7,2 milljarða hagnaður Orkuveitu Reykjavíkur á fyrsta ársfjórðungi 2010


Áframhaldandi afkomubati er í rekstri Orkuveitu Reykjavíkur (OR). Hagnaður
eftir skatta á fyrstu þremur mánuðum ársins 2010 nam 7,2 milljörðum króna og er
það í framhaldi af 8,8 milljarða króna hagnaði þrjá síðustu mánuði ársins 2009.
Árshlutareikningur samstæðu OR var samþykktur á stjórnarfundi í dag. 

Rekstrarhagnaður OR fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir, EBITDA, fyrstu
þrjá mánuði ársins 2010 var 4,2 milljarðar króna. Hagnaður fyrir skatta nam
10,1 milljarði króna. Reiknaðir skattar eru 2,9 milljarðar og afkoma
tímabilsins því 7,2 milljarðar króna. 

Greiddir vextir OR á fyrsta ársfjórðungi 2010 námu 597 milljónum króna.
Samsvarandi fjárhæð 2009 nam 1.805 milljónum króna. Vaxtakostnaður lækkar því á
milli tímabila um meira en tvo þriðju, eða 1.208 milljónir króna. Ástæðan er að
á árinu 2009 þurfti OR að leita á íslenskan lánamarkað, þar sem vextir eru
meira en tífaldir meðalvextir lána OR, sem eru 0,88%. 

Í árshlutareikningnum sér merki þeirra aðhaldsaðgerða, sem gripið hefur verið
til í rekstri OR. Annar rekstrarkostnaður, þar sem orkukaup, afskriftir og
launakostnaður eru undanskilin, lækkar frá fyrsta ársfjórðungi 2009 um 84
milljónir króna, eða 9,3%. 
Árshlutareikningurinn er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla.

Helstu niðurstöður tímabilsins 1.1. til 31.3. 2010

Rekstur Orkuveitu Reykjavíkur var með 7.187 milljóna króna hagnaði fyrstu þrjá
mánuði ársins 2010 samanborið við 1.812 milljóna króna hagnað á sama tímabili
2009. 
 
Rekstrartekjur tímabilsins námu 7.422 milljónum króna en voru 6.541 milljónir
króna sama tímabil árið áður. 
 
Hagnaður fyrirtækisins fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir, EBITDA, var
4.232 milljónir króna samanborið við 3.335 milljónir króna sama tímabil árið
áður. 
 
Fjármagnsliðir voru jákvæðir um 7.916 milljónir króna á tímabilinu, en voru
jákvæðir um 703 milljónir á sama tímabili árið 2009. 
 
Heildareignir þann 31. mars 2010 voru 292.119 milljónir króna en voru 281.526
milljónir króna 31. desember 2009. 
 
Eigið fé þann 31. mars 2010 var 47.793 milljónir króna en var 40.657 milljónir
króna 31. desember 2009. 
 
Heildarskuldir fyrirtækisins þann 31. mars 2010 voru 244.326 milljónir króna
samanborið við 240.868 milljónir króna í árslok 2009. 
 
Eiginfjárhlutfall var 16,4% þann 31. mars 2010 en var 14,4% í árslok 2009.
 
Ýmis mál
OR fjármagnar fjárfestingar sínar með erlendum lánum vegna hins mikla
vaxtamunar sem verið hefur hér á landi og erlendis. Hann hefur verið um og yfir
10 prósentustig. Við gengisfall íslensku krónunnar hækkuðu hin erlendu lán í
íslenskum krónum talið og hafði það slæm áhrif á eiginfjárstöðu OR. 

Endurgreiðslutími fjárfestingalána OR er allt til ársins 2027. Það veltur því á
þróun gengis fram til þess tíma hver endurgreiðslufjárhæð lánanna verður í
íslenskum krónum. Allan lánstímann nýtur OR á móti hins margfalda vaxtamunar.
Lægri vaxtagreiðslur hafa áhrif á greiðsluflæði, rekstrarniðurstöðu
eiginfjárhlutfall og endurfjármögnunarþörf fyrirtækisins. Jafnframt njóta
viðskiptavinir OR hagstæðra vaxtakjara með lágri gjaldskrá. 

Horfur
Áfram er unnið að stækkun Hellisheiðarvirkjunar. Áformað er að taka 4. áfanga
hennar, framleiðslu á heitu vatni, í notkun undir lok yfirstandandi árs og 5.
áfanga virkjunarinnar, framleiðslu á 90 MW rafafls, síðla árs 2011. 

Þann 20. nóvember síðastliðinn samdi Orkuveita Reykjavíkur við Evrópska
fjárfestingabankann um hagstæða fjármögnun helmings 5. áfanga
Hellisheiðarvirkjunar og helming fyrirhugaðrar Hverahlíðarvirkjunar. Ekki
verður ráðist í byggingu Hverahlíðarvirkjunar fyrr en fyrirvaralausir
sölusamningar á orku hennar liggja fyrir og fjármögnun á ásættanlegum kjörum
verið tryggð að fullu. Viðræður við hugsanlega kaupendur standa yfir. 

Gengi íslensku krónunnar styrktist um 2,5% á fyrsta ársfjórðungi og hefur
styrkst um önnur 2,8% síðan. Eiginfjárstaða Orkuveitu Reykjavíkur mun á næstu
misserum ráðast að miklu leyti af stöðu íslensku krónunnar gagnvart erlendum
gjaldmiðlum. 

Nánari upplýsingar veitir Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri Orkuveitu
Reykjavíkur, í síma 516-6000

Attachments

orkuveita reykjavikur 31.3.2010 arshlutareikningur.pdf