- 9 mánaða reikningur 2007


Tekjur 7.777 mkr á árinu,  jukust um 44% frá þriðja ársfjórðungi í fyrra

•  Nýherji semur um kaup á 77% hlut í TM Software hf.
•  Heildartekjur 2.750 mkr í ársfjórðungnum, 7.777mkr á árinu.
•  Innri vöxtur tekna var 32% á þriðja ársfjórðungi, auk 12% frá nýjum
   dótturfélögum. 
•  EBITDA þriðja ársfjórðungs var 184 mkr eða 6,7%.

Rekstur í  þriðja ársfjórðungi
Þriðji ársfjórðungur ársins 2007 var tekjuhæsti ársfjórðungur Nýherja frá
upphafi en tekjur félagsins voru 2.750 mkr samanborið við 1.910 mkr á sama tíma
í fyrra. Hafa tekjur því aukist um 44% frá þriðja ársfjórðungi 2006 og má rekja
32% til innri vaxtar. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir,
EBITDA, var 184 mkr eða 6,7% samanborið við 197 mkr eða 10,5% á sama tímabili í
fyrra. Hagnaður eftir skatta á þriðja ársfjórðungi nam 93 mkr en var 154 mkr á
sama tíma í fyrra. Stöðugildi hjá Nýherja og dótturfélögum eru samtals 464 og
hefur þeim fjölgað um 120 frá áramótum. Starfsmenn samstæðunnar erlendis voru
134 í lok ársfjórðungsins. 

Fjármagnsgjöld og þróun eigin fjár
Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld  í þriðja ársfjórðungi voru neikvæð um 58 mkr
en jákvæð um 47 mkr á sama tímabili í fyrra. Eigið fé Nýherja þann 30.
september 2007 var 1.642 mkr, en var 1.397 mkr. í ársbyrjun. 

Afkoma fyrstu níu mánuði ársins
Tekjur fyrstu níu mánuði ársins námu 7.777 mkr samanborið við 5.942 mkr á sama
tíma í fyrra og hafa því aukist um 31% á milli ára. Rekstrarhagnaður fyrir
fjármagnsgjöld og afskriftir, EBITDA, var 485 mkr eða 6,2% samanborið við 509
mkr eða 8,6% á sama tímabili í fyrra. Hagnaður eftir skatta eftir þrjá
ársfjórðunga var 302 mkr samanborið við 238 mkr í fyrra. Fyrstu níu mánuði
ársins námu tekjur af vörusölu og tengdri þjónustu 5.522 mkr en voru 3.936 mkr
í fyrra. Rekstrarhagnaður af vörusölu og tengdri þjónustu nam 310 mkr 
samanborið við 197 mkr  í fyrra. Tekjur af hugbúnaði, tengdri þjónustu og
ráðgjöf námu 2.363 mkr á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við 2.101 mkr á
sama tíma í fyrra. Rekstrarhagnaður af þeirri starfsemi var 100 mkr fyrstu níu
mánuðina en var 237 mkr eftir níu mánuði í fyrra. 

Af rekstri Nýherja
Mikil og stöðug sala hefur verið á netþjónum, diskalausnum og öðrum kjarnavörum
Nýherja það sem af er ári auk þess sem mikill vöxtur hefur verið á sviði IP
lausna og í hýsingarþjónustu. Þjónustutekjur hafa einnig aukist um 30 prósent
frá sama ársfjórðungi í fyrra. Af helstu verkefnum má nefna viðamiklar
uppsetningar á IBM búnaði og á margmiðlunarkerfum hjá fjármálafyrirtækjum. Sala
á fartölvum og myndbúnaði hefur verið mikil og sýnir góðan vöxt á milli
tímabila. 

Sense, ný verslun með stafrænar lausnir, var opnuð í byrjun sumars. Henni hefur
verið vel tekið af viðskiptavinum og nýjar lausnir sem þar eru boðnar hafa
vakið mikla athygli. 

Rekstur Tölvusmiðjunnar á Austurlandi, sem Nýherji keypti í október í fyrra,
hefur gengið vel á árinu. Ákveðið hefur verið að sameina rekstur Nýherja og
Tölvusmiðjunnar fyrir árslok. 

Nýherji kaupir í TM Software hf.
Nýherji hf. hefur samið um kaup á 77%  hlutafjár í upplýsingatæknifyrirtækinu
TM Software hf. af Straumi hf., FL Group hf. og Tryggingamiðstöðinni hf. Kaupin
eru háð áreiðanleikakönnun og samþykki samkeppnisyfirvalda. Gert er ráð fyrir
að áreiðanleikakönnun verði lokið í byrjun desember. 

Markmiðið með kaupunum er að styrkja stöðu Nýherja samstæðunnar á sviði
rekstrarþjónustu, hýsingar og þróunar sérhæfðra hugbúnaðarlausna fyrir
fyrirtæki. TM Software hf. verður rekið sem dótturfélag Nýherja. 

Með kaupunum á TM Software hf. fylgja dótturfélögin Skyggnir, Origo, Vigor, eMR
og ITP. TM Software hf. er í forystu hérlendis á sviði hýsingar og sértækra
hugbúnaðarlausna og eru mörg af stærstu fyrirtækjum og stofnunum landsins á
meðal viðskiptavina fyrirtækisins. Tekjur TM Software hf. eru áætlaðar um 2.500
mkr á árinu og er fjöldi starfsmanna um 275. 

Kaup Nýherja á TM Software er mikilvægur áfangi í að þróa Nýherja samstæðuna
sem lausna- og þjónustufyrirtæki og verður yfir helmingur tekna sameinaðs
félags af þjónustu-, hugbúnaðar- og ráðgjafarstarfsemi. Ársvelta samstæðunnar
eftir kaupin á TM Software hf. er áætluð um 13 milljarðar króna og
starfsmannafjöldi um 750. 

Dótturfélög
Vaxandi hluti af starfsemi Nýherja samstæðunnar er í dótturfélögum. Í dag eru
54% starfsmanna samstæðunnar starfandi hjá dótturfélögum Nýherja og þar liggur
35% af veltunni. Lagt hefur verið í mikla fjárfestingu í vöruþróun og
uppbyggingu nýrra félaga á erlendum mörkuðum og hafa um 89 mkr verið færðar til
gjalda á árinu, einkum vegna þróunar ákveðinna hugbúnaðarlausna á vegum
AppliCon. 

AppliCon
Rekstur AppliCon ehf. og AppliCon A/S í Danmörku var í samræmi við áætlanir
félaganna. Í ár eru tíu ár liðin síðan félagið hóf að bjóða SAP
viðskiptahugbúnað til fyrirtækja hérlendis. Í dag er AppliCon eitt fremsta SAP
ráðgjafarfyrirtæki á Norðurlöndum og  í október hlaut AppliCon gullvottun SAP,
eitt þriggja fyrirtækja á Norðurlöndum. Gullvottun er efsta stig vottunarkerfis
SAP og hlýtur AppliCon viðurkenninguna fyrir framúrskarandi árangur í sölu,
þjónustu og þróun á SAP lausnum. 

Verkefnastaða AppliCon ehf. og AppliCon A/S í Danmörku er góð. Af nýjum
verkefnum hérlendis má nefna að Kópavogsbær hefur keypt SAP mannauðs- og
launalausn. AppliCon A/S vinnur að viðamikilli SAP innleiðingu hjá
verkfræðifyrirtækinu Birch & Krogboe, auk þess sem áfram er unnið að
innleiðingu SAP fjárhagslausna hjá Dong Energy A/S. 

Uppbygging á nýjum AppliCon fyrirtækjum  í London og Stokkhólmi sem þjóna
mörkuðum í Bretlandi og Svíþjóð gengur samkvæmt áætlun. 

ParX ehf.
Starfsemi ParX hefur verið kröftug á árinu og verkefnastaða félagsins er góð.
Tekjur og afkoma ParX á fyrstu þremur fjórðungum ársins eru yfir markmiðum.
Verkefni fyrirtækisins eru fjölbreytt, en viðskiptavinir ParX eru mörg af
stærri fyrirtækjum landsins, ráðuneyti, stofnanir og sveitarfélög. Þá hefur
félagið í auknum mæli unnið að verkefnum erlendis. 

Dansupport A/S
Rekstur Dansupport A/S, sem Nýherji keypti í maí á þessu ári, hefur verið í
samræmi við áætlanir. Félagið opnaði nýja skrifstofu í Kaupmannahöfn og hefur
starfsmönnum fjölgað um 11 frá í vor og eru þeir nú um 40 talsins. Ráðgert er
að fjárfesta í áframhaldandi vexti Dansupport á næstu ársfjórðungum og er gert
ráð fyrir að félagið nái eðlilegri arðsemi á síðari hluta næsta árs. 

Linkur ehf.
Starfsemi Links hefur gengið samkvæmt áætlun það sem af er ári. Í september
gekk Linkur frá kaupum á rekstri Sony Center í Kringlunni. Markmiðið með
kaupunum er að styrkja framboð félagsins á sviði mynd- og margmiðlunarlausna. 

Horfur
Tekjur Nýherja á árinu eru umfram áætlun og afkoma í samræmi við væntingar.
Horfur fyrir fjórða ársfjórðung eru góðar og ný tækifæri skapast á næsta ári
með kaupum Nýherja á TM Software hf. 

Samþykkt stjórnar
Á stjórnarfundi Nýherja hf. 18. október 2007, samþykkti stjórn félagsins
árshlutareikning fyrir þriðja ársfjórðung. 

Um Nýherja hf.
Hlutverk Nýherja hf. er að skapa viðskiptavinum sínum virðisauka með þekkingu
starfsmanna á upplýsingatækni, rekstri fyrirtækja og þörfum viðskiptavina.
Nýherji býður fyrsta flokks ráðgjöf og fagþjónustu á sviði upplýsingatækni og
vandaðan tölvu-, skrifstofu- og hugbúnað ásamt traustri tækni- og
rekstrarþjónustu. Félög Nýherja samstæðunnar eru 14 bæði hér heima og erlendis
og eru starfsmenn 464 talsins. Hlutabréf Nýherja hf. eru skráð í OMX Kauphöll
Íslands. 

Stjórn félagsins skipa Benedikt Jóhannesson, formaður, Árni Vilhjálmsson og
Guðmundur Jóh. Jónsson. Forstjóri Nýherja er Þórður Sverrisson og veitir hann
nánari upplýsingar í síma 569-7711 eða 893-3630. Heimasíða Nýherja er
www.nyherji.is

Attachments

nyherji 09 2007.pdf nyherji lykiltolur 30.9.2007.pdf