Ársreikningur 2009


Ársreikningur Fjarðabyggðar 2009 tekinn til fyrri umræðu í bæjarstjórn

Fimmtudaginn 29. apríl 2010 var ársreikningur Fjarðabyggðar 2009 tekinn til
fyrri umræðu í bæjarstjórn. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal fjalla um
ársreikninginn á tveimur fundum í bæjarstjórn. Seinni umræða um ársreikninginn 
fer fram í bæjarstjórn 6. maí næstkomandi. 

Rekstrarniðurstaða án fjármunatekna og fjármagnsgjalda fyrir A og B hluta var
jákvæð sem nam 368 millj. kr. á árinu. Þar af var rekstrarniðurstaða í A hluta
neikvæð um 35 millj. kr. 

Að teknu tilliti til fjármagnsliða var rekstrarniðurstaða A og B hluta neikvæð
um 571 millj. kr. og rekstrarniðurstaða A hluta neikvæð um 594 millj. kr. 

Rekstrartekjur A og B hluta sveitarfélagsins námu samtals 4.082 millj. kr. en
þar af námu rekstrartekjur A hluta 2.990 millj. kr. Til samanburðar voru
rekstrartekjur A og B hluta á árinu 2008 samtals 4.099 millj. kr. Útsvar og
fasteignaskattar lækka um 4% á milli ára og aðrar tekjur um 8%.
 
Rekstrargjöld að meðtöldum afskriftum í A og B hluta námu 3.713 millj. kr. og
þar af voru rekstrargjöld A hluta 3.025 millj. kr. Rekstrargjöld A og B hluta
hækka um 2,2% á milli ára. 

Á milli ára nemur hækkun launa og launatengdra gjalda 0,2%, annar
rekstarkostnaður hækkar um 3,0% og afskriftir hækka um 11,1%. 

Veltufé frá rekstri hjá A og B hluta nam 403 millj. kr. á árinu og handbært fé
frá rekstri nam 276 millj. kr. Til samanburðar var veltufé frá rekstri hjá A og
B hluta á árinu 2008 samtals 613 millj. kr. og handbært fé frá rekstri 581
millj. kr. Veltufjárhlutfall í lok árs 2009 var 1,38 fyrir A hluta og 0,86
fyrir A og B hluta. 

Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur A og B hluta námu 941 millj. kr.
samanborið við 2.005 millj. kr. árið 2008. Áhrif verðlagsþróunar til hækkunar á
höfuðstól verðtryggðra lána nam 417 millj. kr. á árinu og áhrif vegna
óhagstæðrar gengisþróunar 142 millj. kr. Til samanburðar nam gengistap vegna
langtímalána á árinu 2008 samtals 1.200 millj. kr. og áhrif verðlagsþróunar á
höfuðstól verðtryggðra lána nam 639 millj. kr. 

Fjárfesting umfram sölu eigna í A og B hluta nam samtals 278 millj. kr. á árinu
2009 samanborið við 762 millj. kr. árið áður. Afborganir langtímalána námu 529
millj. kr. á árinu og tekin voru ný langtímalán að fjárhæð 684 millj. kr.
Handbært fé hækkaði um 293 millj. kr. á árinu og nam 350 millj. kr. í árslok
2009. 

Eignir sveitarfélagsins eru í lok árs 2009 samtals 11.170 millj. kr. þar af
10.102 millj. kr. í fastafjármunum. Á meðal fastafjármuna eru færðar leigðar
eignir samtals að fjárhæð 1.258 millj. kr. Langtímaskuldir við lánastofnanir
eru 7.172 millj. kr., leiguskuldir 1.983 millj. kr., skammtímaskuldir 1.235
millj. kr. og lífeyrisskuldbinding 1.405 millj. kr. 

Í ársreikningi Fjarðabyggðar 2009 eru tekin inn tilmæli Reikningsskila- og
upplýsinganefndar sveitarfélaga frá því í mars og apríl 2010 um færslu
leigusamninga fasteigna og annarra mannvirkja sem og færslu á lóðum og lendum í
bókhaldi og reikningsskilum sveitarfélaga. Reglur þessar taka þegar gildi og
skal þeim beitt við reikningsskil sveitarfélaga fyrir árið 2010 með
heimildarákvæði til að taka þau inn í ársreikning 2009 sem Fjarðabyggð hefur
þegar gert í framlögðum ársreikningi. Áhrif þessara breytinga lækka eigið fé A
og B hluta um 184 millj. kr. 

Nánari upplýsingar veitir fjármálastjóri Fjarðabyggðar Björgvin Valdimarsson í
síma 470-9000.

Attachments

arsreikningur fjarabyggar 2009.pdf arsreikningur 2009_samantekt.pdf