2007


Afkoma lánasjóðsins á fyrri hluta ársins 2007 var í samræmi við væntingar og er
tekjuafgangur 609 m.kr. á móti 717 m.kr. fyrir sama tímabil fyrra árs. Útlán
sem fjármögnuð eru með eigin fé hans eru verðtryggð og hefur minni verðbólga
því áhrif á afkomuna til lækkunar. Vextir af þeim lánum voru hækkaðir 1.
febrúar sl. úr 4,40% í 4,95%. Ávöxtun á lausu fé var hinsvegar ágæt. 

Hlutverk sjóðsins er að tryggja íslenskum sveitarfélögum, stofnunum þeirra og
fyrirtækjum lánsfé á hagstæðum kjörum. Samþykktar lánveitingar á fyrri hluta
ársins 2007 voru 3.720 m.kr., en útborguð langtímalán voru 1.489 m.kr. miðað
við 3.034 m.kr. á sama tíma 2006. Vegna hárra verðtryggðra vaxta og styrkrar
stöðu krónunnar hafa sumir lántakendur frestað langtímalántökum og fjármagnað
sig þess í stað til skemmri tíma og hefur lánasjóðurinn í þessu skyni greitt út
samtals 3.735 m.kr. sem eru lán til skemmri tíma með breytilegum vöxtum.
Vanskil eru óveruleg og hefur sjóðurinn ekki tapað útláni síðan hann hóf
starfsemi árið 1967. 

Eigið fé í lok tímabilsins var 9.468 m.kr. m.kr. á móti 8.859 m.kr. í árslok
2006. Vegið eiginfjárhlutfall, svonefnt CAD-hlutfall, var í lok tímabilsins
112,6%, en þarf að vera 8% skv. lögum um fjármálafyrirtæki. 

Sjóðurinn starfar eftir lögum um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 136/2004 og sem
lánafyrirtæki skv. lögum um fjármálafyrirtæki. Sveitarfélögin bera ekki ábyrgð
á skuldbindingum hans, en tryggingar fyrir útlánum hans eru í tekjum
sveitarfélaga skv. 3. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, sbr.
reglugerð um tryggingar Lánasjóðs sveitarfélaga í tekjum sveitarfélags nr.
123/2006. 

Í árslok 2006 voru samþykkt á Alþingi ný lög um stofnun opinbers hlutafélags um
Lánasjóð sveitarfélaga. Lögin gera ráð fyrir að stofnað verði hlutafélag um
rekstur lánasjóðsins sem taki við rekstri hans að fengnu starfsleyfi hjá
Fjármálaeftirlitinu. Hlutafélagið hefur verið stofnað og hefur það sótti um
starfsleyfi sem lánafyrirtæki með sömu starfsheimildir og lánasjóðurinn hefur.
Starfsleyfið lá ekki fyrir á uppgjörsdegi og hefur yfirtaka hlutafélagsins á
rekstri lánasjóðsins því ekki farið fram. Hlutafélagið mun leggja fram
ársreikning 2007 í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla. 

Gert er ráð fyrir að hagnaður lánasjóðsins fyrir árið í heild verði ívið minni
en var á árinu 2006, m.a. vegna lægri verðbólgu og lækkunar á eigin fé. 


Nánari upplýsingar veitir: Þorsteinn Þorsteinsson, framkvæmdastjóri, s. 515 4900

Attachments

lanasjour sveitarfelaga - frettatilkynning 2007.pdf arshlutareikningur 30 06 07.pdf