- Boðað til hluthafafundar hjá Icelandair Group hf.


Boðað til hluthafafundar hjá Icelandair Group hf.

Stjórnarfundur í Icelandair Group hf. ákvað í dag að boða til hluthafafundar í
félaginu hinn 12. september 2007. Á dagskrá fundarins er tillaga um að fækka
stjórnarmönnum úr sjö í fimm. Stjórnarkjör fer fram á fundinum ef tillagan
verður samþykkt. Einnig verður tekin fyrir tillaga stjórnar til hluthafafundar
um ákvörðun þóknunar til varastjórnarmanna. 

Stjórnarformaður, Finnur Ingólfsson, kynnti á stjórnarfundinum þá ákvörðun sína
um að hætta í stjórn félagsins á framangreindum hluthafafundi sem boðað hefur
verið til. 

Meðfylgjandi er auglýsing um hluthafafundinn.

Hluthafafundur hjá Icelandair Group hf. 


Stjórn Icelandair Group hf. boðar til hluthafafundar hjá félaginu miðvikudaginn
12. september 2007 kl. 16.00 síðdegis. Fundurinn er haldinn að Nordica hótel,
Reykjavík. 

Á dagskrá fundarins eru:

1. Tillaga um breytingar á samþykktum félagsins, sem felur það í sér að
   aðalstjórnarmönnum er fækkað úr sjö í fimm.
 
2. Tillaga um stjórnarkjör, með fyrirvara um að tillaga skv. 1. tl. verði
   samþykkt. 

3. Tillaga stjórnar um ákvörðun þóknunar til varastjórnarmanna.

4. Önnur mál löglega upp borin.


Nánar:

A. Tillaga um breytingar á 1. mgr. 18. gr. samþykkta félagsins felur það í sér
að stjórnarmönnum er fækkað úr sjö í fimm. Verði tillagan samþykkt, þá verður
málsgreinin svohljóðandi: 

„Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum og þremur til vara, kjörnum á
aðalfundi til eins árs í senn. Um hæfi stjórnarmannanna fer að lögum.
Stjórnarkjör skal jafnan vera skriflegt, ef tillögur koma fram um fleiri menn
en kjósa skal.“ 


B. Með fyrirvara um að ofangreind tillaga um breytingar á samþykktum um fækkun
stjórnarmanna verði samþykkt, sem óhjákvæmilega kallar á nýtt stjórnarkjör, þá
skal skila framboðum til aðal- og varastjórnar skriflega fyrir kl. 16.00
föstudaginn 7. september 2007 til skrifstofu félagsins á Reykjavíkurflugvelli.
Í tilkynningu um framboð til stjórnar skal gefa, auk nafns frambjóðanda,
kennitölu og heimilisfangs, upplýsingar um aðalstarf, önnur stjórnarstörf,
menntun, reynslu og hlutafjáreign í félaginu. Þá skal einnig upplýsa um
hagsmunatengsl við helstu viðskiptaaðila og samkeppnisaðila félagsins, sem og
hluthafa sem eiga meira en 10% hlut í félaginu. 


C.  Stjórn gerir tillögu um að varastjórnarmönnum skuli greidd sama þóknun og
aðalstjórnarmönnum frá aðalfundi félagsins í mars sl. til hluthafafundarins sem
nú er haldinn. Fyrir tímabilið frá þessum hluthafafundi fram að næsta aðalfundi
leggur stjórn til að varastjórnarmönnum verði greiddar kr. 100.000 fyrir hvern
setinn stjórnarfund. 

Dagskrá hluthafafundarins og endanlegar tillögur liggja frammi á skrifstofu
félagsins á Reykjavíkurflugvelli til skoðunar fyrir hluthafa frá og með 4.
september 2007. 

Aðgöngumiðar, fundargögn og atkvæðaseðlar verða afhentir hluthöfum eða
umboðsmönnum þeirra á fundarstað frá kl. 15.30 á fundardegi, miðvikudaginn 12.
september 2007. 

Stjórn Icelandair Group hf.