- Greinargerð um áhrif breytinga á fjármálamörkuðum á Nýherja hf.


Vísað er til bréfs Fjármálaeftirlitsins dags. 23. október 2008, en í bréfinu er
farið fram á að allir útgefendur hlutabréfa birti sérstaka greinargerð um bein
og óbein áhrif þessa óvenjulega ástands, sem ríkir nú á fjármálamarkaði.
Eftirfarandi er svar Nýherja hf. við þessari beiðni. 

Nýherji birti árshlutareikning fyrir 9 mánuði ársins 2008 þ. 22. október 2008,
sem sendur var til Kauphallar Íslands sama dag. Í skýringum með uppgjörinu kom
m.a. fram að horfur hérlendis eru nú óljósari en áður og óvissa meiri vegna
breytinga á rekstri viðskiptabanka og stöðu á fjármála-mörkuðum. Þótt líklegt
sé að samdráttur verði í vörusölu hérlendis eru þjónustutekjur nokkuð stöðugar.
Reiknað er með ágætum tekjum erlendra dótturfélaga Nýherja og að afkoma þeirra
verði ágæt. Vegna óvissunnar má ætla að afkoma samstæðunnar verði undir áætlun
í fjórða ársfjórðungi. Talið er að minnkandi kaupgeta viðskiptavina hérlendis
hafi þau áhrif að vörusala á neytendavörum dragist saman. Því verður nú lögð
mikil áhersla á að efla starfsemi félagsins erlendis. 

Brugðist hefur verið við  breyttum aðstæðum með hagræðingaraðgerðum. Launaliðum
starfsmanna á Íslandi hefur verið sagt upp og munu laun allra starfsmanna, sem
eru með meira en  kr. 300.000 í mánaðarlaun lækka um 10% frá og með 1. febrúar
2009. Starfsmönnum hefur fækkað í þeim einingum, sem helst verða fyrir áhrifum
af minnkandi eftirspurn. Öllum ráðum verður beitt til þess að lækka
rekstrarkostnað með ýmsum hagræðingaraðgerðum. Gengismál  íslensku krónunnar
eru í mikilli óvissu þessa dagana og stýrivextir mjög háir. Gengisfall
krónunnar hefur því haft veruleg áhrif á fjármagnskostnað og erlenda
skuldastöðu félagsins eins og fram kemur í 9 mánaða uppgjöri félagsins.
Erfiðleikar við öflun gjaldeyris til greiðslu á erlendum vöruskuldum og
gjörbreyttar aðstæður lánsviðskipta við erlenda birgja hefur valdið félaginu
erfiðleikum. Óvissa er um hversu lengi þetta ástand varir. Haft verður samráð
við viðskiptabanka félagsins um frestun afborgana lána á næsta ári til að auka
svigrúm til að mæta hugsanlegum vanskilum viðskiptamanna og tíma-bundnum
samdrætti verkefna. Áður hefur komið fram í fréttum félagsins til
kauphallarinnar að Nýherji hf. keypti TM Software hf. fyrr á árinu  og einnig
hefur verið tilkynnt um skipulagsbreytingar í tengslum við þessi kaup.
Samþætting á starfsemi félagsins með þessum kaupum og skipulags-breytingum sem
og ofangreindar aðgerðir í launamálum, kostnaðaraðhaldi og viðræðum við
viðskiptabanka eru helstu þættir í aðgerðum félagsins til þess að bregðast við
þeim óvissuþáttum, sem nú eru ríkjandi. Fjárhagslegir og viðskiptalegir
áhættuþættir, sem greint hefur verið frá hér að ofan eru umfram venjulega 
áhættu í starfsgrein félagsins. 

Félagið treystir sér ekki til að meta að öðru leyti bein og óbein áhrif þessa
óvenjulega ástands á eigin rekstur og getur því ekki eytt allri óvissu um stöðu
félagsins til að stuðla að eðlilegri verðmyndun á hlutabréfum þess að nýju eins
og óskað er eftir í bréfi Fjármálaeftirlitsins.