CORRECTION: 2006


Leiðrétting:  Fréttatilkynning í viðhengi.

Ársreikningur Langanesbyggðar fyrir árið 2006 var tekinn til fyrri umræðu af
hreppsnefnd fimmtudaginn 17. maí sl. og vísað til seinni umræðu. Samkvæmt
sveitarstjórnarlögum skal fjalla um ársreikninginn á tveimur fundum í
sveitarstjórn.  Seinni umræða fer fram fimmtudaginn 24. maí nk. 

Ársreikningurinn hefur að geyma ársreikning fyrir þær rekstrareiningar sem
falla undir A hluta starfsemi sveitarfélagsins og samantekinn ársreikning fyrir
alla starfsemi þess þ.e. A og B hluta, sbr. 60 gr. sveitarstjórnarlaga, nr.
45/1998 

Til A hluta, þ.e. sveitarsjóðs, telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er
fjármögnuð með skatttekjum, en auk aðalsjóðs er um að ræða Eignasjóð og
Þjónustumiðstöð. Til B hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að
hálfu eða meirihluta eru í eigu sveitarfélagsins, en rekstur þessarra
fyrirtækja er fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtæki sem falla undir B
hluta starfsemi sveitarfélagsins eru Félagslegar íbúðir, Fráveita, Vatnsveita,
Hafnarsjóður og Fræ ehf. 

Þann fyrsta júlí 2006 sameinuðust sveitarfélögin Þórshafnarhreppur og
Skeggjastaðahreppur undir nafninu Langanesbyggð og samanstendur ársreikningur
Langanesbyggðar fyrir árið 2006 af samanlögðum rekstri beggja sveitarfélaganna
fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní og sameinaðs sveitarfélags fyrir
tímabilið 1. júlí til 31. desember 2006. Samanburðarfjárhæðir fyrir árið 2005
eru samanlagðar fjárhæðir úr ársreikningum sveitarfélaganna tveggja. 

Tekjur sveitarfélagsins voru nokkuð umfram áætlun, eða 19 millj. kr. í
samanteknum A og B hluta. Skýringin liggur einkum í hærri framlögum
jöfnunarsjóðs en reiknað var með, m.a. vegna framlaga er tengjast sameiningu
sveitarfélaganna. Hins vegar voru skatttekjur nokkru lægri en áætlað var. Að
sama skapi fara útgjöld nokkuð fram úr áætlun fyrir A og B hluta, eða um 29
millj. kr. og er skýringin á því m.a. sú að ákveðinn kostnaður fylgdi
sameiningunni sem ekki hefur skilað sér að öllu leyti í gegnum framlög
jöfnunarsjóðs auk þess sem ekki var áætlað fyrir rekstarkostnaði vegna
dótturfélagsins Fræs ehf. 

Samkvæmt ársreikningi var afkoma fyrir fjármagnsliði í fullu samræmi við
fjárhagsáætlun í A hluta sem og fjármunamyndun rekstrar, samanber sjóðsstreymi,
en frávik var heldur meira í B hluta. Frávik í B hluta koma einkum til vegna
kostnaðar við rekstur Fræs ehf. Ekki var unnin fjárhagsáætlun fyrir Fræ ehf.
fyrir árið 2006 vegna óvissuþátta í rekstri þess félags á sl. ári. 

Í fjármagnsliðum eru veruleg frávik frá fjárhagsáætlun sem skýrast annars vegar
af því að stærstur hluti langtímalána sveitarfélagsins er ýmist verð- eða
gengistryggður. Verðbólga ársins 2006 var nokkru hærri en spár gerðu ráð fyrir,
eða í kringum 7%, og gengisþróun erlendra lána var afar óhagstæð á árinu og sér
þess stað í háum fjármagnsgjöldum. Mest áhrifin koma, hins vegar, til vegna
þess að B hluta fyrirtækið Fræ ehf. á 33% eignarhluta í Þórshöfn fjárfestingu
ehf. sem aftur á öll hlutabréf í Hraðfrystistöð Þórshafnar hf. (HÞ). Afkoma HÞ
var afar slæm á árinu 2006 og nemur hlutdeild Langanesbyggðar í tapi ársins 151
millj. kr. sem kemur til gjalda meðal fjármagnsliða í rekstrarreikningi
samantekins A og B hluta. Í ársbyrjun 2007 seldi Fræ ehf. eignarhlut sinn í
Þórshöfn fjárfestingu ehf. til Ísfélags Vestmannaeyja hf. og er áætlaður
söluhagnaður vegna þess um 164 millj. kr. eftir skatta og mun sú fjárhæð koma
til tekna í ársreikningi samantekins A og B hluta Langanesbyggðar fyrir árið
2007.

Attachments

arsreikningur langanesbyggar 2006.pdf langanesbygg frettatilkynning.pdf