- Beiðni um heimild til nauðasamningsumleitana


Hér með er þess farið á leit, að Eglu hf., kt. 551102-2030, með lögheimili og
varnarþing að Suðurlandsbraut 18, Reykjavík, verði veitt heimild til að leita
nauðasamnings við lánardrottna sína samkvæmt ákvæðum 3. þáttar laga nr.
21/1991. 

I. MÁLSATVIK.

Egla ehf. var stofnað í nóvember 2002. Upphaflegur tilgangur félagsins var að
vera eignarhaldsfélag um hluti keypta í Búnaðarbanka Íslands hf. í samræmi við
ákvæði kaupsamnings við íslenska ríkið dags.  16. janúar 2003. Samkvæmt
núgildandi samþykktum félagsins er skráður tilgangur þess að vera
eignarhaldsfélag um hluti í öðrum félögum, kaup og sala hlutabréfa, kaup og
sala fasteigna, fasteignarekstur, lánastarfsemi og annar skyldur rekstur. Skráð
hlutafé félagsins er í dag kr. 11.518.948 að nafnverði.
 
Í ársbyrjun 2003, eftir kaup félagsins á kjölfestuhlut í Búnaðarbanka Íslands
hf. (BÍ), voru hluthafar félagsins þrír, þ.e. Ker hf. eigandi 49,5%,
Vátryggingafélag Íslands hf. eigandi 0,5% og þýski bankinn Hauck & Aufhäuser
Privatbankiers KGAA (H&A) eigandi 50%. 

Egla hf. keypti hluti í BÍ fyrir 7,8 milljarða króna er tóku til 32,6% alls
hlutafjár bankans. Eigið fé Eglu hf. í byrjun voru 3,4 milljarðar króna sem
hluthafar greiddu með hlutafjárhækkun í marsmánuði 2003, en hlutafé var síðan
aftur hækkað í desember 2003, þegar síðari hluti kaupverðsins til ríkisins var
greiddur, þá um 1,7 milljarða króna, til að félagið héldi umsömdu 65% eiginfjár
hlutfalli. Að öðru leyti var kaupverðið fjármagnað með lánum frá Landsbanka
Íslands hf. 

Sá hópur sem stóð að kaupum á kjölfestuhlut í BÍ naut ráðgjafar erlendra
bankamanna frá einum stærsta og virtasta banka Frakklands. Þeirra mat var að
kaupverð hlutanna í BÍ væri allt of hátt miðað við verðlag sambærilegra banka í
Evrópu, einkum norður Evrópu. Það var því með blendnum huga sem kaupendur gengu
frá kaupunum. Ljóst var að þunglega gæti horft með ávöxtun kaupverðsins, nema
til hagræðingar kæmi á íslenskum bankamarkaði og BÍ yrði hluti af henni. 
Fljótlega eftir kaupin á hlutunum í Búnaðarbanka Íslands hf., eða vorið 2003,
var ákveðið að sameina BÍ og Kaupþing banka hf. Gekk sú sameining eftir í júní
2003. Eignaðist Egla hf. við það 15,83% hlut í sameinuðum banka. Hlutir í hinum
sameinaða banka hækkuðu mikið fyrstu mánuðina. 

Í árslok 2003 var verðmæti hluta Eglu hf. í Kaupþingi banka hf. metið á 14,7
milljarða króna, en kaupverð þeirra hafði verið 7,9 milljarðar króna í byrjun
árs. Eigið fé Eglu hf. var þá metið á 10,7 milljarða króna, en skuldir losuðu
2,7 milljarða króna. 

Á fyrri hluta árs 2004 varð að samkomulagi að Egla hf. keypti 64,6% af
eignarhlut hins þýska banka í félaginu, eða 32,3% alls hlutafjár félagsins.
Söluverð hlutanna voru tæpar 60 milljónir USD. Í kjölfar þess var hlutafé Eglu
hf. lækkað um samsvarandi hlutfall. Um svipað leyti keypti Ker hf. eignarhlut
Vátryggingafélags Íslands hf. í félaginu. Á árinu 2004 var hlutafé Eglu hf.
aukið um kr. 2.400.000.000 vegna kaupa á nýjum hlutum í Kaupþingi banka hf. 
Ker hf. og hluthafar þess keyptu upp allan eignarhlut H&A í Eglu hf. á árinu
2005, en þá var liðið það tímabil, 21 mánuður, sem hluthafar Eglu hf. höfðu
skuldbundið sig til þess að eiga hlutina í BÍ. Kjalar ehf. varð síðar eigandi
allra hluta í Eglu hf. eftir að félagið hafði keypt upp hluti annarra en Kers
hf. í félaginu. Kjalar hf. eignaðist alla hluti í Eglu hf. eftir skiptingu Ker
hf. og samruna Kerstapa ehf. og Kjalars ehf. undir merkjum Kjalars hf. 

Í ársbyrjun 2007 sameinuðust Fjárfestingarfélagið Vending ehf. og Egla hf.
undir merkjum þess síðarnefnda. Eina eign Vendingar var 34% hlutur í Alfesca
hf. Eigið fé Vendingar við samrunann, sem miðaðist við 30. júní 2006, voru
rúmir 1,3 milljarðar króna, að teknu tilliti til skulda. 

Egla hf. tók þátt í hlutafjáraukningum í Kaupþingi banka hf. þegar hlutafé hans
var aukið á árinu 2004 eins og fyrr segir. 

Á árinu 2006 var ákveðið að færa eignarhaldið á hlutunum í Kaupþingi banka hf.
og Alfesca hf. til hollenskra eignarhaldsfélaga af skattalegum ástæðum. Voru þá
stofnuð dótturfélögin Kjalar Holding B.V. og Kjalar Invest B.V. Á árinu 2007
var stofnað félagið Egla Invest B.V. Eignarhald Eglu hf. í Kaupþingi banka hf.
varð eftir breytinguna vistað í Eglu Invest B.V., en eignarhald félagsins í
Alfesca hf. í Kjalari Invest B.V. Móðurfélag Eglu hf., Kjalar hf., ábyrgðist
öll lán Eglu Invest B.V. og Kjalars Invest B.V. við lánardrottna þeirra. 
Rekstur Eglu hf. var alla tíð einfaldur og jafnframt mjög jákvæður.

Rekstrarniðurstaða ársreikninga og árshlutareikninga Eglu hf. frá byrjun árs
2003 til loka ársins 2007 var ávallt jákvæð. Árið 2004 var eigið fé félagsins
jákvætt um rúma 18,5 milljarða króna og niðurstaða rekstrarreiknings jákvæð um
tæpa 9,7 milljarða króna. Árið 2005 var eigið fé orðið jákvætt um 34 milljarða
króna og niðurstaða rekstrarreiknings jákvæð um tæpa 17,7 milljarða króna. Árið
2006 var eigið fé orðið jákvætt um rúma 52,5 milljarða króna og
rekstrarniðurstaða ársins jákvæð um rúma 17 milljarða króna. Árið 2007 var
eigið fé jákvætt um tæpa 57 milljarða króna, og rekstrarniðurstaða jákvæð um
4,3 milljarða króna. Eigið fé Eglu hf. var jákvætt um tæpa 42 milljarða króna
um mitt árið 2008, sem er síðasta uppgjör sem félagið kynnti fyrir hrun
bankanna. 

Ekki verður því annað sagt en að rekstur Eglu hf. hafi gengið vel. Verðmæti
hluta félagsins í Kaupþingi banka hf., og einnig Alfesca hf., jókst að
verðmæti, á meðan rekstrarkostnaður var takmarkaður.  Fólst rekstrarkostnaður
félagsins, auk fjármagnskostnaðar, einkum í því að greiða fyrir endurskoðun
reikninga félagsins, auk kostnaðar við lögmannsþjónustu. 

Á fundi stjórnar Eglu hf. þann 3. febrúar 2005 var samþykkt að fara í útgáfu
verðtryggðra skuldabréfa til þess að endurfjármagna hluta af lánum félagsins.
Samþykkt var að gefa út skuldabréf fyrir kr. 5.000.000.000 að nafnverði.
Útgáfudagur bréfanna var 4. febrúar 2005 og voru þau seld í lokuðu útboði til
fagfjárfesta frá 4. febrúar til 28. febrúar 2005. Hefur félagið aðild að
Kauphöll Íslands á grundvelli þessa skráða skuldabréfaflokks. 

Skuldabréfin eru með árlegri greiðslu vaxta og einni greiðslu höfuðstóls.
Bréfin eru til 6 ára. Nafnvextir bréfanna eru 5,9%, er um að ræða fasta flata
ársvexti. Endurgreiða skal höfuðstól skuldarinnar með einni greiðslu þann 15.
apríl 2011. Bréfin eru verðtryggð og bundin vísitölu neysluverðs með
grunnvísitölu í febrúar 2005, 239,2. Bréfin voru gefin út í kr. 5.000.000
einingum og er því lágmarksviðskiptaeining þeirra sú sama.  Ábyrgðist Egla hf.
endurgreiðslu bréfanna með tekjum sínum og eignum. 

Þann 25. nóvember 2005 samþykkti stjórn Eglu hf. að stækka framangreindan
skuldabréfaflokk EGLA 05 1 um allt að 1.000 milljónir króna í þeim tilgangi að
afla fjármuna til að styðja við innri og ytri vöxt félagsins. Voru skuldabréfin
seld í lokuðu útboði og gilda allir sömu skilmálar um aukninguna og þau bréf
sem fyrir voru, m.a. sömu vaxtakjör og sami gjalddagi. Útistandandi eru
skuldabréf að nafnverði kr. 5.365.000.000 úr þessum flokki. 

Eins og framan greinir voru helstu eignir félagsins eignarhlutir í Kaupþingi 
banka hf. og Alfesca hf. í gegnum dótturfélög sín. Verðmæti hlutanna í bankanum
er hverfandi í dag og verðmæti hluta Alfesca hf. hefur lækkað verulega á sama
tíma en skuldirnar hafa hækkað, enda standa lán í erlendum myntum á bak við þau
eignasöfn.  Af þessu er ljóst að skuldir samstæðu Eglu hf. eru verulega miklu
meiri en markaðsverð eigna. Ljóst er að rekstur félagsins stefnir í þrot verði
ekki gripið til annarra ráðstafana til þess að ráða bót á fjárhagslegri stöðu
félagsins. 


II. EIGNIR OG SKULDIR FÉLAGSINS.

1. Eignir.

Eignir Eglu hf. felast nú einkum í þeim bankainnistæðum sem félagið á og kröfu
á Kjalar ehf. eftir að aðal eignir félagsins sem fólust í hlutabréfum eru að
engu orðnar. Eftirfarandi er tæmandi upptalning á eignum félagsins og er
verðmæti m.v. 31. mars 2009 (eru allar fjárhæðir í þúsundum króna nema annað sé
tekið fram): 
Eignir                                   Fjárhæð             Verðmæti
a. Bankainnistæður lausar                882.000             882.000
b. Bankainnistæður veðsettar             613.000             613.000
c. Fjármagnstekjuskattur                  25.692              25.692
d. Krafa á tengd félög                 7.700.000             310.000
e. Eignarhlutur í Exista                  51.893 (nafnverð)        0
f. Bakkvör Group                           2.000 (nafnverð)    2.000	
g. Eignarhlutur í Kjalar Holding BV       32.336  EUR              0


a. Bankainnistæður lausar.

Um er að ræða fjármuni sem koma að fullu til greiðslu til lánardrottna
félagsins.
 
b. Bankainnistæður veðsettar.
Samkvæmt lánasamningi Kjalars við Kaupþing banka eru hlutir í Eglu hf. settir
bankanum að handveði, og þ.m.t. allar arðgreiðslur af umræddum hlutabréfum og
arði undirliggjandi hluta. Standa umræddar arðgreiðslur enn til tryggingar
skuldbindingum Kjalars við bankann. Bankinn mun væntanlega ganga að veðum
sínum, þannig að fjárhæðin stendur ekki alm. lánardrottnum Eglu hf. til
fullnustu. 

c. Fjármagnstekjuskattur.
Um er að ræða fjármagnstekjuskatt sem félagið á inni hjá skattyfirvöldum.
Verður inneignin greidd út við álagningu þann 1. október 2009. Samkvæmt stöðu
félagsins nú telja forsvarsmenn félagsins fyrirséð að félaginu verður ekki
gerður neinn skattur sem gæti hugsanlega dregist frá inneign þessari, þannig að
þeir telja að inneign þessi muni óskert falla í hlut lánardrottna félagsins. 

d. Krafa á tengd félög.
Kjalar hf., móðurfélag Eglu hf., skuldar félaginu kr. 7.749.745.000. Miðað við
innra virði Kjalars, þá er ólíklegt, að óbreyttu, sjá þó nánari skýringar hér á
eftir, að meira en ca. kr. 310.000.000 greiðist upp í kröfu þessa.
 
e. Eignarhlutur í Exista.
Er einskis virði í dag.

f. Eignarhlutur í Bakkavör Group.
Eignarhluturinn er metinn á ca. kr. 2.000.000 í dag, en hann er veðsettur.
 
g. Eignarhlutur í Kjalar Holding BV.
Eignarhluturinn er einskis virði í dag. 

2. Skuldir
Skuldir Eglu hf. felast eingöngu í skuldabréfaflokknum sem gefinn var út þann
4. febrúar 2005 og síðari aukningu við hann. Uppreiknað verðmæti
skuldabréfaflokksins m.v. 1. apríl 2009 er 8.327.138.000 króna. Við upphaf
undirbúnings fyrir nauðasamningsumleitanir var félaginu ekki kunnugt um hverjir
væru eigendur skuldabréfa í flokknum og var Verðbréfaskráningu Íslands óheimilt
að veita félaginu upplýsingar um hverjir eigendur bréfanna væru. Var því farin
sú leið að Verðbréfaskráning Íslands sendi öllum eigendum skuldabréfa í
flokknum bréf þann 18. mars 2009 þar sem óskað var eftir því að eigendur gæfu
sig fram við lögmann félagsins og veittu upplýsingar um nafn, kennitölu og
heimilisfang eiganda, ásamt nafnverði skuldabréfanna. Skráðir eigendur
skuldabréfaflokksins eru 77 talsins skv. upplýsingum Verðbréfaskráningar
Íslands. Neðangreindar upplýsingar um eigendur skuldabréfanna byggja á svörun
við bréfi þessu og þeim upplýsingum sem tókst að afla frá vörsluaðilum
bréfanna. Þær upplýsingar eru enn ekki tæmandi: 

=> Hér kemur listi yfir eigendur skuldabréfanna.

M.ö.o., þá eru skuldir Eglu hf. nú rúmir 8,3 milljarðar króna, á meðan áætlað
verðmæti eigna félagsins nemur ca. 1,2 milljörðum króna, eða ca. 15% af
skuldum. 

Hins vegar geta tækifæri falist í því að Kjalar hf., sem er það félag sem
skuldar Eglu hf. rúma 7,7 milljarða króna, telur sig eiga umtalsvert háar
skaðabótakröfur á bæði Kaupþing banka hf. og Glitni banka hf., vegna vanefnda
bankanna á því að efna gjaldmiðlaskiptasamninga við félagið. Kjalar hf. mun
láta reyna á skaðabótakröfur sínar í dómsmálum. Ef skaðabótakröfurnar verða
samþykktar, þá falla niður með skuldajöfnuði allar skuldir félagsins við
Kaupþings banka hf., og félagið eignast kröfu vegna ógreiddra eftirstöðva á
væntanlegt þb. bankans, sem síðan er spurning hvað greiðist uppí, hugsanlega
20-30%. Kröfur Kjalars hf. á Glitni banka hf. eru lægri. Við uppgjör á kröfum
Kjalars hf. við Kaupþing banka hf. falla niður veðsetningar bankans í eignum
félagsins, sem þá standa orðið öðrum lánardrottnum til fullnustu, á sama tíma
og lánardrottnahópur Kjalars skreppur þá saman, allt miðað við framangreindar
forsendur. Ef til þess kemur, þá má leiða að því líkur að krafa Eglu hf. á
Kjalar hf. greiðist að verulegu leyti. 


III. FORSENDUR FYRIR BEIÐNI UM NAUÐASAMNING.

Gerð hefur verið ítarleg grein fyrir fjárhagslegri stöðu Eglu hf. hér að
framan. Af þeirri umfjöllun er ljóst að brýnt er að ráða bót á ógjaldfærni
félagsins hið fyrsta, en eignir félagsins standa ekki undir skuldbindingum þess
eins og staðan er nú. Eftir að ljóst varð í hvað fjárhagur Eglu hf. stefndi
hafa forsvarsmenn félagsins unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu
félagsins, og reynt að finna leiðir til þess að tryggja hag allra lánardrottna
félagsins sem best. 

Forsvarsmenn félagsins telja ljóst að fyrir félaginu liggi eingöngu að feta
annarra tveggja  færra leiða, annars vegar að reyna að komast að samkomulagi
við lánardrottna félagsins með þeim hætti sem lagt er til í
nauðasamningsfrumvarpinu, ellegar að óska eftir gjaldþrotaskiptum á félaginu
sem forsvarsmenn telja miklu lakari kost fyrir lánardrottna. Fari félagið í
þrot liggur fyrir miðað við stöðu félagsins nú að lánardrottnar muni fá mun
minna greitt upp í kröfur sínar. 

IV. SKÝRINGAR Á FYRIRLIGGJANDI FRUMVARPI AÐ NAUÐASAMNINGI.

Samkvæmt því sem reifað hefur verið hér að framan liggur fyrir að félagið lifir
ekki án þess að ná nauðasamningi við lánardrottna sína. Það frumvarp að
nauðasamningi er fylgir beiðni þessari felur það í sér að almennir
lánardrottnar fá 15% krafna sinna greiddar með reiðufé, annars vegar 10% innan
4ra vikna frá formlegri staðfestingu nauðasamningsins en hins vegar 5% innan 12
mánaða frá staðfestingu nauðasamnings. Þá felur frumvarpið í sér að
lánardrottnar félagsins bíði niðurstöðu þeirrar málsókna sem Kjalar ehf. hyggst
höfða á hendur gamla Kaupþings banka hf. og Glitni banka hf. Verði niðurstöður
þeirra málsókna að einhverju leyti í þágu Kjalar myndast fjármunir sem munu
greiðast til Eglu hf. Frumvarpið gerir ráð fyrir að allir fjármunir sem félagið
muni eignast, umfram þau 15% krafna sem frumvarpið beinlínis lofar að
lánardrottnum verði greiddar á næstu 12 mánuðum frá staðfestingu nauðasamnings,
að frádregnum kostnaði við að halda félaginu á floti meðan beðið er, gangi til
lánardrottna, þar til kröfurnar eru að fullu greiddar, ef vel tekst til. 
Boð það sem fram kemur í nauða¬samnings¬frum¬varpinu byggir á mati á efnahag og
rekstri Eglu hf. nú. Einu eignir Eglu hf. eru reiðufé sem til er í félaginu,
væntanlegar greiðslur frá skattayfirvöldum og hlutdeild Eglu hf. úr eigin fé
Kjalar hf. Hinn formlegi nauðasamningur gerir ráð fyrir að eftirgjöf skulda
lánardrottna geti orðið allt að 85%. Því þarf samþykki 85% þeirra lánardrottna
sem lýsa kröfum við þessar nauðasamningsumleitanir, bæði hvað varðar höfðatölu
og kröfumagn, til að frumvarpið teljist samþykkt. 

Engar tryggingar verða settar fyrir greiðslu samningskrafna samkvæmt
framangreindu, né verða vextir eða annar kostnaður greiddur meðan uppgjör á sér
stað. 

Framkvæmd nauðasamningsins mun vera með þeim hætti að þegar eftir formlega
staðfestingu samningsins, eða ekki síðar en 4 vikum þaðan í frá, þá verða
greidd 10% af kröfum, en 5% 12 mánuðum þaðan í frá. Ef betur vinnst úr kröfu
Eglu hf. á hendur Kjalari hf., þá mun sá ávinningur ganga óskertur til
lánardrottna eins og með þarf til að gera upp kröfur þeirra, en þó að
frádregnum kostnaði við rekstur félagsins. 

Í frumvarpinu sjálfu eru að öðru leyti ítarlegar upplýsingar um hvernig staðið
verður að framkvæmd frumvarpsins og hverjar forsendur þess eru. Verður ekki
talið að frumvarpið þarfnist frekari skýringa en hér hafa verið reifaðar. 
Lánardrottnar Eglu hf. sem teljast samningskröfuhafar eru samtals 77 skv.
upplýsingum Verðbréfaskráningar Íslands. Af þeim hafa xx mælt með að
nauðasamningsfrumvarpið verði lagt fram sem hafa að baki sér ríflega það
kröfumagn sem lög nr. 21/1991 krefjast. Þannig eru skilyrði 2. tölul. 1. mgr.
35. gr. uppfyllt. 


V. RÖKSEMDIR FYRIR SAMÞYKKI FYRIRLIGGJANDI FRUMVARPS.

Eðlilegt er að lánardrottnar spyrji sig þeirrar spurningar hvort þeir fái meira
út úr gjaldþrotaskiptaleið eða fyrirliggjandi frumvarpi að nauðasamningi. Því
er fljótsvarað að mati fyrirsvarsmanna Eglu hf. Ef Egla hf. yrði tekið til
gjaldþrotaskipta, eru verulegar líkur á að Kjalar hf. verði tekið til
gjaldþrotaskipta í kjölfarið. Við það munu líkur á að skaðabótakröfum Kjalars
hf. á hendur gömlu bönkunum, Kaupþingi og Glitni, verði ekki fylgt eftir. Í því
tilviki mun brunaútsala á eignum Kjalars ekki skila lánardrottnum Eglu hf.
ásættanlegu uppgjöri á kröfu Eglu hf. á hendur Kjalari hf. Af þessu er ljóst,
að mati stjórnar Eglu hf., að nauðasamningsleiðin er eini raunhæfi kosturinn
til að tryggja öllum lánardrottnum félagsins að ríflegar greiðslur upp í kröfur
þeirra. 

Þegar á allt er litið, þá verður nauðsamningsfrumvarpið að teljast bæði
sanngjarnt og jafnframt hagstæðari valkostur fyrir lánardrottna en
gjaldþrotameðferð. Kjósi lánardrottnar hins vegar þá leið, þá er eðlilegt að
verða við þeirri ósk. 

Engar ráðstafanir hafa átt sér stað sem hugsanlegt er að rifta ef
nauðasamningur kemst á fyrir Eglu hf., að því er best er vitað. 

VI. MEÐFYLGJANDI GÖGN.

Eftirfarandi gögn verða lögð fram á dómþingi við þingfestingu þessarar beiðnar:

1.  Beiðni þessi.

2.  Vottorð frá Fyrirtækajskrá um Eglu hf.

3.  Samþykktir Eglu hf.
 
4.  Ársreikningur Eglu hf. fyrir árið 2007 og árshlutareikningur fyrir fystu sex
    mánuði ársins 2008. 

5.  Yfirlit yfir eignir og skuldir m.v. 31. mars 2009.

6.  Yfirlýsing endurskoðanda um bókhald Eglu hf.

7.  Afrit skattframtals Eglu hf. fyrir árið 2007.

8.  Listi yfir lánardrottna Eglu hf., eins og upplýsingar liggja fyrir um, er
    falla undir nauðasamninginn.
 
9.  Frumvarp að nauðasamningi ásamt meðmælum.

10. Endurrit bókunar stjórnar Eglu hf. þar sem ákvörðun er tekin um að leita
    nauðasamnings við lánardrottna. 

Ekki er nauðsynlegt að setja tryggingu fyrir greiðslu kostnaðar af aðgerðum við
frekari undirbúning og gerð nauðasamnings, enda á Egla hf. í sjóði nú nægilega
fjármuni til að standa straum af þeim kostnaði. 



Virðingarfyllst,
f.h. Eglu hf.

Kristinn Hallgrímsson hrl.
 

FRUMVARP AÐ NAUÐASAMNINGI
- fyrir Eglu hf., kt. 551102-2030, Suðurlandsbraut 18, Reykjavík

1. kafli. 
Samningskröfur.

1.0.  Hvað boðið er, hvenær greitt og viðbótarskuldbinding.

1.1.  Lánardrottnum sem fara með samningskröfur er boðin greiðsla á 15% krafna
      sinna eins og þær standa þegar héraðsdómur heimilar
      nauðasamningsumleitanir samkvæmt frumvarpi þessu með: 

A.    Greiðslu 10% krafna ekki síðar en 4 vikum frá formlegri staðfestingu
      nauðasamnings þessa. 

B.    Greiðsla 5% krafna ekki síðar en 12 mánuðum frá formlegri staðfestingu
      nauðasamnings þessa.
 
C.    Að auki lofar Egla hf. að greiða lánardrottnum sínum til viðbótar andvirði
      allra eigna sinna, umfram andvirði þeirra sem ráðstafað hefur verið skv.
      stafliðum A. og B. hér að framan, eftir því sem það fellur til, eins og
      þær hrökkva til, og eins og þarf til að greiða kröfurnar að fullu, að
      frátöldum eðlilegum rekstrarkostnaði við að efna nauðasamning þennan.
 
1.2.	Til viðbótar framangreindum greiðsluskuldbindingum, þá skuldbindur Egla
hf. sig til þess að boða alla lánardrottna félagsins á alla hluthafafundi
félagsins, þar til búið verður að greiða kröfur þeirra upp að fullu, eða þar
til búið verður að ráðstafa öllum eignum félagsins til lánardrottna. Á þessum
hluthafafundum skal lánardrottnum boðið að tilnefna meirihluta stjórnarmanna
Eglu hf. Jafnframt skal lánardrottnum boðið að tilnefna einn fulltrúa í
lánardrottnanefnd Kjalars hf. meðan hún starfar. 

2.0.	Trygging fyrir greiðslum.

2.1.	Trygging verður ekki veitt fyrir greiðslum samkvæmt framangreindu.

3.0.	Samningskröfur miðast við úrskurðardag um heimild til að leita
         nauðsamnings. 

3.1.	Eftir að heimild hefur verið veitt til að leita nauðsamnings reiknast
hvorki samningsvextir, dráttarvextir né annar kostnaður, t.d. innheimtu- og
lögmannskostnaður af skuldbindingum  gagnvart þeim aðilum sem samningskröfur
eiga á hendur fyrirtækinu. 


2. kafli.

Forsendur fyrir frumvarpi þessu.

2.1.	Framangreind boð samkvæmt gr. 1.1. A. og B. í nauðasamningsfrumvarpi þessu
byggja á reiðufé sem félagið á í dag, væntanlegri endurgreiðslu
fjármagnstekjuskatts sem félagið fær greidda er álagning fer fram þann 1.
október 2009, auk hlutdeildar Eglu hf. í núverandi eigin fé Kjalars hf. vegna
kröfu félagsins að fjárhæð rúmar 7,7 milljarðar króna. Forsenda boðs samkvæmt
gr. 1.1. C. gerir ráð fyrir þeim möguleika að niðurstaða málareksturs Kjalars
hf. á hendur Kaupþingi banka hf. og Glitni banka hf. vegna uppgjörs
gjaldeyrisskiptasamninga gangi eftir að hluta eða öllu leyti, þannig að meira
verði til skiptanna milli lánardrottna félagsins, þar sem stærri hluti kröfu
Eglu hf. á hendur Kjalari hf. greiðist, og jafnvel að krafan greiðist að fullu.
 
Takist að innheimta framangreinda kröfu Eglu hf. á hendur Kjalari hf. að fullu,
falli niður veðsetning bankainnistæðu félagsins, og umtalsverðar greiðslur
berist frá væntanlegum þb. Kaupings banka hf. og Glitnis banka hf., upp í
eftirstæðar kröfu, munu lánardrottnar Eglu hf. hugsanlega fá kröfur sínar að
fullu uppgerðar, eða verulegan hluta þeirra. 

Meðan lánardrottnar hafa ekki fengið fullnaðargreiðslu skulda sinna samkvæmt
nauðasamningsfrumvarpi þessu  skulu þeir eiga seturétt á hluthafafundum Eglu
hf. og eiga sameiginlega rétt til þess að tilnefna meirihluta stjórnarmanna
félagsins. 

Reykjavík, 1. apríl 2009.
F.h. stjórnar Eglu hf.

________________________________
Kristinn Hallgrímsson hrl.


Undirritaðir atkvæðismenn um þetta samningsfrumvarp lýsum því hér með yfir að
við mælum með nauðsamningi á grundvelli þess:

Attachments

egla-ns-010409- drog ad beidni um heimild til nauasamnings.pdf