- Nýherji hf. kaupir 77% hlut í TM Software hf.


•	Eflir Nýherja samstæðuna sem alhliða upplýsingatæknifyrirtæki
•	TMS er leiðandi hýsingarfyrirtæki á Íslandi.
•	TMS mun starfa sem dótturfélag Nýherja.
•	Samanlögð árleg velta félaganna verður um 13 milljarðar.

Nýherji hf. hefur samið um kaup á 77% af hlutafé í upplýsingatæknifyrirtækinu
TM Software hf., TMS, af Straumi hf. FL Group hf. og Tryggingamiðstöðinni hf.
Markmiðið með kaupunum er að styrkja stöðu Nýherja samstæðunnar á sviði
rekstrarþjónustu, hýsingar og þróunar sérhæfðra hugbúnaðarlausna fyrir
fyrirtæki. Straumur hf. annaðist milligöngu um kaupin og  eru þau háð
niðurstöðu áreiðanleikakönnunar sem og samþykki samkeppnisyfirvalda. 

TMS er móðurfélag fimm félaga:  Skyggnis, Origo, Vigor, eMR og IPT. TMS er í
forystu hérlendis á sviði hýsingar og sértækra hugbúnaðarlausna og eru mörg af
stærstu fyrirtækjum og stofnunum landsins á meðal viðskiptavina fyrirtækisins.
Tekjur TMS eru áætlaðar um 2.500 mkr á árinu og er fjöldi starfsmanna um 280. 

Kaup Nýherja á TMS er mikilvægur áfangi í því að styrkja stöðu Nýherja
samstæðunnar sem lausna- og þjónustufyrirtækis og verður yfir helmingur tekna
sameinaðs félags af hugbúnaðar- og þjónustustarfsemi. Velta samstæðunnar eftir
kaupin á TMS verður um 13 milljarðar króna og starfsmannafjöldi um 750. 

Kaupin miðast við að heildarverð hlutabréfa í TMS sé 1.700 mkr og er greiðsla á
77% hlutafjár í TMS því ríflega 1.300 mkr. Nýherji ráðgerir að gefa út nýtt
hlutafé að nafnverði 55 mkr til þess að fjármagna kaupin að hluta. Þetta
hlutafé verður boðið til kaups á genginu 22 og eru því 1.210 milljónir króna
fjármagnaðar með sölu hlutafjár. Greiðsla fyrir þau 77% sem keypt hafa verið er
þannig að 32,35% eru greidd með hlutabréfum í Nýherja en 67,65% í peningum.
Áformað er að verja allt að 25 milljónum að nafnverði hlutafjár til að greiða
hluthöfum í TMS en 30 milljónir verða boðnar núverandi hluthöfum í Nýherja.
Eftirstöðvar kaupverðsins  verða fjármagnaðar með lánsfé og úr sjóðum
félagsins. Nýherji mun bjóða öðrum hluthöfum í TMS að selja sinn hlut  á sömu
kjörum og þeir sem þegar hafa samið um sölu sinna hluta. 

Þórður Sverrisson, forstjóri Nýherja, um kaupin á TM Software:
„Með kaupum á TMS býðst viðskiptavinum Nýherja samstæðunnar fullkomin
heildarþjónusta fyrir sínar þarfir á sviði upplýsingatækni. Kaupin styrkja
stöðu félagsins og til verður fremsta hýsingarfyrirtæki og öflugasta
upplýsingatæknifyrirtæki landsins.“ 

Um Nýherja hf. 

Hlutverk Nýherja hf. er að skapa viðskiptavinum sínum virðisauka með þekkingu
starfsmanna á upplýsingatækni, rekstri fyrirtækja og þörfum viðskiptavina.
Nýherji býður fyrsta flokks ráðgjöf og fagþjónustu á sviði upplýsingatækni, og
vandaðan hugbúnað, tölvu- og skrifstofubúnað ásamt traustri tækni- og
rekstrarþjónustu. Innan Nýherja samstæðunnar verða eftir kaupin 20 félög
hérlendis og erlendis, og eru um 130 starfsmenn á vegum félagsins erlendis.
Hlutabréf í Nýherja eru skráð í OMX Kauphöll Íslands. 

Um TM Software

TM Software hf. er alþjóðlegt hugbúnaðarfyrirtæki sem þjónar rúmlega 1.200
viðskiptavinum um allan heim. TM Software býður upp á heildarlausnir á sviði
upplýsingatækni undir eigin vörumerkjum, sem og sölu og þjónustu á stöðluðum
hugbúnaðarlausnum. Félagið var stofnað árið 1986 og gekk undir nafninu
TölvuMyndir allt til ársins 2005 þegar nafninu var breytt í TM Software. 

Nánari upplýsingar veitir Þórður Sverrisson, forstjóri Nýherja, í síma +354 569
7711 / 354 893 3630 eða um netfangið thordur.sverrisson@nyherji.is