Kaupum á dótturfélögum Landsbankans rift



Eins og tilkynnt var 1. október síðastliðinn skrifuðu
Straumur-Burðarás fjárfestingabanki hf. (Straumur) og Landsbanki
Íslands hf. (Landsbankinn) undir samkomulag um kaup Straums á
meirihluta af erlendri starfsemi Landsbankans á sviði
fyrirtækjaráðgjafar og verðbréfamiðlunar fyrir 380 milljónir evra,
með fyrirvara um samþykki eftirlitsaðila í viðkomandi löndum. Um var
að ræða 100% hlut í Landsbanki Securities (UK) Limited og Landsbanki
Kepler og 84% hlut Landsbankans í Merrion Landsbanki.

Hinn 7. október síðastliðinn tilkynnti Landsbankinn að
Fjármálaeftirlitið (FME) hefði ákveðið að taka yfir vald
hluthafafundar Landsbankans og víkja félagsstjórn í heild sinni frá
störfum. Ennfremur að FME hefði skipað skilanefnd sem tæki við öllum
heimildum stjórnar Landsbankans þegar í stað.

Ennfremur tilkynntu stjórnvöld í Bretlandi hinn 8. október
síðastliðinn að þau hefðu gripið til ráðstafana í því skyni að frysta
eigur Landsbankans í Bretlandi.

Ljóst er orðið að Landsbankinn er ekki í aðstöðu til að standa við
ákvæði kaupsamningsins sem gerður var.

Af þessum sökum hefur Straumur í dag tilkynnt Landsbankanum um riftun
á kaupsamningnum.

Nánari upplýsingar veitir:
Ólafur Teitur Guðnason, fjölmiðlafulltrúi
Sími: 858 6778
Netfang: olafur.gudnason@straumur.net