- Pétur J. Eiríksson lætur af störfum hjá Icelandair Cargo


Pétur J. Eiríksson mun að eigin ósk láta af starfi sínu sem framkvæmdastjóri
Icelandair Cargo. Hann hefur verið framkvæmdastjóri fyrirtækisins frá stofnun
þess árið 2000 en samtals í 26 ár hjá Icelandair Group og þar áður Flugleiðum.
Pétur mun setjast í stjórn Icelandair Cargo. 

“Það hefur verið mér mikið ánægjuefni að vinna að stofnun Icelandair Cargo og
eiga þátt í að byggja upp fyrirtækið og skapa því þann sess, sem það hefur
öðlast í flugfutningaheiminum. Sú ákvörðun stjórnar Icelandair Group að hætta
við áætlanir um kaup og leigu á Airbus A330 fraktflugvélum skapar ákveðin
tímamót. Ég tel þá ákvörðun rétta frá sjónarmiði móðurfélagsins en við þau
tímamót tel ég að annar eigi að taka við starfi framkvæmdastjóra og móta nýja
stefnu” segir Pétur J. Eiríksson. 

"Ég vil fyrir hönd Icelandair Group færa Pétri J. Eiríkssyni þakkir fyrir
framúrskarandi störf fyrir félagið í rúman aldarfjórðing. Pétur átti sem
markaðsstjóri Flugleiða á sínum tíma stóran þátt í myndun leiðakerfis Flugleiða
og þeim vexti sem orðin er í íslenskri ferðaþjónustu og hefur síðan byggt upp
langstærsta flugfraktflutningafyrirtæki á Íslandi. Það er okkur mikill styrkur
að Pétur hefur fallist á að taka sæti í stjórn Icelandair Cargo að loknum
glæsilegum starfsferli hjá fyrirtækinu", segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri
Icelandair Group.