- Tilkynning um slit og ósk um afskráningu á Peningabréfum Landsbankans ISK


Peningabréf ISK er skráður í Kauphöll og rekinn af Landsvaka hf. Í framhaldi af
setningu laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna
sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., sem sett voru á Alþingi hinn 6.
október sl. og þess umróts sem orðið hefur á fjármálamarkaði, hefur verið lokað
fyrir innlausnir sjóðsins síðan 6. október. Þessir atburðir hafa breytt
rekstrar- og fjárfestingarumhverfi peningamarkaðssjóða verulega. Með
lagasetningunni var forgangsröð krafna á banka breytt, þannig að innlán voru
sett framar skuldabréfum á sömu fyrirtæki. Umrót eins og það sem nú hefur orðið
þýðir verulegt verðfall skuldabréfa innlendra banka. Það sama á við um
skuldabréf fleiri útgefenda á markaði. 

Föstudaginn 17. október sl. beindi Fjármálaeftirlitið þeim tilmælum til
rekstrarfélaga verðbréfasjóða að unnið yrði að slitum á öllum
peningamarkaðssjóðum og sjóðfélögum greiddar út eignir í formi innlána í
hlutfalli við eign hvers og eins þannig að jafnræðis sé gætt. Í ljósi þeirra
tilmæla hefur stjórn Landsvaka hf. nú tekið ákvörðun um að selja allar eignir
Peningabréfa ISK og að honum verði slitið. 

Eins og áður segir skýra breyttar aðstæður á markaði og verðfall skuldabréfa
innlendra banka stærstan hluta þess taps sem sjóðurinn hefur orðið fyrir. 

Útgreiðsluhlutfall fyrir Peningabréf ISK verður 68,8% m.v. síðasta skráða gengi

Um fullnaðargreiðslu er að ræða og munu greiðslur berast sjóðfélögum hinn 29.
október inn á innlánsreikninga sem hafa verið stofnaðir í Landsbankanum þar sem
innistæður eru að fullu tryggðar í samræmi við yfirlýsingar ráðamanna.
Innlánsreikningurinn mun bera bestu fáanlegu kjör Landsbankans, eða 0,5% betri
kjör en þau hæstu sem í boði eru í dag. Í vikunni verður öllum eigendum
Peningabréfa ISK tilkynnt um útgreiðsluupphæð og innlánsreikning. 


F.h. Landsvaka hf.

Stefán H. Stefánsson     Sigurður Ó. Hákonarson 
Stjórnarformaður         Framkvæmdarstjóri

Attachments

tilkynning.pdf