Yfirlýsing peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands: Seðlabankinn lækkar vexti


Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um
0,75 prósentur. Vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana lækka í 4,75% og
hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum í 6,0%. Vextir á lánum gegn veði til sjö
daga lækka í 6,25% og daglánavextir í 7,75%. 

Verðbólga minnkaði áfram í ágúst, eftir töluverða hjöðnun frá því í mars. Tólf
mánaða verðbólga var 4,5% í ágúst, eða 3,8% ef áhrif hærri neysluskatta eru
frátalin. Slaki í þjóðarbúskapnum og gengishækkun krónunnar það sem af er ári
styðja við áframhaldandi hjöðnun verðbólgu.
 
Þjóðhagsreikningar fyrir annan fjórðung ársins benda til þess að eftirspurn og
hagvöxtur séu í meginatriðum í takt við uppfærða spá Seðlabankans frá því í
ágúst, þótt veikari fjárfesting bendi til þess að samdrátturinn í ár verði nær
því sem spáð var í maí. Enn er þó gert ráð fyrir að efnahagsbati hefjist á
seinni hluta ársins. Verðbólguhorfur eru einnig svipaðar og þær voru í ágúst.
Gert er ráð fyrir að verðbólga án áhrifa neysluskatta verði við markmið bankans
í lok árs og að hún verði komin nokkuð niður fyrir það snemma á næsta ári.
Verðbólguvæntingar hafa einnig lækkað að undanförnu. 

Frá fundi peningastefnunefndarinnar í ágúst hefur gengi krónunnar hækkað um
u.þ.b. hálfa prósentu gagnvart viðskiptaveginni gengisvísitölu og evru.
Reglubundin kaup Seðlabankans á gjaldeyri hófust 31. ágúst síðastliðinn. Eins
og við var búist, virðast þau ekki hafa haft áhrif á stöðugleika krónunnar.
Gjaldeyrishöftin, þróun viðskiptakjara og annarra þátta sem áhrif hafa á
viðskiptajöfnuð, ásamt aðhaldsstigi peningastefnunnar í samanburði við helstu
viðskiptalönd halda áfram að styðja við gengi krónunnar. 

Horfur eru á að þriðju endurskoðun efnahagsáætlunar stjórnvalda og
Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ljúki fyrir septemberlok. Að henni lokinni verða
skilyrði þess að halda áfram að leysa gjaldeyrishöftin til staðar hvað áhrærir
gjaldeyrisforða og þjóðhagslegan stöðugleika. Auk þess hefur dregið verulega úr
óvissu um styrk fjármálakerfisins í kjölfar nýlegs dóms Hæstaréttar um
viðmiðunarvexti lánasamninga sem innihalda óskuldbindandi
gengistryggingarákvæði. Skilyrði þess að leysa höftin eru því nær því að vera
fyrir hendi en þau voru í ágúst, en það flækir framkvæmd peningastefnunnar til
skamms tíma litið. 

Nefndin telur að eitthvert svigrúm sé enn til staðar til áframhaldandi slökunar
peningalegs aðhalds haldist gengi krónunnar stöðugt eða styrkist og hjaðni
verðbólga eins og spáð er. Áætlanir um afnám hafta á fjármagnshreyfingar skapa
hins vegar óvissu um hversu mikið svigrúmið er til skemmri tíma. Nefndin er
reiðubúin til þess að breyta aðhaldi peningastefnunnar eins og nauðsynlegt er
með hliðsjón af því tímabundna markmiði hennar að stuðla að gengisstöðugleika
og í því skyni að tryggja að verðbólga verði nálægt markmiði til lengri tíma
litið.