2007


Á fyrstu sex mánuðum ársins 2007 var hagnaður af rekstri Landsvirkjunar 19.132
milljónir króna.  Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) var
5.469 milljónir króna og handbært fé frá rekstri nam 4.026 milljónum króna. 
Samandreginn árshlutareikningur Landsvirkjunar er nú gerður samkvæmt
alþjóðlegum reikningsskilastöðlum en var byggður á íslenskum
reikningsskilavenjum árið áður.  Eftirfarandi samanburður miðast við að
alþjóðlegum reikningsskilastöðlum hefði verið beitt frá ársbyrjun 2006. 


Helstu stærðir árshlutareiknings eru (í milljónum króna): Sjá viðhengi.

Sem fyrr ræðst afkoma Landsvirkjunar að verulegu leyti af þróun á gengi
íslensku krónunnar en stór hluti langtímaskulda fyrirtækisins eru í erlendri
mynt.  Gengishagnaður tímabilsins nam 18,6 milljörðum króna.  Gengisvísitalan
var 129,2 í lok síðasta árs en var 114,0 í lok júní 2007. Í ljósi þeirra
sveiflna sem hafa verið að undanförnu á gjaldeyrismarkaði er vakin athygli á
því að breyting íslensku krónunnar á móti helstu myntum um 10% frá gildinu sem
var í lok júní hefði breytt afkomu fyrirtækisins um 13 milljarða króna og er þá
ekki tekið tillit til skattaáhrifa. Frá næstu áramótum verður bandaríkjadollar
starfrækslugjaldmiðill Landsvirkjunar. 

Breytingar eru á árshlutareikningnum vegna upptöku alþjóðlegra
reikningsskilastaðla.  Breytingin hefur þau heildaráhrif á eigið fé
samstæðunnar að bókfært eigið fé í ársbyrjun 2007 hækkar um 19,9 milljarða
króna eða úr 62,7 milljörðum króna í 82,6 milljarða króna.  Helsta skýringin er
sú að áhrif afleiða eru nú færð í reikningsskil fyrirtækisins.  Landsvirkjun
hefur metið gangvirði innbyggðra afleiða í raforkusamningum fyrirtækisins til
stóriðju.  Jákvætt gangvirði afleiða sem fært er til eignar í lok júní 2007
nemur um 45,4 milljörðum króna, einkum vegna þess að heimsmarkaðsverð á áli er
mjög hátt um þessar mundir.  Neikvætt gangvirði þeirra afleiðusamninga sem
fyrirtækið hefur gert í áhættuvarnarskyni nam 9,5 milljörðum króna í júnílok
sem kemur til lækkunar á eigin fé.  Gangvirðisbreyting afleiðusamninganna var
að frádregnum áhættuvörnum jákvæð um 4,1 milljarð króna á tímabilinu janúar til
júní 2007 sem skýrist einkum af hækkun á framvirku verði áls á heimsmarkaði. 

Á árinu 2003 hófust virkjunarframkvæmdir við Kárahjnúka í framhaldi af gerð
orkusölusamnings við Fjarðaál, dótturfélag Alcoa.  Þar hefur verið reist 690 MW
aflstöð og jafnframt lagðar flutningslínur til Reyðarfjarðar.  Nánari lýsing á
framkvæmdum er að finna á heimasíðu virkjunarinnar www.karahnjukar.is.  Helstu
nýframkvæmdir á fyrstu sex mánuðum ársins tengdust Kárahnjúkavirkjun. 

Í lok júní námu heildareignir fyrirtækisins 293,5 milljörðum króna og
eiginfjárhlutfall var 34,5%. 

Horfur um rekstur Landsvirkjunar eru góðar fyrir árið 2007.  Fljótsdalsstöð
verður tekin í notkun á árinu og munu tekjur af raforkusölu til stóriðju auka
heildartekjur fyrirtækisins.  Gengisþróun og þróun álverðs mun þó ráða miklu um
afkomu ársins. 

Árshlutareikningur Landsvirkjunar var samþykktur á fundi stjórnar þann 23.
ágúst 2007. 

Nánari upplýsingar veitir Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, í
síma 5159000.

Attachments

landsvirkjun - frettatilkynning 6 manaa 2007.pdf landsvirkjun - arshlutareikningur jan-juni 2007.pdf