Endurskipulagning Icelandair Group á lokastigi


Icelandair Group hf. og stærstu lánveitendur félagsins, Íslandsbanki og Glitnir
banki hf., hafa komist að samkomulagi um með hvaða hætti stefnt skuli að því að
ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu Icelandair Group. Í
endurskipulagningunni er meðal annars gert ráð fyrir aðkomu annarra lánveitenda
auk leigusala flugvéla sem dótturfélög Icelandair Group nýta í rekstri sínum.
Leita þarf eftir samþykki hlutahafafundar samstæðunnar fyrir ákveðnum þáttum
endurskipulagningarinnar, auk endanlegs samþykkis lánveitenda. Engar skuldir
samstæðunnar verða afskrifaðar. 

Daglegur rekstur samstæðunnar hefur gengið vel undanfarin misseri, en há
fjármagnsgjöld og miklar skammtímaskuldir hafa haft neikvæð áhrif á stöðu
félagsins. Stjórnendur Icelandair Group hafa undanfarna mánuði unnið náið með
lánveitendum að fjárhagslegri endurskipulagningu til að treysta grunn
félagsins. Icelandair Group hefur auk þess haft  sér til ráðgjafar erlendan
banka með sérþekkingu á sviði flugrekstrar. 

Ef endurskipulagningin gengur eftir er gert ráð fyrir að innlendir lánveitendur
breyti skuldum að fjárhæð um 4,8 milljörðum króna í hlutafé. Auk þess verða
skuldir að fjárhæð 7,7 milljarðar króna ásamt jafnvirði eigna færðar í sérstakt
eignarhaldsfélag sem verður í eigu innlendra lánveitenda. Eftir í Icelandair
Group verða þær eignir sem stjórn samstæðunnar hefur skilgreint sem
kjarnastarfsemi: Icelandair, Flugfélag Íslands, Iceland Travel (Vita),
Icelandair Cargo, Icelandair Hotels, Icelandair Ground Services,
Loftleiðir-Icelandic og Fjárvakur auk lettneska leiguflugfélagsins SmartLynx,
sem stefnt er að fari út úr samstæðunni á árinu. 

Að lokum er gert ráð fyrir að fjárfestum og almenningi verði gefinn kostur á að
leggja félaginu til nýtt hlutafé í hlutafjárútboðum á árinu sem fara munu fram
í tveimur hlutum. Fyrri hluti verður lokað útboð meðal afmarkaðs hóps
fagfjárfesta. Í framhaldi af því er stefnt að almennu hlutafjárútboði en það er
vilji Icelandair Group, Íslandsbanka og Glitnis að tryggja aðkomu breiðs hóps
fjárfesta, jafnt fagfjárfesta og almennra fjárfesta. Icelandair Group hefur
falið fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka að hafa umsjón með hlutafjárútboðunum. 

Samkvæmt bráðabirgðarekstrarreikningi nam heildarvelta félagsins á árinu 2009
80,3 milljörðum króna af áframhaldandi starfsemi. Þar af nam velta
kjarnastarfsemi 75,2 milljörðum króna. Hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og
afskriftir (EBITDA) nam 8,1 milljarði króna og af kjarnastarfsemi 7,3
milljörðum króna. Með fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins verður áætluð
velta ársins 2010 78,2 milljarðar króna af kjarnastarfsemi og áætluð EBITDA 7,6
milljarðar króna. 

Í viðhengi eru drög að efnahagsreikningi Icelandair Group þann 31. desember
2009 (vinstri dálkur) auk áhrifa fyrirhugaðrar fjárhagslegrar
endurskipulagningar á efnahagsreikning félagsins (hægri dálkur) án tillits
fyrirhugaðs hlutafjárútboðs. 

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri:
„Með fjárhagslegri endurskipulagningu Icelandair Group mun lausa- og
eiginfjárstaða styrkjast til muna og gera samstæðunni kleift að takast betur á
við árstíðarbundnar sveiflur í rekstri og styðja við innri vöxt. Með því að
selja þær eignir sem ekki tilheyra kjarnastarfsemi hefur félagið einfaldað
viðskiptalíkan sitt og með endurskipulögðum efnahagsreikningi er félagið í
aðstöðu til að skila góðri rekstrarafkomu og standa við skuldbindingar sínar.
Icelandair Group er að hverfa frá því að vera fjárfestingarfélag í að vera
rekstrarfélag í alhliða ferða- og flugþjónustu.“ 

Vegna endurskipulagningarinnar hefur Icelandair Group ákveðið að fresta
birtingu ársreiknings 2010 þar til í 15. viku og er áætlað að aðalfundur
félagsins verði haldinn í maí. 

Frekari upplýsingar veita:
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri, 896-1455
Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála, 665-8801

Attachments

icelandairgroup_fjh_endursk.pdf