- Breytingar á reglum um gjaldeyrismál


Seðlabanki Íslands hefur gefið út nýjar reglur um gjaldeyrismál að fengnu
samþykki viðskiptaráðherra. Meginbreytingar frá fyrri reglum lúta að undanþágum
sem veittar eru tilteknum hópum vegna brýnna hagsmuna og því að litlar líkur
eru taldar á að viðskipti þeirra muni valda alvarlegum og verulegum
óstöðugleika í gengis- og peningamálum. Ríki og sveitarfélögum er veitt
undanþága frá reglunum, svo og fyrirtækjum í meirihlutaeigu ríkis og
sveitarfélaga sem starfa samkvæmt sérlögum. Fyrirtæki sem eru aðilar að
fjárfestingarsamningum við íslenska ríkið og fyrirtæki sem fengið hafa leyfi
iðnaðarráðherra til olíuleitar eru undanþegin reglunum. Þá er skilanefndum sem
skipaðar eru á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki veitt undanþága. 

Fyrirtæki sem hafa yfir 80% af tekjum og gjöldum erlendis geta sótt um
undanþágu til Seðlabankans frá tilteknum greinum reglnanna er varða
verðbréfaviðskipti erlendis, lánveitingar og lántökur, ábyrgðir og
afleiðuviðskipti, svo og skilaskyldu á gjaldeyri. Seðlabankinn mun birta á
vefsíðu sinni lista yfir þau fyrirtæki sem fá undanþágu samkvæmt þessu. 

Þá eru heimildir viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja til
gjaldeyrisviðskipta rýmkaðar. 

Aðrar minniháttar breytingar lúta m.a. að því að nú er skýrt að ekki eru
takmarkanir á beinni fjárfestingu, en athygli er þá vakin á því að ekki er
heimil yfirfærsla eða flutningur á fjármunum frá landinu sem tengjast sölu á
beinum fjárfestingum. 

Reglurnar skal endurskoða eigi síðar en 1. mars 2009. Áréttað er að lögin sem
reglurnar byggja á eru tímabundin og falla úr gildi í nóvemberlok 2010.