Hluthafafundur Bakkavarar Group hf. 26. mars 2010


Þann 5. mars. sl. birti Bakkavör Group hf. opinberlega tilkynningu um
hluthafafund félagsins sem haldinn verður 26. mars 2010. Í 2. lið dagskrár
hluthafafundarins er gerð „tillaga um að breyta félaginu í einkahlutafélag í
samræmi við ákvæði 132. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og afskrá félagið í
kjölfarið af Nasdaq OMX Iceland“. 

Um félög sem fengið hafa hlutabréf sín tekin til viðskipta í kauphöll gilda
sérstakar reglur sem leggja slíkum félögum á herðar ýmsar skyldur umfram önnur
félög. Þær skyldur sem hér um ræðir eru samkvæmt samningi Kauphallarinnar og
félagsins, reglum Kauphallarinnar sem félagið hefur undirgengist, lögum um
kauphallir, sem og öðrum lögum og reglum á sviði fjármálamarkaðar. Þau lög sem
hér er vitnað til eru sérlög sem ganga framar almennum reglum laga um
hlutafélög. 

Þegar félag er orðið einkahlutafélag eru hlutir þess ekki lengur tækir til
viðskipta í kauphöll. Því telur Kauphölllin að breyting Bakkavarar Group hf. úr
hlutafélagi í einkahlutafélag geti ekki átt sér stað fyrr en að lokinni töku
hlutabréfa félagsins úr viðskiptum í kauphöll. Samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laga
nr. 110/2007 um kauphallir er það Kauphöllin sem ákveður hvort og þá hvenær
hlutabréf útgefanda verða tekin úr viðskiptum, sbr. einnig grein 1.1.27 í
reglum Kauphallarinar fyrir útgefendur fjármálagerninga. 

Komi til þess að Bakkavör Group hf. verði breytt úr hlutafélagi í
einkahlutafélag, án þess að hlutabréf þess hafi áður verið tekin úr viðskiptum
í kauphöll samkvæmt þeim lögum sem um það gilda, lítur Kauphöllin svo á að um
sé að ræða brot á samningi félagsins við Kauphöllina og þeim lögum og reglum
sem að framan greinir. Kauphöllin mun tilkynna Fjármálaeftirlitinu um slíkt
brot í samræmi við þá lagaskyldu sem á henni hvílir í þeim efnum, sbr. 2. mgr.
21. gr. laga nr. 110/2007 um kauphallir.