- Úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli 4/2007


Icelandair segir úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála alvarlegan áfellisdóm
um ákvörðun Samkeppniseftirlitsins 

Icelandair er ósammála niðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála í dag en
telur áfangasigur að sekt Samkeppniseftirlitsins frá 30. mars var lækkuð um
30%, í 130 milljónir króna. Úrskurður áfrýjunarnefndar byggir jafnframt á öðrum
forsendum en Samkeppniseftirlitið notaði, sem Icelandair telur alvarlegan
áfellisdóm um ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Icelandair er nú að íhuga hvort
úrskurður áfrýjunarnefndar verður borin undir dómstóla. 

Að mati Icelandair fór félagið eftir samkeppnislögum og úrskurði
áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá árinu 2003, sem staðfesti að Icelandair
væri heimilt að kynna og selja Netsmelli með þeim hætti sem gert var. Þar hafi
Icelandair fengið leiðbeinandi úrskurð sem félagið fylgdi í verðlagningu sinni
árið 2004. Ákvarðanir í andstæða átt nú þremur árum síðar séu ekki
ásættanlegar. 

Icelandair er eini íslenski flugrekandinn sem stundar áætlunarflug milli
Íslands og annarra landa. Samkeppni í farþegaflugi til og frá landinu er hörð
og Icelandair áskilur sér fullan rétt til þess að taka af krafti þátt í þeirri
samkeppni neytendum til hagsbóta - í samræmi við markmið samkeppnislaga um
virka samkeppni. Auk Icelandair eru nú á þessum markaði svissneska flugfélagið
Hello,  breska flugfélagið Astreus og danska flugfélagið Sterling, sem fljúga
undir merkjum Iceland Express, skandinavíska flugfélagið SAS og breska
flugfélagið British Airways. Auk þess fljúga fjölmörg erlend flugfélög
leiguflug frá Íslandi fyrir innlendar ferðaskrifstofur.