2007


Árangur Sparisjóðs Mýrasýslu sá næstbesti frá upphafi

Hagnaður Sparisjóðs Mýrasýslu var 733,7 millj. kr. fyrir skatta og 635,2 millj.
kr. eftir skatta árið 2007. Eigið fé Sparisjóðsins jókst um 78,85% frá fyrra
ári m.a. vegna breyttra reikningsskilaaðferða í kjölfar innleiðingar
alþjóðlegra reikningsskilastaðla.  Helstu lykiltölur og aðrar upplýsingar um
rekstur Sparisjóðs Mýrasýslu árið 2007 má sjá hér að neðan. 

Rekstur samstæðunnar

●  Samstæðan skilaði 635,2 millj. kr. hagnaði eftir skatta árið 2007,
   samanborið við   1457,7 millj. kr. á árinu 2006. 

●  Vaxtatekjur námu  4.258,1millj. kr. árið 2007 en það er 33,9% hækkun frá
   árinu  2006. 

●  Vaxtagjöld hækkuðu um 38,6% milli ára og námu 3.485,3 millj. kr. árið 2007. 

●  Hreinar vaxtatekjur námu 772,8 millj. kr. árið 2007 og hækkuðu því um 16,3% á
   milli ára.
 
●  Vaxtamunur, þ.e. hreinar vaxtatekjur í hlutfalli af meðalstöðu fjármagns var
   1,84% árið 2007 en 2,15% árið 2006 en vaxtamunur vaxtaberandi eigna var 2,32%
   árið 2007 en 2,59% árið 2006. 

●  Hreinar rekstrartekjur voru 2.672,5 millj. kr. á árinu á móti 3.951,6 millj.
   kr. árið 2006. 

●  Framlag í afskriftarreikning útlána nam 578,9 millj. kr. á árinu sem er
   hækkun frá 215,4 millj. kr. árið 2006. Í árslok 2007 eru 596,7 millj. kr. í
   afskriftareikningi útlána sem er 1,72% af útlánum og veittum ábyrgðum
   sparisjóðsins. 

●  Önnur rekstrargjöld sparisjóðsins voru 638,7 millj. kr. árið 2007 en voru
   461,3 millj. kr. árið 2006, hækkunin er 38,5%. 

●  Arðsemi eigin fjár Sparisjóðs Mýrasýslu var 10,02% árið 2006 miðað við 43,72%
   árið 2005.
 
●  Rekstrarkostnaður sem hlutfall af hreinum rekstrartekjum er 50,02% árið 2007
   miðað við 25,38% fyrir árið 2006. Rekstrarkostnaður sem hlutfall af eignum er
   nú 2,8%  sem er sama hlutfall og á fyrra ári. 

Efnahagur og eigið fé samstæðunnar

●  Heildareignir samstæðunnar eru 47.698,4 millj. kr. miðað við 36.178,4
   millj.kr. í lok árs 2006, hafa þær vaxið um 31,8% milli áranna 2006 og 2007.
 
●  Útlán samstæðunnar hafa aukist um 30,02% á árinu og nema þau 34.766,7 millj.
   kr. í árslok 2007.
 
●  Innlán samstæðunnar hafa aukist um 20,4% á árinu og nema 17.336,7 millj. kr.
   í árslok 2007. 

●  Eigið fé Sparisjóðs Mýrasýslu var 6.338,0 millj. kr. 31. desember 2007 en var
   5.211,9 millj. kr. í árslok 2006, aukningin er 21,61% þegar búið er að
   leiðrétta uppgjör 2006 til samræmis við alþjóðlega reikningskilastaðla. 

●  Eiginfjárhlutfall samstæðunnar samkvæmt CAD-reglum er 11,64% 31. desember
   2007 en var 11,7% þann 31. desember 2006. 

Fréttir af starfsemi

●  Í september var 95% hlutafjár í verðbréfafyrirtækinu NordVest Verðbréfum hf.
   keypt og hefur viðsnúningur á rekstri NordVest gengið fljótt og vel. 

●  Á árinu 2007 stóð til að sameina Sparisjóð Skagafjarðar og Sparisjóð
   Siglufjarðar. Það tókst ekki þar sem tilskilin leyfi hafa ekki fengist frá
   Fjármálaeftirlitinu en vonast er til að þau fáist í byrjun árs 2008. 

●  Uppgjör samstæðunnar samanstendur af uppgjöri móðurfélags ásamt dótturfélögum
   þess, Sparisjóði Siglufjarðar, Sparisjóði Ólafsfjarðar og Veitu
   fjármálaþjónustu. 

Töluvert óvissuástand er á fjármálamörkuðum um þessar mundir og ljóst er að
afkoma Sparisjóðs Mýrasýslu verður ekki eins góð og á síðasta ári. Töluvert
uppbyggingarstarf er framundan við að efla nýjar einingar innan samstæðunnar í
Skagafirði og Reykjavík. Óvissa varðandi fjármögnunarmöguleika setur einnig
mark sitt á íslensk fjármálafyrirtæki en endurfjármögnunarþörf Sparisjóðs
Mýrasýslu er lítil næstu tvö árin sem kemur sér vel við slíkar aðstæður. 
Sparisjóður Mýrasýslu hefur starfsstöðvar á 5 stöðum sem staðsettar eru í
Reykjavík, Akranesi, Siglufirði, Ólafsfirði og Borgarnesi. Í Mars mun
Sparisjóðurinn flytja starfsstöð sína í Reykjavík úr Síðumúla í nýtt og
glæsilegt húsnæði í Borgartúni 26. 

Aðalfundur Sparisjóðs Mýrasýslu verður haldinn föstudaginn 4. apríl 2008.
Stjórn sparisjóðsins leggur til að greiddur verði arður sem nemur 53% af
stofnfé eða 267.661 millj. kr. í arð á árinu 2008 vegna ársins 2007. 

Ársreikningur Sparisjóðs Mýrasýslu var samþykktur af stjórn sjóðsins þann 4.
mars 2008 en meirhluti stjórnar var skipaður konum.

Attachments

arsreikningur sparisjos myrasyslu 2007.pdf frettatilkynning311207 5 ara yfirlit.pdf