Íslandsbanki leysir til sín 42% hlutafjár í Icelandair Group hf.

Íslandsbanki hf. hefur tilkynnt að hann hafi leyst til sín 42% hlutafjár í
Icelandair Group hf. Fram kemur í tilkynningu bankans að aðgerðin hefur engin
áhrif á daglega starfsemi félagsins, að hlutabréf þess verði áfram skráð í
Nasdaq OMX kauphöllinni og að stefnt sé að því að hluturinn verði seldur aftur
í opnu og gagnsæju söluferli eins fljótt og unnt er. Jafnframt segir í
tilkynningu Íslandsbanka að rekstur Icelandair Group hafi gengið betur á fyrsta
ársfjórðungi 2009 en áætlanir gerðu ráð fyrir. 

Nánari upplýsingar veita
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group í síma  +3548961455
Bogi Nils Bogason, fjármálastjóri Icelandair Group í síma + 3546658801

Eftirfarandi er fréttatilkynning Íslandsbanka hf:

“ Fréttatilkynning frá Íslandsbanka hf.:

Íslandsbanki hf. leysir til sín 42% hlutafjár í Icelandair Group hf.
-	Hefur engin áhrif á daglega starfsemi félagsins
-	Hlutabréf félagsins áfram skráð í Nasdaq OMX kauphöllinni
-	FME veitir Íslandsbanka hf. undanþágu frá yfirtökuskyldu
-	Stefnt að því að hluturinn verði seldur aftur í opnu og gagnsæju söluferli

Reykjavík 18. maí 2009  Íslandsbanki hf. hefur í dag leyst til sín hlutabréf í
Icelandair Group hf., samtals um 42%. Fyrir átti bankinn tæp 5% í félaginu og á
því í dag samtals um 47%. Íslandsbanki hf. leysir bréfin til sín á genginu 4,5
fyrir hvern hlut sem er síðasta skráða viðskiptagengi með bréf í félaginu.
Aðgerðin hefur engin áhrif á daglega starfsemi Icelandair Group samstæðunnar. 

Hlutabréfin sem Íslandsbanki hf. hefur í dag leyst til sín voru til tryggingar
á lánum vegna hlutabréfakaupa í Icelandair Group hf. 

Áfram unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu
Rekstur Icelandair Group hf. gekk betur á fyrsta ársfjórðungi 2009 en áætlanir
gerðu ráð fyrir. Félagið hefur á síðustu mánuðum unnið að fjárhagslegri
endurskipulagningu félagsins í samvinnu við Íslandsbanka hf. Þeirri vinnu miðar
vel og það er vilji bankans að halda áfram samstarfi við núverandi stjórnendur
félagsins. 

Hlutabréf félagsins áfram skráð í Nasdaq OMX kauphöll
Icelandair Group hf. er skráð í Nasdaq OMX kauphöllinni og eru hluthafar
félagsins samtals um 850. Félagið samanstendur af 12 dótturfélögum sem starfa á
sviði flug- og ferðaþjónustu hérlendis og erlendis og hjá þeim félögum starfa
samtals um 4000 manns. 

Það er ætlun Íslandsbanka að Icelandair Group hf. verði áfram skráð í Nasdaq
OMX kauphöll. Eignarhlutur bankans verður seldur í opnu og gagnsæju söluferli
eins fljótt og unnt er. 

Fjármálaeftirlitið hefur veitt Íslandsbanka hf. tímabundna undanþágu frá
yfirtökuskyldu en takmarkað atkvæðisrétt bankans við 30% virkra atkvæða. 

Gert er ráð fyrir að boðað verði til hluthafafundar í félaginu á næstunni.


Nánari upplýsingar veitir:
Már Másson, forstöðumaður Samskiptasviðs, sími 844 4990,
mar.masson@islandsbanki.is . 
Vala Pálsdóttir, sérfræðingur, sími 844 4989, vala.palsdottir@islandsbanki.is .“