2007


Árshlutauppgjör Sparisjóðs Vestfirðinga er nú í fyrsta sinn byggt á alþjóðlegum
reikningsskilastöðlum (IFRS).  Við innleiðingu staðlanna hækkaði eigið fé
sjóðsins um 512 millj. kr. nánar er fjallað er um áhrif af innleiðingu
staðlanna hér á eftir.  Samanburðarfjárhæðum vegna ársins 2006 hefur verið
breytt til samræmis við nýjar reikningsskilareglur. 

Hagnaður sparisjóðsins nam 822 millj. kr. á fyrri árshelmingi ársins 2007,
samanborið við 217 millj. kr. hagnað á fyrri árshelmingi 2006. 

Helstu niðurstöður úr rekstri og efnahag.

-  Hagnaður sparisjóðsins nam 822 millj. kr. á tímabilinu samanborið við 217
   millj. kr. hagnað á sama tímabili á árinu 2006.
 
-  Arðsemi eigin fjár var 84,0% samanborið við 37,7% arðsemi á sama tímabili á
   árinu 2006. 

-  Hreinar vaxtatekjur lækka um 2 millj. kr. frá fyrra ári og nema nú 104 millj.
   kr. 

-  Hreinar rekstrartekjur námu 1.323 millj. kr. og hækka um 786 millj. kr. frá
   fyrra ári.
 
-  Rekstrarkostnaður á tímabilinu nemur 232 millj. kr. og hækkar um 32 millj.
   kr. frá fyrra ári. 

-  Virðisrýrnun útlána nam 101 millj. kr. og hækkar um 19 millj. kr. frá fyrra
   ári.
 
-  Heildareignir námu 11.546 millj. kr. og hafa aukist um 13% frá árslokum 2006.

-  Útlán til viðskiptamanna námu 7.035 millj. kr. og hafa aukist um 4% á árinu.

-  Innlán námu 5.333 millj. kr. og jukust um 6% á tímabilinu.

-  Eigið fé nam 3.115 millj. kr. í lok tímabilsins og eykst um 34% á tímabilinu.

-  Eiginfjárhlutfall sjóðsins í lok júní var 14,0% en það var 12,0% í árslok
   2006. 


Rekstur Sparisjóðs Vestfirðinga gekk vel fyrstu 6 mánuði ársins og er
hagnaðurinn umfram áætlanir. Sjóðurinn skilaði 822 millj. kr. hagnaði á
tímabilinu, en umtalsverð hækkun varð á verðbréfum sjóðsins.  Sú verðlækkun sem
varð á verðbréfaeign sjóðsins eftir lok reikningstímabilsins er nú að mestu
gengin til baka.  Stjórnendur sparisjóðsins gera ráð fyrir að afkoma fyrir árið
í heild verði góð þó svo ekki sé gert ráð fyrir sömu hækkunum á verðbréfum
sjóðsins á seinni hluta ársins. 

Áhrif af innleiðingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla (IFRS)

Árshlutareikningur Sparisjóðs Vestfirðinga er nú í fyrsta skipti gerður
samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum.  Innleiðing þeirra leiðir til
breytinga á bæði á mati eigna og skulda svo og framsetningu á rekstrar- og
efnahagsreikningi sparisjóðsins. 

Árshlutareikningur sparisjóðsins fyrir fyrri árshelming ársins 2007 er gerður í
samræmi við þær reikningsskilaaðferðir sem fjallað er um í skýringum með
ársreikningi um reikningsskilaaðferðir.  Þetta á einnig við um
samanburðarfjárhæðir fyrir árið 2006 og opnunarefnahagsreikning 1. janúar 2006,
þar sem breytingar taka gildi þann dag, sem einnig er nefndur
innleiðingardagur. Fjárhæðum í opnunarefnahagsreikningi 1. janúar 2006 hefur
verið breytt í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla, en voru áður birtar
í samræmi við íslensk lög og reikningsskilavenjur.  Ekki er um að ræða
verulegar breytingar á sjóðstreymi sparisjóðsins samkvæmt alþjóðlegum
reikningsskilastöðlum samanborið við hvernig það var áður samkvæmt íslenskum
reikningsskilavenjum. Heildaráhrif yfirfærslunnar í alþjóðlega
reikningsskilastaðla á eigið fé sjóðsins er að það hækkar um 512 m.kr. 

Helstu breytingar á mat eigna og skulda við innleiðingu á IFRS í árslok 2006:

-  Lántökugjöld tekjufærast/gjaldfærast á lánstímanum í stað þess að vera færð
   sem tekjur/gjöld á lántökudegi.  Þar af leiðandi lækka vaxtatekjur og
   vaxtagjöld sparisjóðsins til skamms tíma, en langtímaáhrif verða óveruleg.
   Breyting á eigin fé vegna þessa er lækkun um 56 millj. kr. 

-  Í samræmi við IAS 39 hefur sparisjóðurinn framkvæmt virðisrýrnunarpróf á
   útlánum og leiddi það til lækkunar á eigin fé um 14 m.kr. þegar tekið hefur
   verið tillit til tekjuskatts. Samkvæmt IAS 39 ber sparisjóðnum að yfirfara
   öll útlán til að ganga úr skugga um hvort þar sé að gæta hlutlægra
   vísbendinga um virðisrýrnun sem áhrif hefur á vænt fjárstreymi af útláninu. 
   Útlánið verður þá fært niður í núvirði vænts fjárstreymis.
 
-  Vaxtafrysting útlána hefur verið hætt, en samkvæmt eldri reglum voru vextir
   af útlánum þar sem vanskil voru eldri en þriggja mánaða ekki tekjufærðir.
   Þessi breyting hækkar eigið fé um 60 millj. kr.

-  Sparisjóðurinn metur öll hlutabréf sín í óskráðum félögum á áætluðu gangvirði
   í stað kaupverðs eða markaðsverðs, ef það var áætlað lægra en kaupverðið. 
   Þessar breytingar leiða til gengishagnaðar sem færist í rekstrarreikning.
   Eigið fé hækkar um 641 millj. kr. vegna hækkunar á óskráðum eignum metnum á
   gangvirði. 

-  Lífeyrisskuldbinding er nú reiknuð út miðað við 2% vexti í stað 3% vaxta
   áður. Þetta þýðir lækkun á eigin fé um 6 millj. króna. 

-  Vegna framangreindra breytinga lækkar skatteign sjóðsins um 112 millj. kr. og
   eigið fé lækkar um sömu fjárhæð. 

Nánari grein er gerð fyrir breytingum á reikningsskilum sjóðsins í skýringum
með árshlutareikningum. 



Nánari upplýsingar veitir
Angantýr V. Jónasson sparisjóðsstjóri
sími 450 2500

Attachments

spvf arshlutareikningur 30 06 07_v3.pdf