- Travel Service kemur inn í rekstur Icelandair Group á fjórða ársfjórðungi 2007


Rekstur tékkneska flugfélagsins Travel Service verður hluti af rekstri
Icelandair Group frá og með 4. ársfjórðungi, en ekki 3. ársfjórðungi eins og
gert var ráð fyrir og fram kom í tilkynningu um kaupin.  Frágangur á endanlegum
kaupsamningi tók lengri tíma en ætlað var, en seinkunin hefur engin áhrif á
samninginn sjálfan. Þetta hefur í för með sér, að áhrif á rekstur Icelandair
Group vegna yfirtöku reksturs Travel Service á árinu 2007 verða minni en ráð
var fyrir gert.  Áætlað er að velta félagsins á árinu 2007 verði um 62-63
milljarðar króna. 

Rekstrarafkoma Icelandair Group á þriðja ársfjórðungi 2007 verður undir
áætlunum félagsins.  Ofangreind seinkun hefur áhrif, en helstu ástæður eru að
farþegatekjur í áætlunarflugi dótturfélagsins Icelandair í fjórðungnum eru
lægri en áætlað var, m.a. vegna sterkrar stöðu íslensku krónunnar og lægri
meðalfargjalda.  Auk þess hefur viðhaldskostnaður í samstæðunni verið hærri en
reiknað var með.  Sterk staða íslensku krónunnar hefur einnig áhrif á
útflutning frá landinu og hefur það haft áhrif á flutninga Icelandair Cargo á
þessu ári og verkefnastaða í fraktleiguflugi Bláfugls var um tíma lakari en
gert var ráð fyrir. 

Icelandair Group mun birta uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung 2007 þann 13.
nóvember nk.