Marel hf. tryggir langtímafjármögnun að upphæð 350 milljónir evra


Marel undirritaði í dag samning við hóp sex alþjóðlegra banka um
langtímafjármögnun að upphæð 350 milljónir evra. Meðal vaxtakjör í upphafi
samnings eru EURIBOR/LIBOR + 320 bps og er reiknað með að vaxtaálag muni lækka
á lánstímabilinu, í takt við aukinn fjárhagslegan styrk fyrirtækisins. 

Þetta eru mikil tímamót fyrir Marel og nýja fjármögnunin skapar fyrirtækinu
sterkan grundvöll til framtíðar. Samningurinn gerir félaginu kleift að
endurfjármagna allar núverandi skuldir á hagstæðum kjörum. Sá stöðugleiki í
fjármögnun og sveigjanleiki fyrir félagið sem fjármögnunin hefur í för með sér
styður einnig við langtímaáætlanir og áframhaldandi vöxt fyrirtækisins. Að auki
gerir fjármögnunin samþættingu starfseminnar að fullu mögulega. 

Sex alþjóðlegir bankar, undir forystu ING Bank (e. Coordinating Bookrunner),
ásamt Rabobank og ABN Amro (e. joint bookrunners), standa að þessum heildar
fjármögnunarpakka sem samanstendur af lánum að upphæð samtals 350 milljónum
evra. Myntsamsetning lánanna endurspeglar myntsamsetningu tekna og eigna
félagsins. Helstu liðir í fjármögnuninni eru: 

• Sambankalán og ádráttarlán (e. revolver) til fimm ára sem samanstenda af
sambankaláni, að upphæð 135 milljónir evra og 115 milljónir Bandaríkjadala, og
fjölmynta ádráttarláni sem nemur 100 milljónum evra. Bæði eru með lokagjalddaga
í nóvember 2015. Vaxtaálag í upphafi samnings er EURIBOR/LIBOR + 300 bps, sem
mögulega lækkar á lánstímabilinu. 
• Greiðsluvíkjandi (e. junior) sambankalán til sex ára að upphæð 30 milljónir
evra sem breytanlegt er í almennt sambankalán, háð fjárhagslegri afkomu
félagsins. Vaxtaálag í upphafi samnings er EURIBOR/LIBOR + 500 bps. 
• Kjör og skilmálar eru í samræmi við LMA fyrirtækjaviðmið (e. Loan Market
Association corporate standards). 

Theo Hoen, forstjóri:
„Við erum þakklát því trausti sem hópur leiðandi alþjóðlegra fjármálastofnana
sýnir okkur. Umræddar fjármálastofnanir deila þeirri skoðun okkar að
langtímahorfur í rekstri Marel séu góðar. Eftir að hafa tryggt okkur stöðuga og
hagkvæma fjármögnun getum við nú horft fram á veginn og einbeitt okkur að vexti
starfseminnar og aukinni arðsemi.“ 

Árni  Oddur Þórðarson, stjórnarformaður:
„Við erum stolt af þeim árangri sem stjórnendur og 3.500 starfsmenn
fyrirtækisins hafa náð. Á aðalfundi Marel árið 2006 kynntum við áætlun um vöxt
í tveimur áföngum þar sem stefnt var að því að ná leiðandi stöðu í greininni á
heimsvísu á næstu 10 árum og 15-20% markaðshlutdeild. Með fjármögnuninni sem nú
er kynnt lýkur fyrsta áfanga, sem einkenndist af stefnumarkandi yfirtökum,
samþættingu og endurskilgreiningu á áherslum í rekstri. Nú hefst formlega annar
áfangi í þessu ferli og verður aðaláhersla lögð á aukið rekstrarhagræði og
sterkan innri vöxt sem studdur verður af rannsóknar- og þróunarstarfi ásamt
öflugri markaðssókn.“ 

Kynningarfundur um fjármögnunina, 26. nóvember 2010
Marel hf. boðar til kynningarfundar með markaðsaðilum, fjárfestum og fjölmiðlum
þar sem nýja fjármögnunin verður kynnt. Fundurinn fer fram á Hilton Reykjavík
Nordica föstudaginn 26. nóvember, kl. 11:30. Erik Kaman, fjármálstjóri, og
Sigsteinn P. Grétarsson, forstjóri Marel ehf., munu annast kynninguna. Árni
Oddur Þórðarson, stjórnarformaður, mun einnig taka til máls. 

Boðið verður upp á léttan hádegisverð. 

Nánari upplýsingar veitir:
Jón Ingi Herbertsson, fjárfesta- og almannatengill, jon.herbertsson@marel.com,
sími: 563 8451