Birting ársreiknings fyrir 2009


30.04.2010

Fréttatilkynning frá Eignarhaldsfélaginu Farice ehf

Birting ársreiknings fyrir 2009

Samstæðuuppgjör Eignarhaldsfélagsins Farice ehf nær yfir rekstur sæstrengjanna
FARICE og DANICE og tengd kerfi, auk þeirra nýframkvæmda sem félagið hefur
staðið fyrir.  Starfsmynt félagsins er evrur og hefur svo verið frá stofnun
þess. 

Tekjur félagsins eru vegna sölu á samböndum um eigin sæstrengskerfi milli
Íslands og nágrannalandanna, auk tekna vegna endursölu á samböndum um Greenland
Connect sæstrenginn.  Viðskiptavinir eru íslensk og erlend fjarskiptafélög.  Á
árinu 2009 námu tekjur félagsins 5,8 milljónum evra, en voru um 8,6 millj. evra
árið 2008.  Lækkun tekna frá árinu 2008 skýrast aðallega af erfiðum
markaðsaðstæðum. 

Framlegð af rekstri (EBITDA) á árinu var jákvæð og nam rúmlega 1,3 millj. evra.
Tap ársins nam um 14,6 millj. evra, sem skýrist aðallega af háum
fjármagnskostnaði og afskriftum. Eigið fé nam 11,8 millj. evra í árslok 2009. 

Á árinu tók félagið í notkun DANICE-sæstrenginn milli Íslands og Danmerkur og
er sæstrengurinn nú notaður til jafns við FARICE-sæstrenginn fyrir sambönd
milli Íslands og annarra Evrópulanda. 

Í áætlunum var gert ráð fyrir talsverðum tekjum af starfsemi gagnavera, en þær
áætlanir brugðust á árinu.  Áætlanir gera þó ráð fyrir auknum tekjum af
starfsemi gagnavera á næstu misserum. 

Stjórn félagsins ákvað í nóvember s.l. að hefja vinnu við endurskipulagningu
fjármögnunar félagsins til lengri tíma, með samningum við helstu lánardrottna
félagsins.  Stefnt er að því að vinnu þessari ljúki á öðrum ársfjórðungi 2010,
en helstu lánveitendur félagsins hafa tekið þátt í þeirri vinnu. 

Um nánari upplýsingar er vísað til ársreiknings sem samþykktur var af stjórn
félagsins í dag. 



Tengiliður:	Guðmundur Gunnarsson, framkvæmdastjóri, sími 893 4840

Attachments

e-farice consolidated 311209.pdf