Um stöðu Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hf.



06.11.2008

Sú þróun sem átt hefur sér stað á alþjóðlegum fjármálamörkuðum eftir
30. júní sl. hefur haft mikil áhrif á fjármálastofnanir og fyrirtæki,
þar á meðal Straum-Burðarás Fjárfestingabanka hf. (Straumur).
Straumur hefur lagt mikla áherslu á að upplýsa hluthafa og
lánveitendur um áhrif þessarar þróunar á bankann.

Straumur hefur á síðustu mánuðum haldið áfram að auka hlutfall tekna
vegna þjónustu við viðskiptavini og draga úr áhættu í
efnahagsreikningi, að því leyti sem mögulegt er.

Efnahagsreikningur bankans og eigið fé hefur óhjákvæmilega rýrnað
vegna lækkunar á verði eigna (bæði fjáreigna og útlána). Þann 30.
júní sl. var hlutfall þóknunartekna vegna starfsemi bankans á Íslandi
um 26% og hlutfall eigna bankans á Íslandi 22%.
Markaðsaðstæður hérlendis hafa hins vegar haft áhrif á afkomu bankans
vegna starfsemi hans á Íslandi."

Straumur hefur metið núverandi eignastöðu í kjölfar atburða á
innlendum og erlendum mörkuðum, að teknu tilliti til hagnaðar eða
taps af veltufjáreignum, fjáreignum tilgreindum á gangvirði og
virðisrýrnunar. Bankinn áætlar að þann 31. október sl. hafi
eiginfjárhlutfall bankans verið yfir 20% og eiginfjárþáttur A yfir
18%.

Straumur hafði nokkrar eigna-, skulda- og afleiðustöður gagnvart
Landsbanka Íslands hf., Glitni banka hf. og Kaupþing banka hf., þegar
rekstur þeirra voru teknir yfir af Fjármálaeftirlitinu. Straumur
telur að eftir uppgjör á þessum samningum séu samanlögð áhrif á
eignastöðu Straums jákvæð.

Uppgjör reikninga Straums er í evrum og ver bankinn eignir sínar í
evrum. Hins vegar á bankinn töluvert af eignum og skuldum í öðrum
gjaldmiðlum, þar á meðal íslenskum krónum. Bankinn hefur þó ekki
getað sinnt hefðbundnum gjaldeyrisvörnum undanfarna mánuði vegna
lokunar gjaldeyrismarkaðar á Íslandi. Á þessum tíma hefur bankinn
neyðst til stöðutöku í mismunandi myntum. Þegar markaðsaðstæður leyfa
mun bankinn taka upp fyrri aðferðir við gjaldeyrisvarnir. Með
hliðsjón af framangreindu getur Straumur staðfest að veiking íslensku
krónunnar hefur ekki haft veruleg áhrif á eignastöðu bankans.

Straumur hefur takmarkaða endurfjármögnunarþörf þar sem skuldsetning
bankans er hlutfallslega lág, en þann 30. júní sl. voru útlán sem
hlutfall af heildareignum 31%. Langtíma endurfjármögnunarþörf bankans
næstu 12 mánuði er undir 400 milljónum evra. Markaðsaðstæður á
Íslandi undanfarinn mánuð hafa samt sem áður haft áhrif á
lausafjárstöðu bankans. Straumur hefur stýrt lausafjárstöðu sinni
vandlega sl. mánuð og hefur hún jafnt og þétt styrkst. Síðustu mánuði
hefur bankinn staðið við allar sínar skuldbindingar og mun gera það
framvegis. Síðustu atburðir á Íslandi hafa hins vegar orðið til þess
að lánshæfismat bankans hefur verið lækkað af lánshæfisfyrirtækinu
Fitch Ratings, í langtímaeinkunnina "B". Straumur hefur á þessu
tímabili haldið góðu sambandi við lánardrottna bankans og unnið að
því að tryggja lausafjárstöðu hans.

Í framhaldi þeirra atburða sem lýst er hér að ofan hefur Straumur
unnið að því að minnka efnahagsreikning og áhættu bankans, vernda
eigið fé og bæta lausafjárstöðu. Þann 31. október sl. voru
heildareignir Straums undir 5 milljörðum evra og áhættugrunnur
bankans undir 4 milljörðum evra. Nú í byrjun nóvember nýtti Straumur
tækifæri á markaði til að styrkja tekjuskapandi hluta rekstursins í
London með því að ráða nokkra af fyrrverandi starfsmönnum Teathers og
kaupa vörumerkið Teathers.

Þrátt fyrir erfiðar markaðsaðstæður á alþjóðlegum fjármálamarkaði
telur stjórn og framkvæmdastjórn bankans að ofangreindar aðgerðir
ásamt sterkri eiginfjárstöðu geri bankanum kleift að þróa starfsemi
sína í samræmi við stefnu bankans, þ.e. að leggja áherslu á vaxta og
þóknunartekjur bankans, dreifa tekjustofnum og draga úr áhættu
efnahagsreikningsins.

Frekari upplýsingar veitir:

Georg Andersen
Forstöðumaður Samskipta og Markaðssviðs
Sími: +354 858 6707
E-mail: georg@straumur.com