 787 Dreamliner
þotum”, segir Jón Karl Ólafsson. 

Nánari upplýsingar veita Jón Karl Ólafsson forstjóri Icelandair Group í síma:
5050371,Guðjón Arngrímsson upplýsingastjóri í síma: 864-5849 eða Sigþór
Einarsson framkvæmdastjóri þróunar-og stefnumótunar í síma: 897-8363 


Helstu upplýsingar:

Travel Service:
Leiguflugfélag með höfuðstöðvar í Prag.  Er með leiguflugsstarfsemi fyrir ýmsa
aðila og rekur lágfargjaldaflugfélagið Smart Wings. 

Floti
10-Boeing 737-800 
2-Boeing 737-500
Cessna 680 Citation Sovereign (einkaþota)

Forstjóri 
Roman Vik

Vefsíða og myndir: http://www.travelservice.aero
http://www.travelservice.aero/en/fleet-gallery.php

Starfsmenn
550

Farþegar 2006:
1,8 milljónir

Áfangastaðir
Flýgur til 230 flugvalla í 4 heimsálfum

Velta 2006: EUR 190 milljónir