- samkomulag um að leggja fram tillögu um sameiningu sparisjóða


Forsvarsmenn Sparisjóðsins í Keflavík, Sparisjóðs Vestfirðinga og Sparisjóðs
Húnaþings og Stranda hafa gert með sér samkomulag um að leggja til við stjórnir
sjóðanna að þeir verði sameinaðir. 

Efnahagur sparisjóðanna þriggja er traustur og þeir hafa eflst til muna hin
síðustu misseri. Áætlanir gera ráð fyrir því að stofnfé verði aukið í tengslum
við sameininguna og verði að því búnu u.þ.b. 5,7 milljarðar króna. Eigið fé
sameinaðs sjóðs mun nema u.þ.b. 21 milljarði króna og ljóst að þeir munu í
sameiningu geta sinnt enn stærri verkefnum og eflt þjónustu við viðskiptavini
sína. 

Stjórnendur sjóðanna telja að ýmis tækifæri felist í sameiningu sparisjóða;
útlána- og fjárfestingargeta mun aukast til muna og margs konar hagræði verður
af nánara samstarfi. Allt verður þetta til heilla fyrir viðskiptavini sjóðanna,
starfsmenn þeirra og stofnfjáreigendur, og svarar jafnframt kalli tímans um
alhliða þjónustu fjármálafyrirtækja. 

Nú þegar er unnið að samrunaáætlun og nánari útfærslu. Endanleg ákvörðun um
samruna er svo í höndum fundar stofnfjáreigenda sem gert er ráð fyrir að
haldinn verði fyrir lok nóvember n.k. Samruni sparisjóða, eins og annarra
fjármálastofnana er háður samþykki Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlits.